<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 31, 2004

Farin að hlakka til sjónvarpsgláps á fimmtudaginn, því þá er þátturinn "Human Mutants" á dagskrá Channel 4. Það er nú eitthvað fyrir mig, ha?

Og talandi um Channel 4, þeir voru að byrja með nýja Big Brother þáttinn en þáttaraðirnar eru örugglega farnar að hlaupa á tugum. Í þessari þáttaröð eru víst tómir hommar, lesbíur og tvíkynhneigt fólk auk þess sem ein stúlkan fæddist karlmaður. Hinum þáttendunum er auðvitað ekki sagt frá því. Ojojoj. Í öll þau ár sem ég bjó í DK sá ég ekki einn einasta þátt af þessu og var yfir mig fegin. Og það þó að almenn þjóðfélagsumræða hafi að mestu snúist um lífið í Big Brother húsinu. Ég ætla ekki að horfa á þetta hér því ég hef orðið vitni að skynsamasta fólki verða þáttunum að bráð. Og ég veit að ég félli í gryfjuna á nótæm. Sjáum hvort ég held það út.

|
Brá mér af bæ á laugardagskvöldið og át tapas með Sólveigu og Önnu Vigdísi sem hér er líka búsett. Ég skil ekki hvaða havarí er í kringum tapas-þetta er bragðlaust, naumt skammtað og rándýrt. En sangríað var gott og kvöldið fór vel fram. Hins vegar var bið mín eftir strætó niður í bæ ekkert síðri skemmtun. Sat í mestu makindum í kvöldsólinni þegar ungt par kom og byrjaði hávaðarifrildi við hliðina á mér. Ég var fyrst ekki viss hvort þau væru systkin, feðgin eða kærustupar. Litu bæði út fyrir að vera unglingar en hann talaði eins og hann væri annað hvort blindfullur eða svakalega skemmdur af vímuefnanotkun.

Hann tók upp jógúrtdollu og húðskammaði hana fyrir að hafa keypt eplajógúrt en tók svo upp lyklana sína og byrjaði að slafra í sig jógúrtina með þeim. Svo gaf hann sig að mér og spurði hvort ég fílaði DVD-myndir, hann væri nefnilega að selja slatta. Ég sagðist ekki eiga spilara, hélt að ég slyppi vel með þá afsökun. Hann sagði að það væri ekkert mál, hann væri að selja spilara líka. Tók svo upp poka og fór að lesa á kjölinn á DVD myndunum sem hann var með. Hann var illa læs og drafaði líka eins og áður sagði. Hann sat þarna á eintali við sjálfan sig og las upp kvikmyndatitla í fimm mínútur. Þangað til "Confessions of a teenage drama queen", að hann komst ekki lengra en "conf...conf...of..". Hann reyndi að draga spilarann upp úr kassanum en ég sagði honum að vera ekkert á því, stóð fast á mínu og sagðist bara ekki vanta þetta. Þá dró hann upp rispaðan, dauðan gemsa upp úr vasanum og bauð mér hann. Ég benti honum á að hann væri nú ansi illa farinn en sölumaðurinn knái kvað hann bara þurfa hleðslu. Svo byrjaði hann að segja mér frá því þegar hann sat inni, en rétt í því kom strætó mér til bjargar.

Þessi ólánspiltur var örugglega ekki mikið eldri en sextán.

|

föstudagur, maí 28, 2004

Baldur og Konni

Sjáið hvað þau eru fín: Undurfríð hjónakorn

Það væri gaman að sjá frúna á hlírakjól í næsta konunglega brúðkaupi.


|
damn, damn, damn, ef maður klikkar á þessa táknmynd þarf maður að fara að hlaða niður einhverju forriti og svoleiðis, ég legg það nú ekki á fólk. Getur ekki einhver kennt mér að setja inn myndir á bloggsíðuna mína, plííís? Tobbi, þú ert svo mikill URL/HTML snilli, hjælp mig søde ven!

|
Jennifer Lopez hlýtur að vera að fara yfirum, nýjasti textinn hennar: "I never knew I could feel like I felt when I felt you feel me" sungið tilfinningaþrunginni og tælandi röddu....Come again? Fyrirgefðu beib, held að ég hafi tapað þræðinum þarna, ertu til í að endurtaka þetta elskan?

|
Er að prófa mig áfram með að blogga myndir, held náttúrulega eins og fávitaauli að myndirnar birtist eins og þær eru, en þá kemur bara svona smá táknmynd sem þarf að smella á....úff...og myndin, ja þetta var svona það eina sem ég átti á tölvunni.

