<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Ég fer alltaf með strætó út á skrifstofu á morgnana og á stoppistöðinni eru alltaf tveir unglingsstrákar með mér sem taka sama strætó. Þeir eru ca. 13 ára og óharðnaðir að sjá, algjör babyfaces. Hins vegar eru þeir í kallamokkasínum og terilínbuxum, angandi af Old Spice. Veit ekki hvort þessi forni sveitailmur er hluti af skólabúningnum, en nóg pusa þeir á sig af þessu greyin. Það eina sem þeir geta gert til að virðast töff (sem skólabúningurinn leyfir) er að greiða hárið upp í loft og vera með bakpokana hangandi niður í hnésbætur.

Þegar um borð í strætó er komið fara þeir auðvitað upp á efri hæð eins og ungdóminum sæmir. Ég gerði það einu sinni í svona morgunferð og geri það aldrei aftur! Þeir eru nefnilega ekki einu unglingsfarþegar morgunsins, heldur bætast sífellt fleiri skólafélagar þeirra á farþegalistann með hverri stoppistöðinni. Og þetta eru dónalegir, háværir og sóðalegir krakkar (senst "normal" unglingar) sem stunda skólatóskuvarp, öskur og áflog. Ekki það sem ég óska mér á dimmum vetrarmorgnum. Ég virðist vera orðin það gömul að ég er búin að gleyma æsispennandi ferðum í skólabílnum hans Krúsa sem keyrði okkur einu sinni í viku út í Sundhöll Hafnarfjarðar. Þá var stuð. En ég hefði ekki viljað húkka far með honum í dag.

|
music
Good. You know your music. You should be able to
work at Championship Vinyl with Rob, Dick and
Barry


Do You Know Your Music (Sorry MTV Generation I Doubt You Can Handle This One)
brought to you by Quizilla

Ánægð með þennan dóm...og svo fylgir svona líka fín mynd með

|

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Sheila, sem ég deili skrifstofu með, ræktar litla, másandi, loðna, gjabbandi kjölturakka sem heita stórum nöfnum. Og hún virðist vera í stjórn einhvers hundaræktunarklúbbs því hún talar í klukkutíma á dag við hina hundaræktendurna um fundarstörf og reglugerðir. Og ég er að verða brjáluð á því! Það er ekki hægt að sitja og skrifa með þetta í bakgrunni. Þess vegna er ég nú að skrifa þetta bull í stað þess að fylla út styrkumsóknina sem ég ætti að vera að klára. Farðu nú að hætta þessu doggyblaðri kona!!

|
Dimmt og drungalegt vetrarkvöld nýlega var barið þungum höggum á virkishurðina heima hjá okkur. Enginn heima á neðri hæðinni svo ég fann mig knúna til að ansa. Mætti mér fölur og fár unglingspiltur sem kastaði á mig kveðjunni: "It's OK, I am not going to rob you or anything". Hóf hann svo ræðu allítarlega um líf sitt fram að þessu og ástæðu heimsóknar hans. Hann var sem sagt ungur afbrotamaður (útskýrir vissulega þessa afgerandi kveðju) sem var í endurhæfingarprógrammi á vegum borgarinnar. Fólst endurhæfingin í því að hann gekk milli húsa og bauð fólki kústa, moppur og ýmis önnur hreingerningarverkfæri til sölu. Með þessu átti hann svo að vinna sér inn punkta og "goodwill" og halda svo glaður og nýr maður út í lífið. Af hverju datt engum í hug að senda sólbaðsstofunauðgarann upp í Rekstrarvörur í endurhæfingu? Eða ennþá betra: hann hefði getað gengið milli húsa og boðið upp á vörur úr Svenson bæklingnum fornfræga. Það gefur auga leið að þessi aðferð hlýtur að vera sú besta í bransanum, illvígustu heljarmenni gerast ljúfir sem lömb-100% guaranteed árangur!

|

föstudagur, janúar 23, 2004

Jæja, ég er enn hér eftir öll verkefni gærdagsins. Og þvílíkur dagur! Af hverju safnast öll verkefni vikunnar á einn dag og svo situr maður og lætur sér leiðast alla hina dagana! Dagurinn byrjaði á kennslu armra dýralæknanema í frjósemisfræðum. Þetta voru lokaársnemar en voru samt eitthvað svo andlaus og fattlaus-meira að segja ég fílaði mig bara klára við hliðina á þeim, múhúhúhaha! Svo brjálaðist ein merin og sló næstum niður Matt, hinn dýralækninn og þau stóðu bara og flissuðu nervust. Og þessi 1/9 hluti sem var strákur var í skyrtu og bindi undir fjósagallanum-þeir eru víst allir svona. Who are they kidding? Bíðiði bara þangað til þið liggið í flórnum við burðarhjálp, mykjugir upp fyrir haus. Þá stoðar ekkert að vera með hálstau af þessu tagi.

