<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, desember 10, 2003

Beta drottning hefur nóg að gera við orðuveitingar. Þessu er ekki safnað saman og allar orður veittar á nýársdag eins og heima, heldur er hún alltaf veitandi orður. Ekki nema von að einn neitaði að taka við þessu um daginn, og Lennon skilaði sinni! Maður er greinilega ekkert sérstakur þó maður fái Orðu breska heimsveldisins, því það þarf ekkert sérstakt til. Í dag var það náunginn sem skoraði sigurmarkið í rugby-úrslitaleiknum þegar Englendingar urðu heimsmeistarar um daginn. Hvað varð um fólkið sem sýnir hugrekki, fórnfýsi og hetjulund áratugum saman? Nú er nóg að vera heimskt vöðvatröll sem veltist um í drullunni með hinum vöðvatröllunum. Beta þó!

|

þriðjudagur, desember 09, 2003

Hvað skyldi það þýða að dreyma sláturgerð? Dreymdi Gunnu í sveitinni á kafi í blóði og mör. Við ræddum bókmenntir af miklum móð og hrærðum í slátrinu...

Í gær hófst þáttaröð í sjónvarpinu sem ég er búin að bíða spennt eftir. Hún kallast Bodyshock og er um vanskapnað ýmiss konar, eitthvað fyrir mig! Í gær var fjallað um "Foetus in foetu" sem er þegar vanskapaður tvíburi lokast inni í hinum tvíburanum snemma á meðgöngu og nærist á honum. Það var sýndur sjö ára drengur sem leit út fyrir að vera óléttur því hann var með tvíburann sinn í kviðnum. Þetta var náttúrulega dramatíserað voða mikið, en það sem mér fannst verst var að vanskapnaðurinn sem var tekinn innan úr drengnum var alltaf sýndur í móðu, eins og maður þyldi ekki að sjá þetta. Reyndar var hann svo sýndur í allri sinni dýrð seint í þættinum, þegar var búið að undirbúa áhorfendur með fræðslu um ástandið. Þetta var samanbrotinn bolti með útlimi, frumstætt andlit og meira að segja pung. En hárið hafði greinilega vaxið því þetta var mesta flókatrippi með sítt svart hár. Ojbarasta!

|

mánudagur, desember 08, 2003

Seinasta heila vinnuvikan fyrir Íslandsför er hafin, jibbíjeiji. Er ansi upptekin þessa vikuna, bæði við skriftir og önnur aktívitet. Fyrst ber að telja þreifingar og skönnun á merum á miðvikudaginn. Það verður nú gaman að komast smá í kontakt við merarnar. Á fimmtudaginn fer ég í Christmas Lunch á einhverjum reyktum pöbb með rannsóknastofuliðinu. Og svo er hápunkturinn á föstudaginn: Christmas Ceilidh (borið fram "keilí") í dýralæknaskólanum. Það er jólahlaðborð with a twist-skoskir dansar verða þar iðkaðir af miklum móð, svo það er eins gott að maturinn verður breskur og ólystugur, ekki gott að dansa með úttroðinn belginn.

Ég er farin að viða að mér pappakössum til að pakka niður mínum fátæklegu eigum. Er svo lukkuleg að geta geymt dótið mitt hjá leigusalanum Limmu og hin þýska Beatrix Wissmann ætlar að skutla mér með dótið í sínum ryðgaða háværa Ford Escort sem hún keypti á 200 pund. Ég er svo heppin að fá liðsinni Keiths frænda við bílakaup á vorönn, það er víst allt fullt af svona ódýrum bílum hér. Gaman gaman.

Nureep hin sísvanga bankaði uppá hjá mér klukkan að nálgast miðnætti um daginn. Hún stóð fyrir utan með mjólkurlögg í brúsa og spurði hvort ég ætti mjólk. Ég átti víst ekki nema nokkra sopa sjálf. Hún spurði þá hvort ég þyrfti alla þessa mjólk og var mjög bjargarlaus á svipinn. Ég hélt kannski að hún væri að baka og hefði uppgötvað mjólkurleysið í miðjum klíðum og var næstum fallin fyrir hvolpaaugunum. Nei, hún sagðist bara drekka mjólk "like a cow" (ég hafði ekki brjóst í mér til að benda henni á að kýr drykkju ekki mjólk, hún ætti eflaust við minni útgáfuna, kálfa) og spurði hvort hún mætti fá svolítið af mjólkinni minni. Ég gaf henni einn desilítra (sic!) og sendi hana að svo búnu heim aftur. Díjsös, að vera alveg í öngum sínum yfir því að eiga ekki mjólk að drekka-drekktu vatn og farðu að sofa, kauptu svo mjólk á morgun! Hvert er vandamálið?!!

