<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 27, 2006

Aukabyte

Hafið þið séð gífurlega aukabyte-ið (samaber Harald aukabyte veðurfræðing) á Jónínu B Ingvadóttur í auglýsingu 321.is á Morgunblaðsvefnum? Þetta er óóótrúlegt! Þyngdartapið hefði kannski mátt vera aðeins meira úr enni og hvirfli....

|

föstudagur, nóvember 24, 2006

Jibbí, föstudagur

Mikið óskaplega er ég þreytt í dag. Ætlaði aldrei að hafa mig fram úr. Skrokkurinn aumur eftir jógatímann í gær og þoka í höfðinu eftir að hafa vakað fram eftir yfir KLOVN disknum sem ég keypti á Kastrup.

Á leiðinni í skólann sá ég aftan á vörubíl auglýsinguna "BROGAN FUELS-SUPPLIERS OF ELF LUBRICANTS" og sá fyrir mér óklipptu útgáfuna af Hringadróttinssögu. Hver annar en Saruman myndi hafa not fyrir álfasmurningu?

Hér í Edinborg er svo mikið hávaðarok að vindurinn gnauðar um glugga og göng. Þegar ég sit inni í stofu læðist kuldinn upp fótleggina á mér og nístir mig inn að beini. Það er líklega best að ég fái mér súgpylsu (draft sausage) sem er þarfur þjónn á öllum breskum heimilum. Hingað til hef ég getað fengið Mollie til að leggjast fyrir framan dyrnar upp á loft og taka þannig á sig súginn en hún er ekki nóg til að hemja þennan ansa!

|

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Komin aftur

Jæja, ég er snúin aftur til Stóra Bretlands frá Danaveldi. Er enn að hugsa um gómsætu flæskestegina sem við átum á laugardaginn. En annars stend ég á haus í rannsóknastofunni og reyni að klára seinustu sýnin. Mamma og pabbi ætla víst að gefa mér detox ferð í jólagjöf og verður það himnasending eftir allt stressið. Mér finnst samt bömmer að stólpípumeðferð og ristilhreinsun séu ekki innifalin og vona að þau splæsi í það líka handa mér. Það er svo frábært að maður geti fastað í 7-9 daga og losað sig með því við "lífstílsvandamál" eins og heilabilun, krabbamein og geðsjúkdóma. Mikið hlakka ég til!

|

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Haaallelúja!

Ég fékk borgað, loksins! Reikningar borgaðir og samviskan hrein. Auðvitað brá ég mér bæjarleið í gærkvöldi til að halda upp á þetta. Keypti indælis svínasteik, krof og sperðla, sjö sáðsæði og gullið öl í lítravís, já hér drýpur nú smjörið af hverju strái! Nei annars, ég keypti bara niðursettan reyktan lax því ég er komin upp á lag með að kíkja í "síðasti söludagur"-hilluna og ég átti kartöflusalat heima sem ég hafði eldað til margra daga. Svo gerði ég mér nú glaðan dag og keypti mér dýrindis West Country Cider. Svo var bara kojufyllerí í Liberton House, Sturla sett á hæsta og sungið með. Já, maður kann nú að skemmta sér!

Talandi um skemmtanir þá er hinn alræmdi julefrokost hænsnanna um helgina, ég er svolítið hrædd um að maginn í mér hafi skroppið saman í sultinum og seyrunni og muni hreinlega springa þegar ofan í hann verður troðið sild og rugbrød, flæskesteg, rugbrød, frikadeller, rugbrød, rødkål, rugbrød, grønlangkål, rugbrød, leverpostej og ris a'lamande svo ekki sé minnst á julebryg, snaps og dessertvin. Herregud!

Kan I ha' det godt så længe, vi ses i næste uge. Ses vi? Det tror jeg nok, vi gør!

|

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Já en ég bara vera 0jm úttlending!

