<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júní 30, 2006

Nú, eftir heimsókn BoKat þurfti ég að fara að huga að brúðkaupinu sem haldið var 24. júní í garðinum við Liberton House. Það er svoddan höfuðverkur að finna sér föt til að vera í brúðkaupi, allar reglurnar maður! Ég var búin að standa mig vel, keypti ódýrt pils í VILA (uppáhalds búðinni) og ódýra gollu í Hennesen og Mauritsen. Svo var ég eyðslukló og borgaði heil 65 pund fyrir einhvers konar korselett (!) úr silki sem passaði svona líka vel. Þá var bara eftir að finna skófatnað.

Hófst nú hin mesta tragedía því ég hafði engan tíma til þess að fara í búðir auk þess sem skórnir þurftu að passa við ferskjulitan og rjómagulan (hljómar illa, en þetta var fínt sko). Svo máttu ekki vera hælar á þeim því athöfnin fór fram í garðinum-gras og hælar eru slæm blanda. Samt vildi ég ekki vera í flatbotna....you catch my drift. Hvað um það, ég ákvað að skjótast í klukkutíma niður í bæ eftir vinnu á fimmtudeginum og ætlaði að taka þetta með trompi. Var búin að skoða vefsíður tveggja skóbúða og velja mér kandídata þar. Skemmst er frá því að segja að ég mátaði sextíuogeitt skópar á þessari klukkustund og ekkert þeirra var draumaparið. Ók ég því heim á leið sár og svekkt.

Ég vissi að ég ætti ekkert ætilegt heima svo ég ákvað að stoppa í Tesco á leiðinni heim. Ég var samt ekkert í stuði fyrir matarinnkaup og var eitthvað voðalega efins um þetta allt saman. Rétt leit á bílastæðaskiltið en las það ekki einu sinni-klukkan var nú orðin sex svo þetta hlyti að vera í lagi. Nú, ég var búin að eigra um búðina án takmarks þegar ég tók eftir því að fók var farið að kasta frá sér fullum innkaupakörfum og hlaupa út. Einn tautaði "I'm going to kill them!" í því hann rauk fram hjá mér. Ég var auðvitað hissa en hélt áfram mínu eigri, með tvo poka af kryddjurtum og þýska spægipylsu, bíðandi eftir matgerðarinnblæstri. Þegar ég var svo komin í röðina sá ég að fyrir utan voru tveir ólukkans bílastæðaverðir í gulum vestum og gengu á línuna, sektandi hvern einasta bévítans bíl! Þeir höfðu greinilega legið í leyni og beðið eftir "after work rush" í búðinni. Svívirðilega lúalegt bragð.

Já, svo ég kom heim úr þessari misheppnuðu skóbúðaferð 30 pundum fátækari og engir voru skórnir!

|
13.-20. júní: Böddi og Kata í heimsókn



66°norður bæklingsmynd á Arthur's Seat



Grilluðum á stæði númer 26 fyrir utan St. Andrews



Böddi fékk skít og skömm frá blackbird singing in the dead of the night í Ballater

|















Hverjum dettur í hug klofið á Ben Stiller?

|

miðvikudagur, júní 28, 2006

Annríkidæmi

Hah, nördalega fjöldaskeytið sem ég fékk um daginn var sko toppað í gær, þar var beðið um rottuhala og eggjastokka úr einræktuðum músarungum.

Nú, annað í fréttum er að síðustu tvær vikur hafa verið alveg gífurlega annasamar. Mun ég segja frá þeim í máli og myndum þegar ég er búin að tæma myndavélina inn á tölvuna. Í stuttu máli hefur þetta verið á döfinni:
  1. Heimsókn sætalingsgúgganna Bödda og Kötu og frábær útilega með þeim
  2. Eagles tónleikar
  3. Undirbúningur fyrir brúðkaup aldarinnar
  4. Brúðkaup aldarinnar, brjálað stuð
  5. Undirbúningur fyrir minn fyrsta ráðstefnufyrirlestur
  6. Atvinnutilboð og stresskast yfir því

En þangað til verðið þið bara að bíða alveg kyrr á trjástubbnum og bíða.

Færsla þessi er helguð Bogga sem er allt í einu að koma út úr skápnum með frábær vaxlitaverk. Kys til HongKong elsku litli frændi minn!


|

fimmtudagur, júní 15, 2006

Pétur beturviti

Ég verð stundum svo svekkt þegar ég rekst á mál- og stafsetningarvillur í blöðunum að ég bara neyðist til að skrifa kvörtun og senda á prófarkalesarana. Þá verð ég gífurlega þreytt á sjálfri mér og geri mér fulla grein fyrir því hvað ég er óþolandi og mikill besserwisser. Í dag sá ég í frétt moggans ruglað saman orðunum samrýndur og samrýmdur sem þýða alls ekki það sama. Samrýnd systkin eru náin en samrýmdur hef ég alltaf haldið að væri einhver afbökun á orðinu samræmdur sem þýðir samstilltur (coordinated).

Eftir að hafa skrifað inn til moggans (eins og fáviti!) gerði ég því einfalt próf og sló inn "samrýmdur" á google. Þar komu upp fjórar síður af alls konar tenglum þar sem orðið var nær einungis notað um hópa, bekki, vini, kærustupör og þvílíkt. Annað hvort hef ég rangt fyrir mér (sem er afskaplega sárt og auðvitað nærri ómögulegt, ha, Hafdís?!) eða hér er komin málvilla sem hefur skotið djúpum, blóðþyrstum rótum í rökum og næringarríkum jarðvegi íslenskunnar (úff, þetta gerðist sko alveg óvart en ég læt það standa). Gerði mig því að fífli öðru sinni í dag með því að skrifa til íslenskrar málstöðvar og spyrjast fyrir um notkun þessara orða. Sjáum til hvort ég fæ nokkuð svar.

