<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 17, 2004

Málfar versnandi fer-líka á Gufunni

Í gær heyrði ég fullorðna konu segja orðið "lifra" á Ríkisútvarpinu. Hún var sem sagt að tala um myndbreytingu skordýra. Ég beið eftir því að heyra hana bera fram orðið "karpöddlur" skýrt og greinilega.

Ég held að ég hætti við að gerast vísindamaður og gerist atvinnumálhreinsunarfasisti. Það ætti að búa til embætti fyrir mig, svei mér þá. Kannski "dýralæknir málfarssjúkdóma". Þá gæti ég samt ennþá verið dýralæknir. Þessi hugmynd er ekkert svo rosalega klikkuð í ljósi málfundar sem ég sótti í gær. Bar hann titilinn Biofutures og tilgangurinn var að sýna okkur örmum doktorsnemum hvert við gætum stefnt í framtíðinni. Meðal mælenda var doktor í lyfjafræði öndunarfæra sem átta mánuðum eftir doktorsvörnina leiddist svo að hann ákvað að lesa lögfræði í staðinn og starfar nú sem slíkur hér í borg. Lærdóminn sem ég dró af þessum fundi má setja upp í eftirfarandi atriði:
1. Ekki skipuleggja neitt, og farðu frekar eftir eðlisávísun heldur en rökrænum pælingum þegar taka skal lífsnauðsynlegar ákvarðanir. Ef þú ert ekki viss, kastaðu þá krónu.
2. Það er leiðinlegt að vinna á rannsóknastofu.
3. Ef þú talar og hugsar um annað en vísindi, þá ertu á rangri hillu.

Hmmm....sko, ef maður talar og hugsar ekki um annað en vísindi þá veit ég ekki hvort maður á að fá að lifa....En ég komst sem sagt að því að ég er bara í tómu rugli í þessu vísindadæmi.

Eftir fundinn hélt ég svo á Christmas party á rannsóknastofunni. Ég kom tveimur tímum eftir að það byrjaði og þá var allt komið á fullt. Mér fannst eins og ég væri að koma inn í The Office Christmas Special, svo yndislega hallærislegt eitthvað. Fullt af berleggjuðum stúlkum í pínupilsum og flegnum toppum dansandi við "Agadoo" á þykku gólfteppinu. Greyin sem dags daglega neyðast til að hylja líkama sína hvítum sloppum í rannsóknastofunni höfðu greinilega misst sig alveg í portkonudeildinni í Miss Selfridge. Eini séns ársins til að ná í sæta blóðmeinafræðinginn átti sko ekki að ganga þeim úr greipum. Skemmtilegt kvöld þetta.

|

mánudagur, desember 13, 2004

Jólaherðatré

Það var haldið jólaball fyrir íslensk börn í Skotlandi í Liberton House í gær. Það var búið að kaupa fjögurra metra hátt jólatré sem var látið standa í sturtubotni frá 16. öld og skreytt eins og mofo. Limma vildi endilega setja allt skrautið sitt á það, sem sagt fimm kassar af skrauti-ég er náttúrulega vön að skreyta fyrir glysdrósina hana ömmu mína svo ég kippti mér ekkert upp við þetta.

En herregud þegar fólk fór að streyma að gerðist ég mannafæla hin mesta og fór upp til mín og læsti að mér. Fylgdist svo með út um gluggann hverjir komu. Sá til dæmis að þarna kom Halldór Haukur sem ég var með í 5. og 6. bekk og hef eigi síðan séð, með konu og þrjú börn. Svo þegar allir fimmtíu gestirnir voru komnir og börnin voru sest við kökuborðið þá hætti ég mér niður og var strax sett í að aðstoða jólasveininn að komast óséður í búninginn og til og frá aðaldyrum án þess að börnin grunaði nokkuð. Jólasveinninn var leikinn af Pétri Berg, vini Snáðans, en sumir minna fjölskyldumeðlima hafa hitt hann (þó mismikið og mislengi) og geta kannski ekki séð hann fyrir sér sem jólasvein. Hann stóð sig þó eins og hetja og var ekkert að flýta sér út aftur til að heimta sitt fyrra útlit, heldur sat á spjalli við börnin og reyndi að drekka heitt súkkulaði gegnum smárifu á skegginu sínu.

En það er ótrúlegt hvað Limma er afslöppuð yfir því að fá fólk svona inn á sig sem veður um allt, það var vaðandi inn í svefnherbergi og ég veit ekki hvað. Einhverjir reyndu að komast inn til mín en ég hafði læst með stórum lykli sem ég bar eins og herforingi. Og allar þessar konur bossing around í eldhúsinu og segjandi mér hvar þetta eða hitt er, mér fannst þetta bara ekkert þægilegt. Enda flýði ég í bíó með Bea.

|

þriðjudagur, desember 07, 2004

The Office

Það er ekki til meira lortejob en skrifstofuþrif. Ég sá "The book of crap jobs" í bókabúð í gær og þar var einmitt Office cleaning talið upp. Það er bara ekki hægt að hlakka til eða hafa gaman af því að þrífa subbuskapinn eftir sóðalega letingja sem nota þrjá tebolla í einu og klára aldrei úr neinum þeirra. Nema ef þeir sulla niður. Þá fær kaffi-/tepollurinn að dvelja á gólfi og skrifborði þar til ég kem og þríf hann. Nema ég þríf hann kannski bara ekkert því ég hef hafið skæruhernað gegn þessum lúserum.