Nei, nú er nóg komið! Haldið'aðég sé ekki dottin út af kjörskrá af því að ég hef búið lengur en 8 ár í útlöndum! Nú er víst kominn tími til að haska sér heim. Ég þurfti að senda formlega beiðni til þjóðskrár um að fá náðarsamlegast að kjósa í vor. Þó hef ég kosið síðan ég fékk til þess réttindi. Tvisvar hef ég kosið utan kjörfundar og mér finnst að það ætti ekki að vera dagsetning utanferðar heldur dagsetning sem síðast var kosið sem ætti að ráða þessu.

Ekki það að ég viti hverja ég ætla að kjósa!

|

föstudagur, nóvember 10, 2006

Reiðilestur

Ooooohhhhh! Þetta skrifstofulið er hrúga af liðleskjum! Ég hef nú staðið mig ansi vel í peningaleysinu hingað til en þetta er bara hætt að vera fyndið. Nú var einn kellingartuðra búin að segja mér að ég fengi borgað í þessari viku svo ég lét hana í friði í tvo daga. Í morgun var hins vegar ekkert komið inn á reikninginn svo ég skrifaði beint til æðstastrumps, einhverrar tuðru í fjárhirslunni sem átti víst að sjá um mín mál. Hún skrifar hins vegar til baka og segir að hin tuðran hafi misskilið, sú sé reyndar í fríi þessa dagana (eftir að vikulöng veikindi hennar ollu þessu veseni á annað borð-hvernig væri að vinna vinnuna sína svona öðru hverju?!) en það verði ekki borgað fyrr en á mánudag, sem þýði að ég fái innborgunina um miðja viku. Svo lætur þetta eins og það sé að gera manni greiða! Ólukkans ónytjungar!

Ég gat ekki lengur á mér setið og skrifaði settlegt skeyti til æðstutuðru þar sem ég rakti alla sólarsöguna. Sagðist hafa verið í mínus í tvær vikur, ekki getað keypt í matinn þann tíma og að reikningarnir hrúguðust upp. Lýsti yfir furðu á því að þeir geti ekki smellt yfir einni greiðslu á netbankanum, það taki yfirleitt ekki nema nokkrar mínútur. Klykkti ég svo út með því að segja að mér þætti sem peningavandræði mín hefðu ekki verið tekin alvarlega.

Hana nú! Sjáum hvort hún svarar. Það er nú föstudagur, hún gæti hætt snemma og farið í handsnyrtingu eða eitthvað. Maður þarf nú að passa að vinna ekki yfir sig!

Og fyrst ég er á þessari örgu braut: Þegar saftframleiðandi býr til sykurlausa og sykraða saft, af hverju í ósköpunum setur hann sætuefni í sykruðu saftina? Ég stóð lengi fyrir framan hillurnar að reyna að velja mér saft um daginn (það eru þó meira en tvær vikur síðan eins og glöggir lesendur vita!) og vandaði ég mig mikið að sneiða hjá þeim sem voru merktar "no added sugar" því ég þoli ekki gervisykurbragð. Ég hef eflaust fengið of stóran skammt sem unglingur þegar ég varð mér út um kynningarpakkningar á Hermesetas sem ég átti lengi og fékk mér öðru hverju fix af. Mér fannst þær ekki góðar á bragðið...það var þetta ójarðneska sætubragð sem var kikkið-munnurinn herptist saman utan um þessa örsmáu pillu. Mér finnast sætuefni sem sagt afspyrnu vond. Saftin sem ég ákvað að kaupa var því sykruð en þegar ég kom heim og smakkaði þá fann ég strax þennan væmna gervilega keim, og jú, það reyndist sætuefni í blöndunni. Hvers vegna?!!! Ef ég vil sykur, þá vil ég sykur. Ef ekki þá kaupi ég bévítans gervisaftina!

Jæja, nú er víst best að hætta, þetta er farið úr böndunum!