Hipp og kúl: Posted by Hello

|

fimmtudagur, maí 27, 2004

Sagt var frá því á BBC að þriggja ára stúlkubarn hafi látist í London á dögunum. Dánarorsökin var hjartabilun vegna offitu. Hún var 38 kíló en hefði átt að vera um 14,5 kíló. Svo hefur víst komið fyrir að ung börn kafni í eigin fitufellingum í svefni. Ojojoj.

By the way, konan sem les fréttirnar á BBC2 heitir Fenella Fudge. Fannst foreldrum hennar þetta fyndið? Ógeðslega væmið nafn.

|
Álpaðist inn í hundraðkallabúð í gær sem státaði af forvitnilegu vöruúrvali. Þarna var smástelpufatadeild, gömlukonudralonbuxnadeild, useless-ljótar-styttur-deild og svo verkfærahorn fyrir karlmennina. Ég var fljót að átta mig á því að þarna hefði ég ekkert að gera, en smástelpufötin vöktu athygli mína og hneykslan. Stærðirnar bentu til þess að fötin væru ætluð 10-12 ára telpum en þau voru alls ekki við hæfi. Einn bolur var sérstaklega ógeðslegur: Skærbleikur með áletruninni "MEN ARE FOR PLEASURE, NOT FOR LIFE". Ef þetta gefur ekki barnaníðingum einhverjar hugmyndir, þá veit ég ekki hvað. Verðum við ekki bara að vona að bolurinn sé ætlaður vannærðum litlum fullorðnum konum?

Rakst á jarðarberjakókómalt í búð í gær. Neyddist til að kaupa það því það var nú nokkuð sem við systkinin gæddum okkur á til hátíðabrigða þegar við vorum lítil. Það hefði náttúrulega verið algjör snilld að finna karamellukókómalt til þess að geta endurskapað undradrykkinn Galsa sem við drukkum í lítravís á meðan hann var framleiddur.
Jarðarberjadrykkurinn er vondur...hefði kannski átt að leyfa minningunni að lifa...en of seint ;-)

|

miðvikudagur, maí 26, 2004

Er að hlusta á RÚV á netinu og það er auglýsing á Rás 2 sem fer ofsalega í taugarnar á mér. Garðheimar að auglýsa garðhornið á föstudögum og það er einhver spassi sem les hana. Orðin eru íslensk en hann les þau með kolröngum áherslum: áburðargjöf, jarðvegseyðingu, umhirðu suuumar.....blóóma. Hér les þulur greinilega vitlaust!

|
Til þess að halda hringrásinni gangandi vildi Blóðbankinn við Barónsstíg gjarnan taka við 70 blóðgjöfum á dag. Heyrði auglýsingu frá skoskum blóðbönkum þar sem talan sú er 1000 gjafir á dag. Það er rosaleg tala, því miður get ég ekki hjálpað löndum mínum, gaf einn skammt heima fyrir tveimur vikum. Ákvað fyrir löngu að einskorða mig við íslenska blóðbankann en rosalega gæti ég grætt ef borgað væri fyrir hvert skipti-gæti gefið bæði í Skotlandi og á Íslandi. Ef fólk fengi blóðpeninga hér í Edinborg þá er ég nú hrædd um að mikið af blóðinu væri ansi gruggað. Las nefnilega í gær um rosalega fjölgun dauðsfölla af völdum sprautulyfja hér í Edinborg. Það sem af er árinu hafa 11 látist í borginni, og hér er nú bara tæp hálf milljón íbúa. Fólk samnýtir nálar og önnur tól og það kann ekki góðri lukku að stýra. Held nú að mikið af þessu fólki deyi einmitt úr ógeðslegum forneskjulegum graftrarsýkingum og viðbjóði. Það er nú mín skoðun án þess að ég viti mikið um málið...ójá.

Heyrði viðtal við skoskan kvikmyndagagnrýnanda sem var stödd á Cannes hátíðinni um daginn. Hún sagði að Michael Moore væri stærsta og feitasta mannfyrirbæri sem hún nokkurn tímann hefði séð. Og þá kom upp sú athugasemd að þar væri sannað að vistvæn, E-efnalaus og að öðru leyti politically correct matvæli væru greinilega ekkert minna fitandi en gervi- og eiturefnafæðið sem við hin lifum á. Þetta var grín að mínu skapi. Margt af því fólki sem borðar bara vistvænt og grænt lifir nefnilega í þeirri trú að ekkert illt geti mögulega hent það (né hafi hent dýrin sem það er að éta). Heilræði frá mér: Lesið økologi-löggjöfina og komist að bláköldum sannleikanum.

