<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 29, 2004

Djalla dáin?

Nú halda lesendur kannski að í síðustu færslu hafi ég hlakkað svo til helgarfrísins að ég hafi gert það að vikufríi. Það er ekki rétt. Ég hef nefnilega síður en svo verið í fríi. Ég hef bara aldrei þessu vant haft nóg að gera. Sem er mjög gott. Þegar ég er dugleg að blogga þá liggur doktorsverkefnið steindautt. Það er skammarlegt, en satt.

Er sem sagt búin að vera í hvítum slopp við rannsóknastörf alla vikuna. Og það er bara rosa gaman. Á þriðjudaginn var ég svo mikið að pípettera að ég gleymdi að borða frá hálftíu til hálfsex og dróst heim nær dauða en lífi. Now this is dedication-hvað gerir maður ekki fyrir vísindin.

Og ég er líka búin að vera dugleg í félagslífinu, aldrei þessu vant. Ég fór á tónleika tvö kvöld í röð, með sömu hljómsveitinni, samt ekki í sömu borginni. Íslenska hljónstin Ske var með tónleika í Glasgow og svo kvöldið eftir í Edinborg. Og Bógómíl Font tók í hendina á mér og þakkaði fyrir komuna. Hann er sko að tromma með Ske. Og Guðmundur Dennason er stórskrítinn maður. Hann átti afmæli í gær og það skríkti í honum og hann hoppaði og híaði við hljómborðið. Og Ragnheiður Gröndal var líka með þeim. Ég keypti rauðan bol með leðurblöku og litlu "ske" á. Mér fannst leðurblakan bara svo kúl...og þetta er í fyrsta skipti sem ég kaupi tónleikabol sem passar....og nei, ég er ekki að segja að ég sé feit, það eru bolirnir sem eru of litlir (víííst!). Það eru sko alltaf svona feitir sveittir kallar fyrir utan að selja boli sem eru annað hvort nógu stórir á þá sjálfa (Gents) eða þrettán ára frænkur þeirra (Ladies) og ekkert þar á milli...

Upphitunarbandið í Glasgow var skoskt og hét My Latest Novel og mig langar rosalega í disk með þeim. Þau eru bara ekki búin að gefa út disk...

Senst velheppnuð vika og gaman að lifa.

|

föstudagur, október 22, 2004

Nú stefnir enn á ný í góða helgi

Það er bara svo ljúft að hafa frí að það er með ólíkindum. Ekki það að ég sé búin að vinna mikið í vikunni...skrapp nefnilega til Cambridge að ná mér í fjölda legvatnssýna sem munu spila mikilvæga rullu á leið minni til frægðar og frama. Í gær fékk ég nefnilega bréf tilkynnandi mér að ég fengi leyfi til að skila hér inn doktorsritgerð. Í bleðli þessum kom fram að skilorðsbundnu fyrsta ári væri hér með lokið og ég mætti halda áfram að stúdera. Skilafrestur doktorsritgerðar var svo tilnefndur 30.sept 2007, einmitt á þrítugsafmælinu mínu. Ojojoj, ég vona nú að ég verði búin fyrir þann tíma.

Tók lestina til og frá Cambridge. Alltaf notalegt að ferðast með lest. Nema þetta skipti kom ég heim með versta hálsríg sögunnar, hausverk og síþreytu. Ég veit ekki hvað gerðist, en eitthvað fór ferðalagið illa í mig.

Kannski voru það Sk-Ítaladjöfsarnir þrír. Ég var búin að gleyma hversu fyrirferðamiklir Ítalir eru-skil ekki hvað kærir vinir mínir sjá í þessu fólki. Í York kom ítalskt þríeyki inn í lestina og var gjörsamlega óþolandi. Sko, í fyrsta lagi var fýsísk fyrirferð þessa fólks þvílík, í loðkápunum, með hárgreiðslurnar, innkaupapokana og hattöskjurnar.

