sunnudagur, júní 20, 2004
Hörkufjör í Glasgow
Var á skemmtilegum tónleikum í gær. Hvað er það með klassíska tónleika, af hverju eru 70% áhorfenda gráhærðir og með beinþynningu? Er það af því ellilífeyrisþegar fá afslátt eða fílar yngra fólk ekki þessa tónlist?
Einn gamlingi var þó öðrum skemmtilegri, hann var með æðislegan yfirgreidda skalla, eða "hentehaar" eins og við Danir köllum það. Hann hafði greitt frá öllum hliðum upp á hvirfilinn svo úr varð flókið vefmynstur, eins konar gullstóll. Og svo var hann með nesti-stóran skrjáfandi poka með osti í sem hann tíndi upp í sig. Klassagæi.
Aðalatriðið var fimmta sinfónía Beethovens og var það rokna fjör og frábær skemmtun. Á undan var m.a. boðið upp á konsert fyrir flautu og hörpu eftir Mozart, sem einmitt er kynningarlag Orðs kvöldsins á gufunni. Maður beið alltaf eftir að einhver klerkur kæmi og færi með signingarorðin, en aldrei fór nú svo. Voru mér farnir að leiðast vemmilegheitin þegar verkinu loksins lauk. Voða sætt en ég var bara komin til að slamma með Beethoven!
PS. Þess má geta að fyrir fimmoghálfs tíma dvöl í bílastæði þarna í Glasgow borgaði ég einungis 1 pund og 60 pens, en í Edinborg hefði sama dvöl kostað yfir 5 pund. Ég bý í posh borg og þarf að lída fyrir þad.
|