Hver hefur áhuga og tíma til þess að fara með mér í gegn um google niðurstöðurnar og skrifa til hvers og eins þeirra sem nota orðið samrýmdur vitlaust? Ólukkans dónar.

|

fimmtudagur, júní 08, 2006

Heimsins nördalegasta fjöldaskeyti

"Hi,I was wondering if anyone has any desferrioxamine (DFO) that I could steal alittle bit of in order to induce Hif1 alpha expression in Ishikawa cells.

Thanks,Catriona (E1.35)"


Say what?!

|
Menntastofnunin OR

Hann Davíð Þór getur verið bévíti góður penni. Í skrifum hans í gær er meðal annars að finna setningarbrotið "...og allir fara að kaupa rafmagn eins og besefar". Skemmtileg lesning þó ég hafi ekki séð téða auglýsingu.

|

miðvikudagur, júní 07, 2006

Nýjasta nýtt

Um helgina var ég svo heppin að vera boðið í gæsaferð norður til Aviemore til þess að heiðra hana Sigrúnu "fóstursystur" mína í Liberton House. Ýmsar staðreyndir urðu mér ljósar í þessum túr:

Annars var bara gott að koma heim á sunnudagskvöld þar til ég sá að bévítans dúfurnar voru búnar að hakka í sig spergil- og blómkálsplönturnar mínar. Argh!!

Á mánudaginn þurfti ég að skrópa í netbolta því Palli, Þóra, Diddí og Ella voru í heimsókn og hún elsku Limma var svo frábær að setja saman mat og drukk fyrir þau. Þau fengu leiðsögn um garðinn og húsið og svo sátum við og töluðum til rétt fyrir tíu að þau héldu á gistiheimilið sitt. Þá gátum við Limma sest og horft á lokaþátt Bráðavaktarinnar sem var algjört mayhem! Endirinn var svo spennandi að það hálfa væri nóg, einum starfsmanni rænt, annar liggur í blóði sínu eftir skotárás, þriðji að missa fóstur á sjúkrahúsgólfinu, fjórði liggur lamaður og getur ekki andað og enginn veit af honum!! Guð minn góður, þvílík spenna.

Í gær keyrði ég svo með fjölskylduna til New Lanark í rosalega góðu veðri, 20 stigum og sól. Ég keypti 2 kíló af ullargarni sem unnið hafði verið á staðnum og var ánægð með daginn. Í gærkvöldi fór ég svo í jóga og þar var einhver lítil nett amerísk stelpa sem var algjört jógafrík og gat gert svona eins og pylsan í bílabíóinu í Grease. Þetta fannst mér ekki gaman að horfa á og í fyrsta skiptið var jógatíminn ekki ánægjulegur. Sérstaklega fyrst jógakennarinn var svo uppveðraður yfir kunnáttu hennar og lá með henni í alls konar tantrastellingum til að hjálpa henni með pósurnar. Guð minn góður þvílík niðurlæging fyrir okkur hin!


|

fimmtudagur, júní 01, 2006


Já, og þetta er sem sagt nojtrófíll með bláan kjarna og rauð MPO korn. Nú er bara að lita með öllum þremur litum og sjá hvort MPO og MMP-9 eru í sömu frumum, and Bob's your uncle!!! Þess má geta að þetta sýni er tekið úr henni Penny.

Ef ykkur finnst ég helst til dugleg að hanga á netinu í dag (fjórar færslur á dag....vó!) þá get ég frætt ykkur: Það eru nokkrar 30 mínútna til þriggja klukkustunda pásur á milli "athafna" í svona mótefnalitun og eitthvað verður maður að hafa fyrir stafni á meðan!

En í alvöru, finnast ykkur þessar myndir ekki fallegar?

|



















Sjáið nú bara þetta! Myndin er af frumu einni í legslímhúð hryssunnar Polly. Þetta er annað hvort nojtrófíll eða eósínófíll, með rauðan kjarna og grænar blöðrur fullar af virku MMP-9 (sem er einmitt besti vinur aðal-ég er sko aðal-í þessari rannsókn minni). Nú er bara að greina á milli þessara tveggja tegunda með mótefni gegn MPO. Já, þetta er kannski tómur þvættingur fyrir ykkur kæru lesendur en ég er hæstánægð og bara frekar bjartsýn á framhaldið. Hver veit nema ég skelli inn mynd af MPO bara svona til að dekra við ykkur...

|



















Behold the beauty!!!!

|
Hrottabrúður

Þeim sem fundust ruslafötubörnin (Garbage Pail kids) viðbjóðsleg myndi aldeilis blöskra ef þeir hittu fyrir Krypt Kiddies, eða grafhvelfingargemlingana eins og ég kýs að kalla þá. Ég sá þennan hroða í búðarglugga í gær og langaði helst að gubba í takt. Það voru tvö eintök í boði, telpubarn og drengur sem bæði störðu á mig frosnum blóðhlaupnum augum. Andlitin voru gráblá og æðaslitin og hryllingslegt glott lék um blóðslefandi hvoftinn. Þetta var eins og stóri bróðir hefði komist í nýburabrúðuna með vatnslitina sína. OJOjOj!!

|