Í öðru lagi, og alls ekki minnst pirrandi, var hljóðmengunin. Þeir töluðu svo hááátt! Giancomo, quizzi sono liberi, quizzi sono liberi, quizzi tre sono liberi!!!!!! Ok, we got it already-það eru þrjú laus sæti hér! (hér hefði ég auðvitað átt að ópa (takk DV): "Queeeesta piú, éh????", but I didn't). Nú, í stað þess að setjast þá stóð einn og gerði "frátekið sæti englapláss"-leðurstinking með þriggjadagaskegg og gucci "man-bag", kellan hljóp fram og til baka öskrandi fyrrnefndan frasa aftur og aftur og einhvers staðar í næsta vagni var spjátrungur sem ég sá ekki fyrr en seinna sem var greinilega eitthvað óánægður með quizzi sæti.

Nú, málalyktir urðu þær að spjátrungurinn hafði betur, þau fóru sem sagt í næsta vagn með hafurtaskið allt, eftir að hafa stoppað alla gangandi umferð um vagninn hálfa leiðina milli York og Newcastle. Fegin var ég að sjá þau fara. Og by the way, þau voru öll með dökk sólgleraugu. Það var þoka úti. I rest my case.

|

mánudagur, október 18, 2004

Smekknáungi

Af mbl.is:
"Bílþjófur sérhæfir sig í Nissan Sunny

Tilkynnt var til lögreglunnar í Reykjavík um nytjastuld á þremur bílum um helgina. Allir bílarnir af gerðinni Nissan Sunny og segir lögreglan, að þjófur sem sérhæfi sig í þeirri bílategund, hafi verið á ferðinni að undanförnu. Í einu tilvikinu var þetta í annað sinn á skömmum tíma sem bílnum var stolið."

Ég er að segja þetta, Sunny: Créme de l'a Créme, vinur minn, Créme de l'a Créme.

|
DV-fyrirmyndarmiðill

Á vefsíðu DV í dag er frétt um fótboltadómara sem varð fyrir því að að honum voru ópuð ókvæðisorð. Hmm, þetta er hið þjálasta orð, ég kemst strax í skáldsögugírinn..."Hva, eruð þið að eipa á þessu?!" ópaði Finnbjörn hátt og snjallt. "Hvaða hvaða, hr. ópaðu ekki svona" mælti þjónninn. Takk DV, mínum degi bjargað.

|
Var að pæla: Getur verið að dauð beinflís líti út eins og venjuleg timburflís? Það var nefnilega að dúkka upp flís í puttanum á mér áðan sem hefur ekki verið þarna hingað til og þetta er einmitt þar sem ég brákaði mig við að missa tonn af bárujárni á puttann. Var bara að spá hvort þetta gæti verið hluti af brotnu beini sem var að skila sér...

|
Dauði og djöfsar

Damn it! Kom þá að því að riðan styngi sér niður í nágrenni Bræðratungu. Nú jæja, þau voru nú búin að reikna með því að þetta gæti gerst. Þá geta þau einbeitt sér að því að byggja nýja fjósið. En mikið rosalega er þetta sorglegt.

Svona til að létta andrúmsloftið aðeins: Í Cambridge er gata sem heitir Jesus Lane.


|

föstudagur, október 15, 2004

Faraldur í uppsiglingu


Illkynja slímhúðapest

Starf mitt sem skúringakelling í skrifstofuhúsnæði snýst meðal annars um að tæma ruslaföturnar við hvert skrifborð. Við það verk kemst maður að ýmsu um eiganda fötunnar. Það er til dæmis einn sem ég myndi ráðleggja að leita háls-, nef- og eyrnalæknis. Hann snýtir sér eins og vitlaus maður, svo að eftir hann liggja haugarnir af kuðluðum klósettpappír á hverjum degi. Hann gæti verið með einhvern hræðilegan sjúkdóm og endað svo á að smita alla hina. Af ruslafötum hinna starfsmannanna að dæma hefur þetta enn ekki gerst.