Með von um úrbætur
Kona í Vesturbænum

|

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Cowboyjakken

Ég var að enduruppgötva gallajakkann minn. Þegar ég fór í brennukvölds(bonfire night)partí um helgina var ég í honum yfir hettulopapeysunni minni. Hann er sko gamall vinur, sannkallað þarfaþing. Ég veit að Hafdís er mér sammála, hún gekk í sínum svo gauðslitnum að móðir hennar endaði á því að henda honum í tunnuna án þess að segja frá því fyrr en eftir á.

Jakkinn minn er líka ansi slitinn orðinn. Ég keypti hann notaðan í Larsbjørnstræde í Höfn fyrir 9 árum og var hann þá þegar farinn að láta á sjá. Hann er Wrangler, ljósblár og á ermunum eru dökkir skuggar sem undirstrika krumpurnar og sýna upprunalegan lit. Svo er slitið niður í striga á einstaka álagspunktum og aðeins brúnn skítablær á stöku stað. Ég þyrfti reyndar að taka mig til og venda á honum kraganum því önnur hliðin á honum er algjörlega þráðber. Móðir mín hefur þó ekki haft tækifæri til þess að fleygja honum í tunnuna því hann hefur búið í útlöndum síðan ég eignaðist hann.

Já, megi heimurinn allur vita að ég elska gallajakkann minn!

PS: Sjálfsþurftirnar halda áfram-borðaði epli úr garðinum í morgunmat!

|

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Sjálfbært heimili?

Mikið kemur það sér nú vel þessa dagana að vera grænmetisbóndi! Aularnir í háskólanum hafa enn ekki borgað mér launin mín þrátt fyrir mörg símtöl og tölvuskeyti. Þess vegna hef ég ekki haft efni til matarkaupa undanfarna viku og var svo komið um helgina að ekkert var til í kotinu. Gerði ég mér dýrðarmáltíð úr rauðbeðum, kartöflum, grænkáli og næpum. Svona á sjálfsþurftabúskapur að vera! En eitt er víst: rauðbeður eru bölvað eitur því ég hef pissað bleiku í tvo daga!

|

föstudagur, nóvember 03, 2006

Dýri

Vá, ég sá sjónvarpsstjörnu hér rétt í þessu! Hann stikaði hér um gangana í humátt á eftir Prof Bruce McGorum MRCVS og mér fannst ég kannast við hann þó ég gæti ekki komið honum fyrir mig. Svo rann upp fyrir mér ljós: þetta var Dr Kevin Corley BVM&S, PhD, DACVIM, DACVECC, MRCVS sem bjargaði munaðarlausu folaldi svo eftirminnilega í sjónvarpsþáttaröðinni SuperVets eða "OfurDýrar". Kannski hann sé að koma hér til starfa....brjálæðislegt maður!

|
Getur einhver reddað mér mynd af Óttarri Proppé á tölvutæku formi? Netleit mín reyndist árangurslaus.

|
Dr Proppé

Ég fór á grímuball í gærkvöldi klædd sem Dr Alan Statham. Ég fékk nokkrar athugasemdir frá fólki sem kvað mig mjög hugaða að koma klædd sem karlmaður. Hins vegar voru nokkrir karlmenn klæddir sem kvenfólk, meira að segja einn í Playboykanínugervi. Ég var með álímt yfirskegg og sterku kallafjarsýnisgleraugun sem Christina gaf mér í brúðkaupinu hennar Heidiar. Fílaði mig í tætlur en hins vegar var ég eiginlega óhugnanlega lík Óttarri Proppé. Ég redda myndum af þessum viðburði á næstu dögum, þá sjáið þið hvað ég á við!

|

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Hvaða sjampó notarðu?

Í gærkvöldi gerðist sá merki atburður að fullorðin stúlka strauk mér um hárið og lýsti því yfir að það væri lungamjúkt. Ég varð þó ekki eins hissa og feimin eins og í fyrra skiptið sem þetta gerðist. Þá var það önnur stúlka (og allar vinkonur hennar) sem struku mér og undruðust hármýktina. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta yfir þessari nýfengnu athygli.

|