Og að lokum: Ojj að 50 Cent sé að koma til Íslands. Það heilalausa buff sem getur varla talað fyrir tanngeiflunum...tja, kannski hann og Barði BangGang ættu að djamma saman, það yrði one cryptic gig: mmbpfhhh, mmmphhhh...

|

þriðjudagur, maí 25, 2004

Vá, Jón Nýdanskur Ólafsson er stórhættulegur: Lá við að ég brysti í ljúfsáran grát hér á skrifstofunni yfir einu af hans lögum í netútvarpinu. Voðalega er þetta væmið og sætt hjá honum. Og það versta er að textinn er eftir Hallgrím Helgason sem ég hefði aldrei ímyndað mér að fengi mig að gráta úr öðru en hlátri og kannski viðbjóði.

Eins gott að ég fór beint á fund með Elaine og var snögglega kippt inn í gráan og kaldan veruleikann. Reyndar var þó svo óbærilega heitt á skrifstofunni hennar að af mér bogaði svitinn. Hún sat hins vegar í vítisfunanum í tweedjakka og brá ekki svip. Er hún Djöfsi holdi klæddur?

Ætlaði að kaupa mér voða fínan kælandi úða á sólbrunasárin í Boots í gær og þá reyndist vera "tveir fyrir einn" tilboð á þessari tilteknu vöru. Þurfti að hlaupa aftur inn í horn í búðinni á meðan biðröðin lengdist á eftir mér, einungis til þess að ná í brúsa sem mig vantaði ekkert. Ég sit því uppi með hálfan lítra af þessum úða í stað þess að segja bara nei takk kannski seinna. Lenti líka í þessu í bílabúð um daginn, var að kaupa tjöruhreinsi og kassadaman bauð mér að ná í aðra vöru, á sama verði eða ódýrari. Eina sem ég fann var dolla af blautklútum (svona svipað og er notað á bleyjubörn) til að þurrka af mælaborði og öðrum vínilhlutum í bílnum. Það er reyndar bót í máli að það eru bara 25 klútar í dollunni svo ég þarf ekki að sitja uppi með þetta lengi. Áttaði mig svo seinna á að ég hefði átt að kaupa bílasápu því það er nokkuð sem mig vantar.

En ég lærði það í Köben að falla ekki fyrir slíkum tilboðum á mat. Í Netto var oft hlutfallslega ódýrara að kaupa tvo kálhausa eða fimm púrrur en auðvitað hafði ég ekki undan að borða þetta og ég sat uppi með einn og hálfan myglaðan kálhaus og þrjár slappar púrrur.

|

mánudagur, maí 24, 2004

Náttúran lék mig grátt í gær. Skaðbrenndi handleggi og axlir í sólinni og brenndi leggina á brenninetlum. Og ofan í það þurfti ég svo að sitja í þrjá og hálfan tíma undir rjáfrum í gömlu leikhúsi og hlusta á óperu. Það er sko mjög heitt uppundir þaki í óloftræstu húsi fullu af fólki. Og sérstaklega því ég var ekkert nema sjóðandi hold.

Af hverju þurfa óperur að vera svona langar? Sko, það er rosa flott tónlist í Carmen en það er líka mjög mikið af óþarfa málalengingum, eins og til dæmis atriðið þar sem montinn ístrubelgur af lögreglustjóra er hæddur og barinn með rósum. Þessi lögreglustjóri kemur hvergi fyrir annars staðar í óperunni, hvorki fyrr né síðar. Honum hefði því alveg mátt sleppa. Og fyrst við erum á neikvæðu nótunum þá skil ég ekki hvað karlmenn sáu í henni Carmencitu. Hún var bara djöfullinn holdi klæddur, skipti um kærasta eins og henni væri borgað fyrir það og dansaði og svipti pilsum og þeir steinláu fyrir henni. Þar var sko flagð undir fögru skinni...eða ég held það, sá hana ekki nógu vel til að vita hvort hún var nokkuð einu sinni fögur. Hins vegar var stjarna kvöldsins dansandi hross. Grár geldingur sem steppaði jafn oft og dansararnir klöppuðu. Og svo hneigði hann sig að lokum með því að fara niður á hné...þ.e.a.s framhné. Á plakötunum var hann nú auglýstur sem "wild stallion" en við dýralæknanördarnir vorum nú að spá í að fá endurgreitt þar sem þetta var greinilega gelt hross og mjög rólegt.