Mér detta í hug sjúkdómar á borð við illkynja slímhúðapest, afríska svínapest og heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL)(!). Og stundum þegar ég er að tæma fötuna þá detta sumir vöndlarnir út fyrir og ég þarf að taka þá upp....eeeuuuughhh....jaaaagra. Enda eru gúmmíhanskarnir mín kærasta eign.

|

fimmtudagur, október 14, 2004

Eldhressi skjórinn



Í gærmorgun átti ég afskaplega erfitt með að koma mér fram úr rúminu, lét klukkuna hringja aftur og aftur. Langaði bara ekkert að vakna til þess eins að æfa fyrirlesturinn endurtekið fyrir sjálfa mig og enda svo á að þurfa að flytja hann fyrir aragrúa sérfræðinga. Lá sem sagt þarna í móki og reyndi að vera ósýnileg. Þá heyri ég pikkað á gluggann hjá mér (bý jú á fjórðu hæð) og svo fylgdi smá kvak með. Kom í ljós að þetta var skjór sem var alveg staðráðinn að fá mig á lappir. Kann ég honum miklar þakkir fyrir hugulsemina!

|

miðvikudagur, október 13, 2004

Sjálfspyndingu lokið

Jæja, fyrirlesturinn búinn, mikill léttir. Ég var fyrst á mælendaskrá svo ég þurfti ekki að svitna mjög lengi, heldur var þetta fljótlegur og frekar sársaukalaus prósess. Járnfrúin Elaine sagði að ég hefði verið mjög afslöppuð (hmmm....nei!) og þetta hefði bara verið fínt af fyrsta fyrirlestri að vera. Sjálf er ég mjög ánægð með að hafa ekki verið versti fyrirlesarinn, það var einn sem var verri en ég og stamaði og allt...ahhhh, Schadenfreude! Auk hans var spænskumælandi náungi með mikinn hreim svo ég var ekki einu sinni versti útlendingurinn, Hah! 1-0 fyrir mér!

Nú, eftir fundinn sögðu leiðbeinendurnir mér að ég þyrfti að taka mig saman í ýmsum málum og byrja að skrifa eitthvað af viti og svo framvegis-svo lífið er ekki einungis hopp og hí hérna hjá mér ;(

Ætla held ég bara heim núna, a good day's work has been handed in.

|

þriðjudagur, október 12, 2004

Dionysos í tunnunni

Ætti að vera að æfa og betrumbæta fyrirlesturinn sem ég á að halda fyrir fullan sal af fólki á morgun (skjálf, skjálf). Kem mér bara ekki að því. Þetta er kannski einhver undankomufídus hjá mér. Hafði svo sem alla helgina til þess, en valdi þess í stað að vera í garðinum að taka upp gulrætur og lauka. Sultaði svo og sauð niður eins og ég hefði tíu munna að metta.

Í gærkvöldi sá ég svo ansi góðan þátt, "Bob Geldof on Marriage". Hann er bara ansi kvikk náungi, auk þess sem írski hreimurinn er dæmalaust kumpánlegur, maður trúir engu illu upp á svona rúllandi Íra. Hann var þarna sem sagt að kanna örlög hjónabandsins á þessum síðustu tímum og gerði það ansi vel. Kom fram að börn úr brostnum hjónaböndum eiga erfiðara uppdráttar en þau sem búa með báðum foreldrunum.