Það vildi nefnilega þannig til að um helgina var stórþrifnaður eins og venjulega, en aðkoman var einmitt alveg einstaklega viðbjóðsleg. Einhver hafði stráð kartöfluflögum á gólfið og keyrt svo yfir þær fram og til baka á skrifstofustólnum sínum meðan hann sáldraði glimmeri yfir allt saman. Svo var búið að vaða á drullugum stígvélum m allt og sulla kaffi upp allan stigann. Ég reyndi að taka þessu með jafnaðargeði, ekkert annað í stöðunni. En þegar ég uppgötvaði miða á klósettkassanum sem stóð á "plz wipe", þá varð sprengigos. Ég varð alveg bálreið, það var tveimur dögum áður sem ég hafði síðast þurrkað þarna af. Hversu oft hefur mig langað að skilja eftir miða handa hverju og einu þeirra?! "Plz don't leave ten teacups for me to carry downstairs, I only have two hands", "Plz wipe up coffee spills of your computer", "Plz use bin for trash", "PLZ BEHAVE LIKE ADULTS, YOU PLONKERS!". En, það heyrði náttúrulega enginn í mér klukkan ellefu á sunnudagsmorgni, þau sváfu öll á sínum grænu eyrum, aumingjarnir.

Ætti kannski að fjárfesta í ilmgjafanum sem ég sá auglýstan í gær. Það er átómatískt ilmsprey sem er hægt að stilla þannig að það spreyi með 9, 18 eða 36 mínútna millibili allan sólarhringinn (ojojoj!). Með það að vopni gæti ég náttúrulega bara farið í verkfall en þau myndu aldrei fatta það af því að það ilmaði allt af fresíum og lavender allan guðslangan daginn...

|

sunnudagur, desember 05, 2004

Tehetta dauðans

Ég ætti að vera margbúin að kála mér með öllum mínum klaufaskap ef eitthvað er að marka skýrslugerð yfir slys á breskum heimilum. Þar segir nefnilega að með markvissum áróðri hafi tekist að fækka slysum af völdum tehettna milli ára úr þremur í ekkert. Tehetta er meinleysislegasta heimilistæki sem fyrir finnst!

Fréttamaður: Hvað er hægt að gera til þess að fyrirbyggja slys af þessu tagi?
Herdís Storgaard: "Geyma skal tehettur í læstum hirslum og ef þær þurfa nauðsynlega að vera frammivið þar sem börn eru nálægt skal íklæðast þessari hentugu hettuvörn og skrúfa vel fyrir heita kranann. Það eru engar afsakanir teknar gildar fyrir kæruleysislegri tehettunotkun. Hafa skal mín einkunnarorð í hávegum: Tehettan er jafnseif og Teheran."

Ég er sem sagt ódauðleg fyrst mér hefur ekki tekist að drepa mig á púls með mínum flugbeittu hnífum og skítugum glerbrotum. Á hinn bóginn á ég auðvitað ekki tehettu....

|

föstudagur, desember 03, 2004

Tilkynningar á Gufunni

"Höfum opnað nýtt útibú í Hægðasmára 7..." Tjah...er það ekki bara í sama stíl og Fensalir? Kippti mér alla vega óeðlilega lítið upp við þetta mismæli.

|
Jólagjafahugmynd

Rakst á auglýsingu á amazon.com: Philips HeartStart Home Defibrillator-because every minute counts.

Hverjum dettur í hug að þetta eigi eftir að seljast eins og heitar lummur? Hversu vænisjúkt heldur sá hinn sami að fólk sé yfirleitt. Þar að auki er náttúrulega hættulegt að eiga svona inni í skáp ef börn eða glæpamenn komast í það. Maður gæti óvart stuðast í hel. Sheeeezzzz.....

En það þurfa ekki allir fullkomin tæki til þess að stórslasa sig...alla vega ekki hún Charlotta. Sex dögum eftir að ég sneiddi af mér vísifingurgóm vinstri handar náði ég að skera mig djúpt í löngutöng sömu handar á skítugu bjórglerbroti niðri í bæ. Mætti því alblóðug og bölvandi í aðventumessu.

Annað í fréttum er að það er loksins búið að koma Ceres XL-mas lítersbjórdósunum í lóg, fékk dygga öláhugamenn senda af Fróni til að hjálpa mér með þetta. Þeir renndu þessu niður eins og ekkert væri. Takk fyrir hjálpina Magnús og Hekla, þið eruð meiri trallarnir.

|

miðvikudagur, desember 01, 2004

Tracyen Chice

Ég sé Tracy Chapman fyrir mér þegar ég heyri Damien Rice. Fögur sjón það. Er ég alveg ein um þetta? Annars getur gott fólk vitnað að ég hef haldið mig sjá Tracy Chapman á Austurvelli, svo þetta er kannski bara ég...

|