Eftir verklegu æfinguna áttu þau svo að svara spurningum sem þau voru búin að undirbúa heima. Og þau komu ekki bara með beint svar við hlutunum heldur kom allur kaflinn og kaflarnir á undan og eftir líka. Matt var frekar þreyttur á þessu, en ég man hvernig þetta er, maður veit svo lítið að það er hægt að lesa alla bókina til enda og alltaf vera að læra eitthvað nýtt. Þau hafa bara ekkert vitað hvar þau áttu að hætta. Svo ég fyrirgaf þeim þetta greyjunum.

Þessi ráðvilltu skólabörn urðu þó til þess að ég losnaði ekki fyrr en klukkan eitt og átti að koma fyrir þessa námsmatsnefnd hálfþrjú og átti eftir að undirbúa það, vissi ekkert hvað ég ætlaði að segja eða gera. En...þá hringir í mig vörubílstjóri sem situr fyrir utan húsið heima með dótið okkar úr skipinu og biður mig að koma út og veifa svo hann viti að hann sé á réttum stað...Ég hringdi heim, en enginn heima til að taka á móti þessu! En svo redduðu húsráðendur mér og tóku við dótinu fyrir mig.

Þegar svo kom að fundinum hringdi leiðbeinandinn Elaine með stálaugun og sagðist verða sein en við ættum bara að byrja án hennar því hún þyrfti líka að fara fyrr...thanks for taking an interest! Og ég hef eigi fyrr lagt tólið á en ég frétti að formaður nefndarinnar hafi slitið hásin kvöldið áður en sé þó mættur á hækjum! Þvílík hrakföll í kringum mig! Ég gat því alveg átt von á hörmungarfundi. Þetta var samt ekki svoo slæmt, gat ekki svarað spurningunum þeirra, vissi ekki hvað ég ætlaði að gera og hvernig en þau voru ekkert vond við mig. Og það skemmtilega við fundinn er að formannshækjurnar góðu voru svona holhandarhækjur eins og maður sér í bíómyndum. Ég gat því skemmt mér konunglega yfir því innra með mér og því látið af stressi, sorg og sút og flutt erindið klakklaust.

Eftir þennan fund fór ég beint á fund með hinum framhaldsnemunum og þar var vín og bjór og snakk..og líka eitthvað verið að tala um fræðslufundi...missti eiginlega mikið til af formlega hlutanum. Það er brenglað að hlusta á samtöl fólks á svona samkomu, þau eru eiginlega bara á skammstöfunarformi og maður fílar sig svo mikið nörd af því að maður skilur sumt af því sem fólk er að segja.

En nú sit ég hér á föstudegi og er að spá í að fara fyrr í dag því mér finnst ég ekki hafa neitt að gera. Hef samt allt það sem matsnefndin sagði mér að gera...sé til...

|

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Loksins komið eitthvað niður á blað. Spurði Elaine ráða og hún lét mig náttúrulega fara niður úr gólfinu úr skömm yfir því að vera til. En það fæddi þó af sér eina A4 síðu, svo nú á ég bara eftir að undirbúa hvað ég ætla að segja og hvernig og undirbúa rektaliseríngarkúrsinn sem ég á að kenna í fyrramálið. Hjálpi mér nú allir heilagir að gera mig ekki að algjöru fífli og komast klakklaust í gegnum glímuna við fróðleiksþyrsta nemendur sem eru með handlegginn uppi í merarrassi. Og ég sem er ekki búin að öðlast sérmerkta gallann enn, hvað þá stáltárskóna. Get sem sagt ekki skýlt mér bak við einkennisbúninginn á morgun. Ristilkrampinn aðeins farinn að gera vart við sig enda búin að drekka heila könnu af kaffi og í tómu rugli. Framhald fylgir...

|
Hjálpi mér hamingjan!

Búin að sitja á skrifstofunni síðan hálfníu í morgun og ætla mér að skrifa smá erindisstúf sem ég á að flytja fyrir námsmatsnefndina á morgun, en ekkert gerist. Er orðin mjög leið á samvistinni við sjálfa mig og er búin að hringja í mína nánustu og kvarta og kveina. Samt gerist ekkert enn. Á víst að vita hvað ég ætla að vera búin að afreka í lok septembermánaðar. Áttaði mig hins vegar á (í algjörri neikvæðni) að ég veit ekkert hvað ég er að gera hérna og veit ekkert hvort ég vil vera hérna. Jahérna hér hvað maður getur misst sig í neikvæðnina. Ég bara nenni ekki að standa þarna á morgun og stama einhverju út úr mér sem betur væri látið ósagt.

