<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Paraplegia cerebralis sus fumigatus

Hér á Queens Medical Research Institute fékk sér einhver bacon buttie úr mötuneytinu. Gangarnir anga því af reyktum fleskilmi sem virðist valda algjöru tapi á einbeitingu. Ég hef ekki gert neitt af viti í allan morgun. Beikon....ummmmmm!

|

mánudagur, janúar 23, 2006

Úr ýmsum áttum

Þessir bresku þingmenn eru nú meiri kallarnir. Mark Oaten minnir á þingmanninn í Little Britain sem afsakar sín sóðakallaupplifelsi með því að fötin hans hafi dottið utan af honum í því að hann hrasaði ofan á allsberan kall inni á almenningsklósetti (and a part of my body accidentally entered him). Svo eru líka njósnafréttirnar frá Rússlandi eins og Monty Python söguþráður-"Knights of the spying rock". Kjánar upp til hópa.

En talandi um austantjaldsþjóðir, ég fór á laugardaginn í nýjustu búðina á Nicholson Street: Polskie Delikatesy. Þvílíkt rússkí karamba og þar fæst auðvitað Prins Póló, svona innan um allar pylsurnar og niðursoðna kálið. Ég keypti birgðir af Prins, ég sem aldrei borða það þegar ég er á Íslandi. En rosalega var það gott í gær með sterku kaffi!

Já, og svo er algjört "Aaaaástir og örlög nördanna!" í gangi á rannsóknastofunni. Sko, John, Norma, Andrew og Moira eru í hlaupahóp. Þau eru óþolandi en þeim finnst þau sjálf ofsalega skemmtileg og hress...þau eru í reynd svona skátahress sko. Nú, um daginn fóru þau öll út að borða til að halda árshátíð hlaupahópsins og Moira fór að reyna við John sem er kærasti Normu og Moira er gift. Hún sat í fanginu á honum og gældi við hann í allra augsýn. Norma varð bálill og er búin að hella sér yfir John fyrir framan okkur hin nokkrum sinnum og þetta er bara voða spennandi. Svo er Claire, aðstoðarkona Johns iðin við að kvarta og kveina yfir því að móðir sín elski sig ekki og að gjörvöll fjölskyldan þoli sig ekki. Svo nú held ég bara að ég hringi í Jens!

|

mánudagur, janúar 16, 2006

Samúð eður ei?

Mikið var liðin helgi nú hugguleg. Fórum í bæjarferð á laugardaginn og í bíó á sunnudaginn eftir að ég hafði stungið upp beðin og borið í þau skít. Já, meðan fólkið mitt heima skíðaði í fannferginu var ég í vorverkunum.

Fórum til skóara með tvö skópör og hann var afskaplega leiður yfir því að geta ekki verið búinn með þau fyrr en á fimmtudaginn, hann þyrfti sko að fara í tvær jarðarfarir í vikunni. Ég gaf honum samúðarsvipinn minn (hálfbros, hrukkað enni og ein lyft augabrún) en Guðmundur var ekki sannfærður og sagði mér eftirá að hann hefði túlkað svipinn sem vandræðalegt fliss. Þetta er þá kannski ástæðan fyrir því að gömul kona í Köben frussaði á mig "Det er ikke noget at grine ad!" þegar ég setti upp samúðarsvipinn þegar hún hrasaði í strætó. Ég þyrfti líklega að eyða 20 mínútum á dag fyrir framan spegilinn til þess að slípa svipinn eins og Posh Spice gerði þegar hún var unglingur til að fullkomna kynþokkafullan varastútinn.

Í búðinni Fopp fann ég geisladisk sem endurnýjaði kynnin við Bod, sögupersónu sem pabbi las um fyrir okkur sem börn. Bod hét í hans meðförum Böddi, auðvitað, og þótti okkur einkar vænt um kauða. Ég sé nú að sögurnar einkennast af hippa-karma-lærdómi og hef líka séð á netinu frásagnir fólks sem var dauðhrætt við Bod í uppvextinum af því hann var alltaf í svo hræðilega grunsamlegu jafnvægi.

|

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Moggaveski, 2. hluti

Já, ekki hafa allir mínir lesendur vitað hvaðan á þá stóð veðrið við lestur örfærslu minnar í morgun. Ég vaknaði nefnilega með moggaveski á heilanum í morgun, því mig var að dreyma rukkunarrúntinn. Fyrir þá sem ekki vita voru moggaveski sterkilmandi (af blöndu leður- og reykingarlyktar) svört veski merkt Mogganum með gylltu letri og smellt með einni smellu. Veski þessi hýstu Moggakvittanirnar sem útburðarbörn afhentu kúnnunum við dyrnar hér í eina tíð í skiptum fyrir um það bil þúsundkall. Þegar moggaveskið barst í hús heyrðist "ég er farinn út að rukka" og svo var rúnturinn tekinn hús úr húsi. Sumir komu á nærbuxunum til dyra, sums staðar var skrýtin lykt og annars staðar var alltaf sagt "geturðu komið á morguhm?". Hvernig ætli móðursjúkum, ofsóknaróðum foreldrum nútímans þætti að senda börnin svona milli húsa? Hins vegar þekkti maður næstum hvern kjaft í hverfinu fyrir vikið og fjárhag hvers heimilis. Þessi þekking mín fer nú æ dvínandi.

|
Ég man moggaveski

|