<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 30, 2004

Skyldu Virgin Islands heita Meyjareyjar á íslensku?

|
Titl(ing)atog

Í Speglinum í gærkvöldi var talað við einhvern "prófessor doktor" Hannes Hólmstein Gissurarson. Hva, voða sleikjuháttur er þetta...er það vegna þess að hann vann forsetakosningarnar eða hvað? Skil ekki...

|

þriðjudagur, júní 29, 2004

Ekki kúl að heita Daddi

Ég man eftir viður(/upp-)nefnum eins og Bjössi jájá, Elli skrýtni í Eskihlíðinni og Gunni Dó. Nú er greinilega hipp og kúl að vera kallaður geðklofa Litháinn.

|
Jeg har skidetravlt, men lidt websurfing skader vel ikke...?

Fann rússneska heimasíðu sem er tileinkuð brasilískum sápum og þar eru nýlegar myndir af hetjunum mínum úr fyrrnefndum þáttum. Allir orðnir feitir og úr sér gengnir, enda fæstir leikaranna fæddir eftir 1930. Úff...slap in the face maður!

Yngismær (Sinhá Moça) var gerð árið 1986 og Ambátt (A Escrava Isaura) er frá árinu 1976. Sem sagt háaldraðar sápur. Skyldi vera hægt að fá þær á Ebay? Er ekki allt til þar?

|

Og þetta er illi plantekrueigandinn með skylmingaörið sem með hjálp dóttur sinnar varð réttsýnn og þrælgóður (að mig minnir) Posted by Hello

|

þetta eru þau Sinhá Moca og Rodolfo, sjáiði hvað hann er fallegur og góður!
 Posted by Hello

|
Krónhjón

Af hverju eru Mette Marit og Hákon kölluð krónprinshjón? Af hverju ekki krónhjón?

|

mánudagur, júní 28, 2004

Gallup Schmallup

Nú leita ég aðstoðar ykkar Á-Íslandi-búandi lesenda, og geri það með könnun hér til hægri. Sko, ég var búin að fylgjast "spennt" með þessari "tvísýnu" kosningabaráttu og "sat límd" við langbylgjuskipaútvarpið á laugardaginn. Samt skil ég ekki þessi úrslit. Sko í fyrsta lagi eru nefnd miklu fleiri nöfn sem eiga að hafa komið vel út úr kosningunum en voru nefnd í byrjun og í öðru lagi er ekkert víst að sá sem fékk flest atkvæði hafi unnið...sko Mogginn lýgur aldrei! Nú spyr ég því: Hver vann?


|
Humble pie

Menntamálaráðherra Skota er nú meiri kallinn. Það hefur staðið nokkur styr um hann undanfarið. Til dæmis ákvað fólk á hans snærum að segja upp gervöllum skoska óperukórnum augnabliki áður en hann átti að stíga á svið. Svo í síðustu viku mætti hann of seint í spurnarstund ("question time") í þinginu og bar fyrir sig að hafa verið á mikilvægum fundi í nafni embættisins. En kjáninn áttaði sig auðvitað ekki á því að það hafði sést til hans í mötuneytinu þar sem hann gleymdi sér við bökuát. Þessi blákalda lygi í opið geð þingsins kallaði auðvitað á kröfur um uppsögn. Hann baðst afsökunar og var með því látinn eta "humble pie", en það er einmitt orðatiltæki sem þýðir að viðurkenna mistök sín og éta ofan í sig stoltið. Og hann situr sem fastast.

Talandi um bökur-um daginn rakst ég á uppskrift að Key lime pie og var um leið í huganum komin í stofuna hjá ömmu hennar Huldu sem ég var með í áttunda bekk. Ástæða þessa er að þar komst ég að því að í Bandaríkjunum er sumardvalarstaður sem heitir Key West. Þessi staður var nefnilega vettvangur æsilegra atburða í Santa Barbara þættinum sem ég var vitni að þetta síðdegi. Þessi sápuópera var aðalhittarinn í skólanum og allir fylgdust með...nema ég sem átti ekki afruglara. Allir vissu hver drap hvern og hver hélt við hvern...nema ég. Hins vegar vissi ég allt um hagi illa bróðurins Ricardo og góða bróðurins Rodolfo í brasilísku sápunni Yngismey á RÚV.