En nóg af þessu hjali. Ætti að taka upp betri hætti, kveikja á Enyu og reykelsum og gera smá jóga til að létta lundina. Fór í minn fyrsta jógatíma á laugardaginn með Sólveigu og finn enn fyrir eftirköstunum. Var ennþá draghölt á mánudaginn, svo þetta er ekkert grín. Enda skellti ég mér auðvitað beint í framhaldstíma, algjör byrjandi. Mér var allri lokið þegar yfirjóginn stakk upp á að við æfðum höfuðstöður en létti stórum þegar hinir jógarnir litu skelkaðir hver á annan-það er sem sagt vonandi langt í að við verðum sett á hvolf.

Fór í bíó í gær með Fraulein Wissmann og GHordur. Sáum jökulslysamyndina "Touching the Void" sem var prýðileg, geðveikislegt hvað sumt fólk heldur endalaust áfram og gefst ekki upp (annað en ég, auminginn). Mæli með henni fyrir BO Tours jökulunnanda og litla bróður.

Og svo rúsínan í pylsuendanum: Sá bíl með íslenskum númeraplötum fyrir utan bíóið. Þetta er alls staðar!

|

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Verð að monta mig aðeins: Fékk í gær umslag frá kollega mínum á veðhlaupabrautunum og uppveðraðist mjög við þá sendingu. Var gleði mín ekki vegna innihaldsins heldur vegna utanáskriftarinnar "Dr Cxxxxxxxx Oxxxxxxxxx osfrv.". Þetta fer í ramma upp á vegg, eða eins og Danir segja: "Den skal i glas og ramme, lige med det samme"

|
Nú er ég nýmætt á skrifstofuna og ætti að vera á kafi í að undirbúa skýrsluna sem ég á að skila á morgun. Í fyrsta lagi er erfitt að koma sér að því (er í stoppkasti), í öðru lagi vantar mig myndir frá leiðbeinandanum til að setja inn í þetta og í þriðja lagi situr konan sem ég deili skrifstofu með (systir konunnar sem kyndir ofninn minn) og opnar öll vefkortin sem hún hefur fengið síðan í gær, en þeim fylgir einmitt hroðaleg tónlist. Svo það er erfitt að einbeita sér.

Átti alltaf eftir að segja frá því þegar við Guðmundur fórum á Hringadróttinssögu um helgina. Sat við hliðina á mér kona á sextugsaldri sem var ein í bíó. Það var nú allt gott og blessað. Fljótt fór ég að heyra hvísl eins og einhver væri að útskýra gang myndarinnar fyrir sessunauti sínum. Komst þó fljótt að því að konan var að tala við sjálfa sig. Fór mikið af seinni hluta myndarinnar hjá mér í að fylgjast með henni. Hún virtist mjög gripin af þessu öllu saman og hvíslaði skipanir til sögupersónanna. Þegar Aragorn hitti Arwen aftur eftir alla þessa bardaga, hvíslaði konan opinmynnt: "Kiss her, kiss her!!!" og svo grenjaði hún líka heilmikið. Vesalingurinn var eitthvað svo umkomulaus í myrkrinu. Þannig að ég fékk aldeilis bónus með í kaupunum í þetta skiptið!

|

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Hva, það líður bara vika milli færslna hjá mér...þarf að fara að standa mig betur í þessu. Áttaði mig á því á mánudaginn að ég á að skila annarskýrslu á föstudaginn og koma fyrir matsnefnd til að segja þeim hvernig hefur gengið og hversu langt ég er komin með þetta. Fékk sjokk og heilinn hætti að virka. Búin að vera plöguð af áhyggjum án þess að vita nákvæmlega hvers vegna. Settist svo niður í gær og skrifaði lista yfir það sem ég á eftir að gera og leið aðeins betur. Þannig að ég ætla að skila fallegustu skýrslu í heimi og massa þessa matsnefnd.

Ofan í þessar áhyggjur þarf ég nú að hafa áhyggjur af rektalíseringatímunum sem ég á að aðstoða við einu sinni í viku. Felast þeir í því að leiðbeina örmum stúdentum (sem ég hef á tilfinningunni að viti ekkert mikið minna en ég sjálf) í því hvernig á að þreifa eggjastokka og leg mera í gegnum endaþarminn. Og það er einmitt þetta aktívitet sem fólki finnst svo spennandi í kringum dýralækningarnar. Fyrsta spurningin sem maður fær er alltaf hvort maður hafi prófað, en svo trúir fólk aldrei svarinu!