En, sem sagt of löng sýning en ég var með dans nautabanans á heilanum og það eru margar flottar melódíur í þessu.


|

laugardagur, maí 22, 2004

Var að taka bílinn í gegn, þvo hann og tjöruhreinsa. Það var náttúrulega margra ára gamalt tjörulag á honum. Svo ætlaði ég að vera algjör snilli og bletta hann líka. Reyndi að fá blettalakk í litnum "Winter Green" (duhh!), eins og það heitir á skráningarskírteininu en endaði á að kaupa "Chrystal Green" sem reyndist svo auðvitað of grænt. Málið er að bíllinn minn er bara svona drullusilfurlitaður og það er náttúrulega ekki hægt að fá "Crap Silver". Annars er ég auðvitað gasalega ánægð með hann greyið, rúntaði á honum í sólinni í gær og fílaði mig í botn með BayRan sólgleraugun mín. Hleypti meira að segja fram fyrir mig strætó og uppskar loðinn framhandlegg bílstjórans sem þakkaði fyrir sig með þumli upp í loft.

|
Hvað geri ég við býflugnasveim sem fer villur vega og er ekki ánægður með það? Þannig er nefnilega mál með vexti að húsbændur mínir stunda býflugnarækt og nú er einn býflugnastofninn villtur og finnur ekki búið sitt. Ég er ein heima og treysti mér sko ekki til að fara í geimbúning og fylgja þeim heim. Verð að bíða eftir hjálp. Þori ekki að vera mikið á ferli á tilteknum stað í garðinum því þar hanga þær þúsundum saman klesstar utaná einhverja hríslu. Hunangsilmur er í loftinu því auðvitað eru þær alveg að springa og þurfa að losa sig við hunangið einhvers staðar.

Og talandi um skordýr, var að losa Molly greyið við fimm blóðsjúgandi áttfætlumaura sem kallast ticks á ensku, tæger á dönsku. Kvendýrin bíta sig föst og sjúga og sjúga þar til þær hafa tífaldað stærð sína. Ógeðslegar skepnur, sem ég auðvitað varð að sprengja til að sjá hvað leyndist inni í þeim...reyndust innihalda blóðlifrar miklar.

Hm, Gerður G Bjarklind mín (er að hlusta á tilkynningar á Rás 1), það er ekki SnæfellsBAR sem er að auglýsa töfra Snæfellsjökuls aulinn þinn!


|

fimmtudagur, maí 20, 2004

Scarborough Fair þeirra Simon&Garfunkelar er væmnasta lag í heimi og hefur orðið til þess að hugmynd mín af bænum Scarborough er af huggulegum sveitabæ, fullum af hippum reykjandi kryddjurtir. Þessi mynd breyttist í hryllingsmynd í gær þegar ég heyrði útvarpsviðtal við einn íbúa bæjarins. Það var miðaldra kerlingarkvöl sem var búin að draga úr sér fimm tennur vopnuð klípitöng og viskíglasi. Hún greip til þessara örþrifaráða vegna þess að enginn af tannlæknum bæjarins tekur við sjúklingum sjúkrasamlagsins. Fyrsta tönnin var dregin eftir marga daga í vítiskvölum og var sársaukinn slíkur að tanndráttur gat ekki gert illt verra. Hún slengdi í sig tveimur pintum ("I'm a pint drinker, luv" eins og hún sagði) og viskíglasi til að manna sig upp í aðgerðina og sló svo til. Mesta listin er víst að brjóta ekki rótina, því þá er sko alveg víst að þörf sé á fagmanni. Hún á nú eftir þrjár geiflur í neðri gómi og vona ég að henni auðnist nú að halda þeim. En annars þarf maður nú lítið á tönnum að halda ef maður lifir á bjór einum saman, svo hún ætti að redda sér blessunin.

|

miðvikudagur, maí 19, 2004

Jæja, komin í merastressið aftur eftir forlænget weekend heima á landinu fagra. Það er svolítið yfirþyrmandi að vera lent í annríkinu hér aftur. Búin að skanna grilljón hryssur og taka alls konar sýni auk þess að sæða eina. Og þetta var bara fyrir hádegi. En ég afrekaði það líka að svívirða eina þeirra-reif í sundur á henni meyjarhaftið greyinu. En þetta þurfa þær að láta sig hafa.