Við vorum heima hjá ömmu hennar Huldu á Hringbrautinni til að ná þessum æðislega þætti áður en við áttum að mæta í sund. Hulda kveiki á afruglaranum, og poppaði í örbylgjuofninum-hvorugt var til á mínu heimili, þvílík upplifun! En svo þegar þátturinn byrjaði leiddist mér svoooo, þetta var svo leiðinlegt! Engir þrælar, engar skylmingar, tsssss! Mig minnir að ég hafi leikið mér við hundinn þar til við fórum í skólasund. Þegar heim var komið fékk ég minn daglega skammt af Yngismey með rófubita í annarri og mjólkurglas í hinni, ánægð með mitt fólk.

|

sunnudagur, júní 27, 2004

Tap og aftur tap

Úff, tvöfalt tap hjá mínum mönnum-Baldur og Svíarnir stóðu sig ekki eins og best var á kosið í gær. Uppgötvaði hins vegar eitt undir glápi mínu á þennan æsispennandi leik: Spennandi fótboltaleikir eru ágætir til styrkingar grindarbotnsvöðva-þeir bara spennast átómatískt! Og þar er einmitt komin ástæða fyrir kvenfólk að horfa á fótbolta-og jafnvel alla hina líka sem eru að fussa yfir því að sumar"dagskrá" Sjónvarpsins sé fórnað. Dagskrá schmagskrá! Ég vil bara minna það fólk á að nú stefnir í Ólympíuleika og ekki skánar ástandið þá-múhúhahaha.

Annars vil ég líka þakka Baldri fyrir að hafa loksins skrifað athugasemd á síðuna, enda er ég búin að vera að hvetja hann til þess lengi lengi. Takk vinur minn, þú ert nettur, hipp og kúl ;)

Og nú er bara að undirbúa sig fyrir Danina í kvöld, það eru sko mínir menn. Það væri gaman að sjá þá taka Hollendingana. Mér finnst Jaap Stam vera ógeðslegur og að hann eigi ekki skilið að vera Evrópumeistari. Svo á Ruud Van Nistelrooy ekkert gott skilið fyrir ofleikinn í vítateig. Hins vegar finst mér Reiziger vera með flottasta tanngarðinn í fótboltaheiminum, hann er bara heldur tregur til að flagga honum.

|

föstudagur, júní 25, 2004

Daginn. Hér hefur bæst inn könnunarkorn því ég vil virkja þessa lötu lesendur mína (nú fyrir utan Ingu Lilý sem seint getur talist löt). Gat ómögulega látið mér detta í hug betri nöfn en þetta, en góðar tillögur eru vel þegnar. Svona til að útskýra:
A) í tilefni forsetakosninganna er þetta nafn tileinkað Baldri "hrognamál" Ágústssyni (kíkið á þetta)
B) sé orðið "nýi" varla ritað án joðs nú um stundir
C) skýrir sig sjálft
D) Danir eru einstaklega glúrnir við að fá ólíklegustu orð til að ríma, sleppa bara einum staf eða jafnvel hálfu orði.

Og aðeins meiri málhreinsunarfasismi í lokin...síðasta upphlaupið, ég lofa.
"Þessi fallegi dagur" með Bubba: Veit ekki hvað vakti mig/vill liggja um stund. Hver vill liggja um stund? Ég ætla rétt að vona að það sé ekki hann sjálfur.


Hmmmm....kannski er það þetta sem gerir að lesendur mínir (ef einhverjir eru) láta ekki í sér heyra. Ég er alltaf svo bévíti neikvæð. En nú skal blaðinu snúið við, lofa!

|

fimmtudagur, júní 24, 2004

Stundum þarf engan stórviðburð til að lifni yfir manni. Var æðandi fram og til baka í hamagangi í risastórri matarbúð um daginn og rak þá augun í gamlan hnarreistan kall með körfuna á arminum, í skotapilsi og háum sokkum. Hann var bara í rólegheitunum og lá ekkert á, annað en allir hinir í búðinni. Þetta var betra en skammtur af Stesolid, róaði mínar taugar instantly.

Svo hef ég líka verið að hugsa hvað þessi fótbolti er nálægt því að gera mig að sjónvarpssjúklingi. Eftir áralangt sjónvarpsleysi í Danmörku hefur sjónvarpsglápið rokið upp úr öllu valdi, bara síðustu daga. Ég hef ekki horft jafn mikið síðan Yngismær og Fjölskyldulíf voru og hétu.