Nú jæja, en dýralæknirinn sem kennir kúrsinn ætlaði að leyfa mér að æfa mig svolítið en hann virðist ætla að ganga á bak orða sinna svo ég verð að mæta óæfð. En plúsinn við þetta allt er að ég fæ stáltárskó og rosa flottan dýralæknagalla með nafninu mínu á, on the house.

Svo er skipið með kössunum mínum komið og ég ætti að fá þá heim í næstu viku. Það verður nú gaman.

Frétti annars að Maggi Frístæl hefði haldið partí ársins í tilefni af þrítugsafmælinu. Leitt að missa af því, en nærvera mín hefði líklega valdið einhvers konar fun overloadi svo það var eins gott.

|

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Og auðvitað aðalmálið: Bergþór Már stóri bróðir minn er þrítugur í dag. Það held ég að hann gleðjist í hjarta sínu sem annars staðar, þar sem líkami hans nálgast sífellt hans aldna hug í aldri. Óska ég honum innilega til hamingju með áfangann og vona að hann skemmti sér ærlega yfir honum í afmælisveislunni. Hann verður að heiman á afmælisdaginn. Og því miður get ég ekki sett inn mynd af honum á þessa síðu en ég hef hans fögru ásjónu í huganum í dag.

Kossar kæri bróðir til þín og þíns fólks

|
Úff, mikið hlakka ég til helgarinnar. Og sumarsins. Og til hádegis, því þá ætla ég að taka mér það bessaleyfi að læðast snemma heim. Því minn kæri Guðmundur er nú í lestinni til Edinborgar frá Glasgow. Jibbíjeiji.

Það er ansi mikið að gera hjá mér þessa dagana. Komst að því að fresturinn til að sækja um styrkinn sem ég er búin að plana síðan í sumar rennur út um miðjan feb. Eins gott að fara að drífa sig. Hef því setið og fyllt út umsóknareyðublöð eins og ég fái borgað fyrir það (sem ég og fæ ef ég fæ þennan styrk). Hins vegar hefur reynst þrautin þyngri að þýða rannsóknarlýsinguna yfir á íslensku, því íðorð ýmiss konar hafa þvælst fyrir mér. Ég meina, hver veit hvað næriþekjufruma er? Give me a trophoblast any time! Eða þá dreifkjörnungur yfir eitthvað svo einfalt sem neutrophil...þetta er blátt áfram skammarlegt. Svo annað hvort verð ég að skila þessu inn á ensku eða skila einhverju sem ég skil ekki helminginn af sjálf. Og það væri verra. Það er ofsalega gaman að kryfja með Sigga Sig á Keldum og fræðast um netjumör, dausgörn og miðmæti en í alþjóðasamfélagi vísindamanna neyðist maður víst til að tala latínu. Og hananú.

Þarf víst að skjótast niður á lab og skera eins og tíu vefjasneiðar til að hægt sé að lita þetta fyrir mig. Svo fer ég bara heim að leika mér með öll þessi eyðublöð.

|

þriðjudagur, janúar 06, 2004

Jæja, heldur hefur maður haft hægt um sig um jólin. Þetta hefur verið viðburðarríkur tími, þó ég hafi ekki skrifað. Hins vegar verð ég svo andlaus eitthvað og aumingjaleg um hátíðarnar að ég kem mér ekki að nokkrum sköpuðum hlut, og þá allra síst að því að blogga. Enda eru lesendur mínir sumir farnir að vera með kjafthátt af einskærum pirringi.

Framtaksleysi mitt yfir jólin hefur skilið eftir sig slóð af brotnum loforðum og því brotin hjörtu líka. Rembist nú við að reyna að bæta fyrir það með sykursætum tölvusendingum til hinna sviknu öðlinga. Leiðbeinandinn minn, Elaine með steinhjartað, kom inn á skrifstofuna mína áðan og rukkaði mig um árangur sem ég engan veginn gat sýnt, en talaði mig fimlega út úr því og er nú að gera allt það sem ég átti löngu að vera búin að gera.

Æ, það er svo sem gott að koma aftur í rútínuna sína. Ánægð með nýju íbúðina mína sem er hrein snilld og hlakka til að koma mér fyrir þar. Svo hlakka ég til á fimmtudaginn að fá ástmöginn í flugpósti.

Jæja, ég er búin að stimpla mig inn í nýja árið, nú er bara að horfa í kringum sig svo ég hafi einhverjar mannlífssögur að segja á næstunni. Cheerio!

|