Það fylgdi þó ekki sögunni að hann elur nú upp þrjú börn frá brostnu hjónabandi, auk dóttur hinnar fyrrverandi og hennar ástmanns en þau frömdu bæði sjálfsmorð eins og vitað er. Kannski er það þess vegna sem hann var svona brennandi í þessarri rannsókn sinni. Það kom líka fram að margir gifta sig í dag fyrir brúðkaupsdaginn sjálfan og fatta ekki að svo koma dagar eftir þann dag og þá er maður altså giftur og þarf að taka tillit til þarfa og óska annarra. Og þá var líka rætt um "I´m worth it, I deserve it" pælingarnar-fólk er svo vant því að fá það sem það vill að ef það sér einstakling í vinnunni sem það girnist, að þá á það skilið að fylgja þeirri girnd. Frekar en að standa undir skuldbindingunum og bara láta svoleiðis ekki eftir sér.

Og við konurnar sem eru að hamast upp metorðastigann segir hann: "When you come home and your day has been shite, and she has done something nice, cooked dinner or something, that is really sexy". "Já, mikið er ég sammála", hugsaði ég, búin að standa í sultugerð alla helgina...

Jæja, þetta var heimspekipistill mánaðarins-það er svona þegar maður hefur engan til að ræða málin við-Netið sér um sína!

|

föstudagur, október 08, 2004

Mínútuaðgerð

Hah! Hafði rétt fyrir mér með brotajárnið. Lítill visinn maður í rauðum samfesting með rautt Maglite á stærð við hann sjálfan var mínútu að vippa sér undir bílinn (kom sér vel að vera smávaxinn) og slíta þetta ryðskran undan bílnum. Og hann var as good as gold. Létti þetta af mér miklu hugarvíli. Og þetta kostaði ekki neitt að sjálfsögðu.

Nú erum við Molly einar heima fram á annað kvöld og sátum því niðri í gær og gláptum á allar skemmtilegu stöðvarnar sem ég hef ekki uppi. Fylgdumst með ófríðu fólki verða fallegt í "Extreme makeover". Það er til alveg rosalega óheppið fólk, svona útlitslega séð. Hins vegar finnst mér þeir vera helst til ákafir í þessum fegrunum sínum. Þannig fór með annað viðfangsefnið í gærkvöldi. Hann hafði útstæð eyru, flatt nef og minnstu tennur sem ég hef séð (já, jafnvel minni en mínar) er minntu mig helst á leðurblökutennur. Eyrun og nefið urðu eðlileg, en þegar kom að tönnunum var ekki farinn neinn meðalvegur, ónei. Greyið endaði með skjannahvítan, allt of stóran tanngarð uppi í sér og missti allan sjarma-en hann var nú samt hæstánægður svo hvað er ég að ybba mig. Enívei, mamma skilur hvað ég á við.

|

fimmtudagur, október 07, 2004

Einmana í útlöndum

Já, nú er ég aftur orðin ein í útlöndum. Ekkert verið ástæða til að skrifa síðustu tvo mánuði þar sem ég hef verið á Íslandi og flestir sem lesa skrif mín hafa því getað fylgst með mér úr óvenju miklu návígi. Sem getur verið bæði gott og slæmt.

Það kom þó einu sinni yfir mig bloggþörf þennan tíma-þegar ég var við berjatínslu úti í hrauni. Þá datt í hausinn á mér þvílík snilld. Hún datt bara út aftur, því miður.

Bíllinn minn beið hér eftir mér mosavaxinn og þakinn köngulóarvefjum innan sem utan. Fór þó fljótlega í gang og virtist alveg í lagi með hann. Nema hvað, að þegar ég er á heimleið í dag fer ég að heyra eitthvað hljóð eins og ég dragi eitthvað á eftir mér. Náði heim og fattaði að það er eitthvert járnstykki losnað undir bílnum framantil. Þetta nenni ég ekki að fara að eiga við akkúrat núna. En það er víst ekkert annað að gera. Getur þetta verið í sambandi við olíupönnuna? Kannski einhver hlíf sem þarf ekkert að vera í lagi með og ég get látið detta undan af sjálfri sér án þess að eiga eftir að sakna hennar baun? Sjáum til. Verkstæðið á morgun.

|