Sko, ég ákveð kannski að horfa ekki á leik dagsins því ég er ekki spennt fyrir honum, en svo enda ég á því að setjast niður og glápa. Svo byrja ég að skipta um stöð af því leikurinn er ekki nógu skemmtilegur og þá festist ég í einhverjum þætti á annarri stöð sem ég hefði aldrei horft á annars. Um daginn rankaði ég við mér í miðjum þætti um heimska Kana sem stunduðu sódómíu og voru giftir hryssum. Ætti að losa mig við þennan grip, ræð ekki við þetta!

Eitt að lokum...af hverju standa svona margir í þeirri meiningu að orðið "fyrst" sé ritað "víst" (t.d: þú þarft ekki að koma víst að þú nennir ekki...)? By the way, er þetta orð forsetning eða kannski samtenging-phfúff, allt gleymt, þarf að taka upp Orðabelg að nýju.

|
Dobbelmoralske vatpikke

Smá komment á Bandaríkjamenn og hvalveiðar. Hvað eru þeir að rífa sig? Ætla að vera svo indælir að beita Íslendinga ekki viðskiptaþvingunum yfir vísindahvalveiðunum. Og þeir sem virða ekki mengunarreglurnar þarna, Ríó whatsitsface...og þeir sem veiða manna mest af hval. Ekki það að ég stökkvi fyrst til og kaupi kíló af hrefnu, en þetta er svona soldið prinsippmál finnst mér.

|

miðvikudagur, júní 23, 2004

Ég get verið stórhættuleg sjálfri mér í eldhúsinu. Því veldur banvæn blanda: almenn leti við að nota skurðbretti+hárbeittir hnífar a´la dýralæknirinn+ógeðslega hár sársaukaþröskuldur. Sker gjarnan grænmeti í lófanum og allt í einu er ég orðin sundurskorin.

Nýjasta afrekið er fjórir djúpir skurðir sem ég hlaut af niðursuðudós. Svona sem er með lykli sem maður á að snúa málmborða um og svo opnast hún á undraverðan hátt. Hins vegar tókst mér ekki að nota lykilinn og neyddist því til að vefja málmborðanum um fingurinn og toga svo. Gekk vel til að byrja með en svo hætti allt að haggast og skarst því í hendina á mér á fjórum stöðum. Og aldrei læri ég, þetta gerist aftur og aftur.

|

sunnudagur, júní 20, 2004


Hörkufjör í Glasgow


Var á skemmtilegum tónleikum í gær. Hvað er það með klassíska tónleika, af hverju eru 70% áhorfenda gráhærðir og með beinþynningu? Er það af því ellilífeyrisþegar fá afslátt eða fílar yngra fólk ekki þessa tónlist?

Einn gamlingi var þó öðrum skemmtilegri, hann var með æðislegan yfirgreidda skalla, eða "hentehaar" eins og við Danir köllum það. Hann hafði greitt frá öllum hliðum upp á hvirfilinn svo úr varð flókið vefmynstur, eins konar gullstóll. Og svo var hann með nesti-stóran skrjáfandi poka með osti í sem hann tíndi upp í sig. Klassagæi.

Aðalatriðið var fimmta sinfónía Beethovens og var það rokna fjör og frábær skemmtun. Á undan var m.a. boðið upp á konsert fyrir flautu og hörpu eftir Mozart, sem einmitt er kynningarlag Orðs kvöldsins á gufunni. Maður beið alltaf eftir að einhver klerkur kæmi og færi með signingarorðin, en aldrei fór nú svo. Voru mér farnir að leiðast vemmilegheitin þegar verkinu loksins lauk. Voða sætt en ég var bara komin til að slamma með Beethoven!

PS. Þess má geta að fyrir fimmoghálfs tíma dvöl í bílastæði þarna í Glasgow borgaði ég einungis 1 pund og 60 pens, en í Edinborg hefði sama dvöl kostað yfir 5 pund. Ég bý í posh borg og þarf að lída fyrir þad.


|

laugardagur, júní 19, 2004

Er á vakt, vildi bara segja frá sjúklingi einum sem hér er. Þad er eitt vesalings hross sem þurfti að gangast undir penis amputation, eða limnám eins og ég kýs að kalla það. Hann lenti nefnilega í því að hundur beit af honum skaufann. Þetta er eins og lélegur brandari! Minnir mig reyndar á "Klámhundinn" eftir Þórarin Eldjárn, en aldrei datt mér nú í hug að hún gæti verið sönn...en svo var mér sagt að hér hefði verið annar vesalingur í vetur með sama vandamál, þannig að þá er næstum hægt að kalla þetta algengt.

|

föstudagur, júní 18, 2004

Úff, aldrei hélt ég að þetta kæmi fyrir mig: Gleymdi að borða í dag. Bara búin að vera á þeytingi, fullt af sjúkum hryssum og svo þurfti að vinna úr sýnunum frá þeim og svona. Nú sit ég við tölvuna og færi inn niðurstöður og þá allt í einu....byrja garnirnar og maginn að hnoða hvort annað eins og brauðdeig.