|

fimmtudagur, desember 04, 2003

Í tilefni af afmæli bróður míns Björns, sem einmitt hefur ekki látið í sér heyra á þessari síðu í mánuð vegna verkefnaskila og almenns tímaskorts hefði ég viljað setja inn fallega mynd af honum en ég kann ekki að setja inn myndir og segi því bara til hamingju með afmælið. Vá hvað þetta var löng setning. En, Bjössi, sjáumst eftir 13 daga. Hver veit nema þú fáir afmælisgjöf.

|

miðvikudagur, desember 03, 2003

Vá, ég þarf að reyna að muna hvað hefur gerst síðan á laugardaginn...

...barðist við slagveðrið á laugardagskvöldið til að hitta nokkrar íslenskar hræður sem ég hafði aldrei hitt áður, náttúrulega brjálæði. En þetta var voða fínt, talaði lungann úr kvöldinu við bróður Guðrúnar Helgadóttur frá Blómsturvöllum, fyrrv. Forseta Alþingis, og hann sagði mér sögur af Hafnarfirði. Þarna var líka Stefán sem fékk tíu í meðaleinkunn úr Háskólanum í sumar en ég talaði ekki við hann. Ég held að ég sé búin að sjá í gegnum þennan góða árangur í stærðfræðinni, hann hefur selt djöflinum úr sér aðra framtönnina og er þar aðeins að sjá ginnunga gap í dag. Eftir samkomuna fékk ég mér einn pint með Sólveigu. Þar hittum við tvo Skota og ég sló yfir í skoskuna. Annar þeirra bjó meira að segja í Livingston, þar sem ég einmitt eyddi fyrstu mánuðum ævi minnar.

Sunnudagurinn fór í þýskan jólamarkað með Sólveigu (ég veit, say no more!).

Ég var að fatta að ég get verið með svo góða samvisku að það er ótrúlegt. Þarf ekki lengur að láta mér líða illa yfir því að klára ekki af disknum, því nágranni minn er fátækt barn frá Afríku og ég sé persónulega um það að hún svelti ekki. Hingað til hefur fóðrið aðallega verið edik, sítrónusafi og brauð en það er af því að henni finnst það svo gott. Alla vega kemur hún Nureep á dyrnar hjá mér hvað eftir annað og fær lánað en skilar svo ekki því sem hún fékk lánað. Kannski er þetta eitthvað strákofadæmi, þannig að ég á að koma yfir og fá lánaðan bróður hennar í staðinn, en ég er nú ekkert að æsa mig yfir þessu, bara mjög fyndið að fylgjast með henni. Hún er líka á stanslausu rápi og alltaf að þvo þvott eins og ég hef minnst á áður. Það eru bara ekki allir eins, og Nureep er langminnst eins af okkur fjórum sem búum í húsinu.

Smá athugasemd: Sá í fréttunum í gær að afleiðingar 11.septembers væru enn að koma í ljós. Það virðist vera að hefð sem eftirlifandi slökkviliðsmenn New York héldu á lofti valdi persónulegum hörmungum. Þannig er að margir þeirra sem eftir lifðu fengu "úthlutað" eiginkonu látins félaga til að styðja hana í gegnum lífið, alla vega svona fyrst um sinn. Eins konar "buddy" system eins og í "Lífsleikni" í grunnskólunum. Nú vill ekki betur til en svo að einhverjir þessara manna hafa yfirgefið eiginkonur sínar og hafa tekið saman við "buddy" eiginkonuna. Þetta kerfi virðist nú ekki alveg virka, gæti þurft smá fíntjúnníngu...

...nú var dýralæknir í Argentínu að bjóða mér að koma þangað að krukka í einhverjar merar. Call me crazy, en ég bara nenni því ekki, mér finnst nógu flókið að fara til Vínar að krukka í merar. En það kemur nú ekki að þessu fyrr en í sumar eða haust, svo nógur tími til að arranséra einhverju öðru.

|