Flugið til Glasgow er stysta áætlunarflug sem Flugleiðir bjóða upp á frá Keflavík en samt tókst mér að taka átta klukkustundir í ferðalagið í gær. Og ég var alveg gjörsamlega búin og varla talandi þegar ég kom heim í Liberton House.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þróuninni á sjónvarpsdagskrá Flugleiða sem yfir manni dynur í flugi. Þegar þeir voru upp á sitt flottasta, áfengið og smjörið draup af hverju strái buðu þeir líka upp á dýra sjónvarpsþætti og þurftu ekki að hafa nein stór orð um flottheitin. Síðan það var hefur innifalin þjónusta rýrnað með hverju ferðalagi mínu. Mér finnst það bara fínt því maður þarf ekkert að vera að troða í sig kjöti og víni á þessum 2 tímum sem Glasgow flugið tekur. Verra þykir mér að sitja undir sjálfsmæringum Flugleiða sem fjalla um það hvað Saga Class liðið sé í töluðum orðum að setja niður í sig fínan forrétt og hvaða dekur þeirra bíði nú. Og milli þess sem Þórunn Lárusdóttir telur þetta upp á sinni yfirstéttarensku spila þeir óþolandi big band músík. Flugleiðir eru og verða mitt uppáhaldsfyrirtæki!

|

þriðjudagur, maí 11, 2004

Hamingjuóskir fær Boggi besti litli frændi minn, því hann á afmæli í dag, Jubii og hurra, hurra, hurra!

...og apropos dansk: Sá mér til mikils hryllings að Stephen King er búinn að gera ameríska útgáfu af "Riget" og nefnist hún "Kingdom Hospital". Þetta var bara kjánalegt og langaði mig ekkert að horfa á. Auðvitað var upprunalega útgáfan líka kjánaleg en það er bara svo neyðarlegt að horfa upp á nákvæma eftirlíkingu eins og þetta. Ég meina, mongólítarnir í uppvaskinu voru þarna og allt. Reyndar man ég ekki eftir mauraætunni sem birtist í skurðstofunni en kannski var Stephen að reyna að setja einhvern persónulegan svip á þetta.

Talsvert af mínum tíma fer í að ganga eftir göngum, þar sem bæði skrifstofan mín og rannsóknastofan eru í stórum, stórum byggingum. Það fer svolítið í taugarnar á mér að fólk sem er svona 30 sekúndum á undan mér að næstu dyrum skuli stoppa og halda fyrir mér hurðinni. Þetta lætur mér finnast eins og ég eigi að hlaupa við fót svo þessi "vingjarnlega" manneskja (sem er auðvitað bara manípúlatíf) standi nú ekki lengur en þörf krefur í dyrunum. Og þetta fólk býst auðvitað við því að ég geri slíkt hið sama þegar ég eygi það á stærð við ertubaun á enda gangsins. Ég nenni ekkert að standa og bíða eftir einhverjum fjarlægðarmanni mínútum saman. Það er svo sem allt í lagi þegar það er einhver sem ég þekki og langar að kasta á kveðju, en ef það er einhver sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan er sprottinn fæ ég ósköp takmarkaða ánægju út úr þessu hurðahaldi.

|

laugardagur, maí 08, 2004

Ég er að breytast í "kona í Vesturbænum"-týpu, var nefnilega að "gera beðin". Upp eru að koma hjá mér laukar, jarðarberjaplönturnar komnar með blómknúppa og hinar plönturnar ekki dauðar ennþá. Snillingur get ég verið. Annars er nú svo að kannski fæ ég ekki fleiri góð ráð frá garðyrkjumanninum, því við gætum misst hann í fangelsi fyrir eitthvað sem hann gerði fyrir 30 árum. Og hvað skyldi það nú vera?

Hvað skyldi það merkja að mig dreymdi að ég væri kærastan hans Ómars Ragnarssonar-með skalla og allt? Kannski vorkenni ég honum svo fyrir að hafa ekki fengið að spila með á knattspyrnumóti RÚV um daginn, eða kannski var það bara af því við pabbi vorum að rifja upp góða ÓR slagara eins og "Möggu og Jón" og "Rafvirkjabrag". Þegar mig dreymdi þetta var ég nú ansi ringluð fyrir vegna næturbrölts míns í kringum hryssurnar svo ég legg litla sem enga meiningu í þetta.