Annars þurfa allar þessar sjúku hryssur víst aðhlynningu um helgina, og það er komið að mér að taka helgarvakt ;-Þ
Þetta er allt með legbólgu og júgurbólgu auk einnar hófsperru. Svo má ekki gleyma Shetland Pony fjölskyldunni. Þetta eru pjúní hestar, folaldið er á stærð við lítinn labrador. En stóðhesturinn lætur samt til sín taka, rýtir eins og svín af æsingi yfir hryssunni og teygir álkuna upp fyrir hliðið sem er tvisvar sinnum hærra en hann sjálfur.

Jæja, heim að eta. Tshcüss

|

fimmtudagur, júní 17, 2004

Hvað...eru þetta þá ekki alvöru víkingar? Ég hef verið illa göbbuð.

|

Er ég ekki artí? Er að spá í að taka upp millinafnið Art. Posted by Hello

|
Æ, ó, jibbíjei

Heyrði þjóðhátíðardagskrána í beinni útsendingu á Gufunni. Tvennt þótti mér setja eilítinn hryllingsmyndablæ á dagskrána:

1. Ómannlegu öskrin sem heyrðust undir ræðu Davíðs Oddssonar. Líktust þau helst sársaukahríni dýrs sem gæti hafa verið svín eða fálki nema hvort tveggja hafi verið.

2. Hrikalega forspilið við inngöngu kirkjugesta í Dómkirkjuna. Þetta var ómstrítt, díabólus músikus, hamrað á nótnaborðið eins og þetta væru seinustu andarslitrur organistans. Hallast helst að því að tónar þessir hafi runnið undan rifjum sama dýrs og eyðilagði fyrir Dabba.

Annars var þetta voða fínt. Fjallkonan hljómaði 50 árum eldri en hún eflaust er. Fínt. By the way, Dabbi var eitthvað að reyna að afsaka sig með því að segja að Hannes Hafstein hafi verið geðríkur. Jæja vinur, þá er þetta allt í lagi, haltu bara uppteknum hætti!

|
Hæhójibbíjei...

Gleðilegan þjóðhátíðardag kæru landar nær og fjær. Búin að hlusta á "Úr útsæ rísa Íslands fjöll" og heyra kærastann segja áttafréttir. Dagur þessi mun verða löðrandi í ættjarðarást þó ég sé fjarri öllum fjallkonum, risabrjóstsykursnuddum og rellum. Set íslensk ljóðalög á fóninn þegar heim er komið en læt þó mömmu um að snuðra uppi skrúðgöngu og þramma með bassatrommunni. Vona bara að löggan þurfi ekki að hafa afskipti af henni í þetta skiptið ;).

Er nú aftur orðin einstæðingur eftir að hafa leikið þriggja manna fjölskyldu í tæpa viku. Molly samhryggist mér í einmanaleikanum og kom öðru hverju upp að tékka á mér í gær. Hún er svo gáfuð blessunin.

|

þriðjudagur, júní 15, 2004

Hvað er með þessi þýðverzku þjóðhreinsunartölvuskeyti sem mér nú berast úr öllum áttum? Fékk á danska netfangið mitt póst á þýsku frá per@islandia.is þar sem sagt var frá nauðgun á þýskri menntaskólastúlku. Voru að verki sjö múslimskir piltar og höfundur skeytisins hvetur fólk til þess að vera á verði gagnvart þessu illrætna fólki. Hvað hefur það upp á sig að senda svona skeyti úr íslensku netfangi á annað danskt? Svoldið komið út fyrir heimahagana þarna...

Svo tékkaði ég á mi.is netfanginu og þar var annað þýskt bréf frá íslensku netfangi, í þetta sinn var eitthvað þjóðernisrugl í sambandi við Palestínumenn. Nennti ekki að lesa það.

