<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Skidekulde

Jiii minn, Edinborg er svoddan vetrarríki nú um stundir. Í fyrrinótt snjóaði þessi ósköp og svo gekk hann á með éljum og snjókomu í gær. Ég treysti mér ekki til að keyra út á skrifstofu og var því heima. Ástæðurnar voru fjölmargar, meðal annarra:

1. Bíllinn minn er á sumardekkjum og ég treysti honum ekki í ófærð
2. Bretar eru almennt aular í ófærð, treysti þeim ekki til að haga sér eins og menn
3. Betra kaffi heima
4. Hlýrra heima
5. Nennti ekki í skólann frekar en fyrri daginn

Í morgun hafði ég mig svo af stað og var spennandi að sjá hvort ég væri sannur Íslendingur eða aumur Tjalli því bílinn var umkringdur skafli sem var nógu stór til þess að stoppa hvaða Breta sem er. Íslendingar láta hins vegar ekkert stöðva sig. Auðvitað hafði ég þetta í fyrsta, maður!

Svo nú sit ég á skrifstofunni að drepast úr kulda, umvafin mörgum lögum af íslenskri ull og með kalda fingur. Það virðist vera stefnan hérna að halda doktorsnemum ávallt við hitastig sem er 5 gráðum lægra en annars staðar í byggingunni. Á þetta kannski að halda okkur aktívum...ég veit ekki bara. Virkar alla vega ekki á mig því ég er snillingur í "overspringshandlinger" sem eru svona smáverkefni sem maður sinnir af mestu rögg- og samviskusemi bara til að komast hjá því að gera nokkuð af viti.

PS. Skotar eru pínku líkir Íslendingum stundum, í morgun var verið að tala um á BBC Radio Scotland hvað the people down south getur velt sér upp úr brúðkaupi Kalla og Kamillu. Hér er enginn áhugi, ekki einu sinni fjölmiðlarnir nenna að fjalla um það. Það var meira að segja einn blaðamaður sem sagði að ef hann langaði ofsalega til að deyja úr leiðindum þá læsi hann í ensku dagblaði. Svona eins og Ástríkur og bændaglíman var ágæt leið til þess að stytta sér aldur í Dalalífi. Alla vega er ég ánægð með Skotana mína að gefa skít í þetta. Ég held þau megi gifta sig við borgaralegra athöfn í friði, ræfilskvalirnar.

|

mánudagur, febrúar 21, 2005

Menningin uppmáluð

Nýliðin helgi var í merki menningar. Á laugardaginn keyrðum við suður í Borders að leita að ull og grænum skógum. Fundum hvorugt. Guðmundi finnst að ég ætti að skrifa um þetta hneyksli í Scotsman. Það er alveg ótrúlegt að í landi ullarinnar og þessu gamla ullarvinnslusvæði finnist ekkert nema 30% ullarblöndur. Prjónakonan ég er alveg hundhneyksluð. Svo setja þeir upp "woolen mills" út um allt með því yfirskini að þar fari fram vefnaður og annar myndarskapur. En nei, þessar vöruskemmur eru bara ferðamannagildrur. Þarna stoppa rútufyllir af aumingjans enskum óvitum og annarra þjóða aulum sem láta pranga inn á sig ilmkertum og nikkelskartgripum í þeirri trú að þeir styrki með því handverksmenn staðarins.

Eftir því sem við fórum sunnar vonaði ég að blandan innihéldi sífellt meiri ull og fólk vissi meira um ullariðnað en alls staðar sem ég spurði kom fólk af fjöllum og fannst ég örugglega stórskrítin í heimaprjónuðum 100%ullarflíkum. Snerum heim með 70% ullarværðarvoð og Harris tweed bindi.

Á sunnudaginn gengum við eftir Water of Leith og enduðum í Museum of Modern Art þar sem er sýning á sjálfsmyndum eftir Andy Warhol. Hann var nú meiri kallinn. Sem tvítugur nemandi í listaskóla teiknaði hann til dæmis barnalega mynd af sjálfum sér að bora í nefið. Með réttu hefðu þeir eiginlega átt að henda honum út á staðnum. Svo voru þarna ljósmyndir af honum í dragi og með massíft ör á kviðnum eftir skotárás 1969 og svoleiðis.