Fór á góða mynd í gær, klikkæðingurinn Kaufmann sýnir sig á ný með Eternal sunshine of the spotless mind. Óþarflega langur titill en mjög góð mynd, kolruglaðar pælingar og Jim Carrey sýndi bara eina geiflu, og það var meint á alvarlegan hátt. Fínt.

Við Bea fórum á stóran skran- og antíkmarkað eftir vaktina mína áðan og ég kom heim með einn góðan hlut sem ég var búin að leita lengi að. Þarf nú að snúa mér að skrifstofuþrifum, maður fær nú einu sinni borgað fyrir þetta.

|

fimmtudagur, maí 06, 2004

Sendi pabba og mömmu heim í morgun. Það er nú ekki langt í að við sjáumst aftur. Nú, ég var líka á fyrstu kvöldvaktinni minni í gær, þurfti að skanna og sprauta tvær hryssur. Á að fara úteftir á miðnætti að skanna þær aftur. Það sem er haft fyrir því að fylja þetta. Þess má geta að þessi dekurdýr eru með olíuborið fax og tagl sem er svo mjúkt og skínandi að ég er eins og tatari við hliðina á þeim. Nú, þetta fór allt vel, nema að Barbara, minn belgíski fyrrverandi nágranni var líka á vakt og hún var útúrstressuð því það var svo mikið að gera. Það hafði komið inn sólarhringsgamalt folald með anæmíu (sjúklegt blóðleysi?) og það þurfti að gefa því blóð reglulega alla nóttina. Ég fékk nemanda til að hjálpa mér en þegar Barbara sá það hellti hún sér yfir mig, að ég skyldi taka nemandann frá vesalings folaldinu sem þurfti svo mikla umhyggju (átti örugglega eftir að drepast hvort eð var). Ég bara brosti mínu blíðasta og sagði að auðvitað mætti hún fá lánaðan nemandann minn (sem stóð ringluð á svip og fílaði sig örugglega ekkert mjög vel). En ég náði ekki að blíðka Barböru, sem stormaði um spítalann allan tímann sem ég var þarna.

Talaði við Elaine áðan, hún baðst aftur afsökunar á að hafa teymt mig á asnaeyrunum á föstudaginn. Og svo var hún bara hin þýðasta. Ætli ég sé ekki bara búin að brjóta hana til hlýðni...

|

þriðjudagur, maí 04, 2004

Mér skjátlaðist á föstudaginn...allt var EKKI þá þrennt var. Það bættist í armæðu mína eftir síðustu færslu. Járnfrúin var að ergja mig-hún kemur gjarnan fram við fólk eins og það sé ekki þess virði að eyða á það orðum. En það er svo sem ekki í illgirni, hún er bara svo viðbjóðslega upptekin að hún hefur varla tíma til að vera til. Nújæja, ofaná þetta bættist svo að ég lenti í því að hlaupa fram og aftur um bæinn til þess að fá að borga bílaskattinn.

Mín helgi byrjaði sem sagt afskaplega illa, ég var alveg uppgefin á föstudagskvöld eftir að hafa verið frá mér af bræði út í Elaine og svo þennan bílaskattsþeyting.

En við gerðumst þó víðförul mjög um helgina og áttum viðburðaríka daga. Fórum í heimsókn til vinafólks í Killicrankie og svo í leikhús með öðrum vinum í Pitlochry. Gerðum okkur ekki ferð í Tillicultry í þessari ferð en vissulega hefði staðarheitið átt vel við. Við sáum Viktoríanskan farsa sem gerðist á skosku og ensku og var afskaplega kjánalegur. En upplifelsi samt.

Á sunnudaginn keyrði ég þrjá tíma hvora leið til Loch Creran þar sem við sigldum á skútu með auntie Jane and uncle Derek. Það var alveg frábært eins og venjulega. Og svo fór ég og heimsótti Seumas og Paulu sem ég bjó hjá þegar ég vann á laxeldisstöðinni um árið. Ekki búin að sjá þau í sjö ár og þau voru bara alveg eins. Og þau eru bara alveg frábært fólk sem ég ætla að fara aftur að heimsækja í sumar. Eftir að hafa innbyrt stóran disk af humri á "The Frog" kíktum við svo aðeins til Oban, bæjarins sem við Hafdís máluðum rauðan á eftirminnilegan hátt. Fish and chips búllan þar sem ég brennimerkti sjálfa mig er meðal annars enn við lýði. Sem er gott.

Sit nú og hlusta á Systu dýralækni á Rás 1 á netinu að segja frá hrossarannsóknum sínum. Sem er enn betra.

|