Sé samt alltaf eftir því að hafa ekki svarað bévítans þýsku fjölskyldunni sem sendi ömmu mótmælabréf við hvalveiðum. Á íslensku. Hvers á amma að gjalda? Aular. Ólukkans lúðar.

|
Hmmm....eitthvað hefur Böddi bró ekki sagt mér alla söguna: Sá "Herr Doktor Björn Oddsson" nefndan á þýskri jarðfræðiheimasíðu, hann hefur gefið út vísindagreinar og allan fjárann. Kauði er doktor í jarðvísindum og er annað hvort svona rosalegur alnafni bróður míns eða svona Back-to-the-future framtíðarútgáfa hans(þó hann sætti sig líklega seint við að búa í München). Og ekki nóg með að ég hafi látið platast heldur féll háttvirtur umhverfisráðherra í sömu gryfju og kallar hann trekk í trekk "Björn Oddsson, jarðfræðinema" á heimasíðu sinni þó hann sé greinilega laungu útskrifaður. Hold kæft hvor ens nærmeste kan røvrende en!

Og apropos dansk...hef ákveðið að halda með Dönum og soldið Svíum í EM.

|
Er einhver annar en ég sem finnst tuskudýrið í auglýsingunni hér efst til hægri vera eitthvað dúbíust?

|

mánudagur, júní 07, 2004

Misheppnuð fjórsemismeðferð

Hér er sagt frá konu sem ætlaði í fjórsemismeðferð í Palestínu en lenti óvart í sjösemismeðferð...hahaha...æ ég veit, sorglegur húmor

Maður verður bara svo brenglaður þegar illgjarnir leigusalar læsa mann úti heilt kvöld á stuttbuxum og hlírabol einum fata. Hvað gerir maður þá þegar rignir? Nú, hírist í litla gróðurhúsinu og reynir að finna sér eitthvað til dundurs. Molly, sem var læst inni í húsinu horfði á mig vonsviknum augum gegnum glerhurðina í eldhúsinu. Svo þegar Nick og Limma komu heim þaut hún út og hoppaði kjánalega í kringum mig svona eins og til að fylgja mér inn-fyrst ég var ekki fær um að rata inn af sjálfsdáðum!

|

föstudagur, júní 04, 2004

Þáttröðin Human Mutants stóð undir væntingum. Þátturinn í gær fjallaði um risa og dverga, ofmyndun og vanmyndun beinvefjar. Í næstu viku verður fjallað um síamstvíbura og hafmeyjar, sem eru fæddar með samvaxna fótleggi. Gaman gaman, popp og kók.

Þegar ég las fósturfræði á sínum tíma vorum við með mannalækningabók og þar gat að líta margar sjokkerandi myndir af litlum börnum sem hefðu átt að vera sæt en voru það því miður ekki. Margar ungar námsmeyjar fengu algjöran tremma yfir því að þurfa í framtíðinni að ganga þá þrautargöngu sem meðgangan er. En eins og sagði í þættinum í gær þá erum við öll stökkbreytt, bara mismunandi mikið.

Næsti þáttur á eftir hefði svo sem líka getað heitið Human Mutants, en ber þess í stað heitið Big Brother.

|
Blessaður Davíð Oddsson. Hvar væru íslenskir blaðamenn án hans? Ég held þeir væru allir á bísanum, í eymd og aðgerðaleysi. Blaðamannafélagið ætti að taka sig til og greiða honum eftirlaun.

|

þriðjudagur, júní 01, 2004


Og þetta er Michael Schumacher...að sjálfsögðu! Posted by Hello

|

Hér er svo Jackie Chan, fjögurra ára Posted by Hello

|
Við hér á Tranigans! þökkum Dr. Þorvaldi Konráðssyni fyrir aðstoðina við myndatilfæringar. Hann stóð sig eins og hetja og lítur þetta allt saman svo miklu betur út núna.

Ég rakst á kjánalega vefsíðu í gær sem finnur þá frægu persónu sem líkist manni mest. Ég lét glepjast og setti inn mynd af mér. Var mér líkt við Juliette Binoche, Andie MacDowell, Sophie Marceau og svo eitthvað nóbodí. Ég var nú ekkert óánægð, nema mér virtist að líklega væri bara farið eftir háralit...sérstaklega þegar mér var líkt við Oprah Winfrey! Hahaha, þá runnu á mig tvær grímur, ef ekki fleiri. Guðmundi var líkt við Orlando Bloom, Tim Robbins og Russel Crowe (í mjóu formatti þó!). Ég setti þá inn Bogga og Örn Helga og viti menn, Boggi er líkastur Jackie Chan og Willem Dafoe, en Lilli er lifandi eftirmynd Michaels Schumachers (Böddi gleðst nú yfir því) og Nicolas Cage. Vá maður, þvílíkt þrugl.

|