Eftir sýninguna héldum við í Filmhouse og sáum heimildarmynd um "Rambling Jack Elliot" sem er kántríhetja, tengillinn milli Woodie Guthrie og Bob Dylan. Hann var líka meiri kallinn. Mér fannst móðursystir hans best, þegar hún var spurð um móður Elliots (systur sína) svaraði hún: "She was a nasty person, she was nasty.......nobody liked her......I'm just being frank here, you know". Þetta var fín mynd um mann sem hefur lifað í eigin heimi öll þessi ár, verið á stanslausu ferðalagi frá því fimmtíuogeitthvað. Þegar Bob Dylan varð frægur (eftir að hafa lært hjá Jack) sagði fólk: "You sound like Dylan, man!" og svarið var: "I've been sounding like Dylan for 20 years". Grey kallinn, sem var svo svikin af Dylan þegar hann þurfti ekki á honum að halda lengur. Rambling Jack er algjör kvennabósi, hefur verið giftur í þrígang og þær hafa margar gefist upp á að sitja endalaust og bíða eftir að hann komi heim úr tónleikaferðalagi. Hann virtist mjög bitur út í eina þeirra sem hafði tekið saman við annan mann eftir langa bið eitt sinn. Sá maður var kallaður dope selling hippie og öðrum fögrum nöfnum. Hann minnist oftar en einu sinni á þennan mann í gegnum myndina, meðal annars til þess að koma því að að hann hafi bara verið með eitt auga. Now, this is bitterness!

Nóg um Rambling Jack. Og nóg um þennan dag.

|

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Extreme Makeover hvað?

Snilld! Sonja er uppáhaldið mitt. Svo finnst mér Böddi Tattú flott nafn. Taktu þetta til athugunar, Böddi.

|

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Gamli hundur

Við brugðum okkur, litla parið á tónleika í gær með litlum fyrirvara. Elvis Costello and the Imposters voru með tónleika í Usher Hall og þó ég þekki ekki öll hans verk þá er það sem ég þekki bara fínt og mér finnst hann hafa sérstaka og flotta söngrödd. Auðvitað skellir maður sér þá á tónleika. En þvílíkt úthald á þessum gamla hundi! Hann spilaði stanslaust frá átta til hálfellefu og tók hvorki meira né minna en 33 lög, skipti örugglega 15 sinnum um gítar (notaði 6 mismunandi gítara) og sló ekkert af. Mitt fyrra tónleikamet voru 17 lög hjá Foo Fighters, og þótti það nú alveg rosa skammtur á sínum tíma. Ég vona samt að þessi of stóri skammtur reynist ekki gullsprauta áhuga míns á Costello, enda leist mér bara vel á slatta af þessum lögum. Seinasta lagið sem hann tók var alveg sérstaklega flott og frábærlega flutt. Hann hafði auk þess með sér brjálaðan hljómborðsleikara sem hamaðist heil ósköp á fimm mismunandi hljómborðum auk geimhljóðfæris sem ég held að hafi verið einhvers konar rafsviðshljómborð.

Það var enn fremur áhugavert að sjá að dyggasti aðdáendahópurinn virtist vera miðaldra konur með villt hár og í níundaáratugsmúnderingum. Þær óku sér vandræðalega til og frá í plusssætunum og sveifluðu handleggjunum eins og hægt var þangað til Elvis lokkaði þær upp að sviðinu með handabendingum. Þar stóðu þær svo og hristu sig seinni hluta tónleikanna, mænandi upp á þetta litla goð sitt. Þetta var skemmtileg sjón.

|

mánudagur, febrúar 14, 2005

Ólán í láni

Jæja, nú er heldur betur langt síðan síðast. Ég hef bara haft svo mikið að gera síðustu tvær vikur. Fyrri vikuna var ég á rannsóknastofunni og vann úr átta gelum (þið þurfið ekkert að skilja þetta) en þá seinni þeysti ég á skíðum á þessu fína skíðasvæði. Fór alveg endanna á milli og skíðaði alveg frá hægri til vinstri samkvæmt kortinu.

Ferðin byrjaði þó brösulega því ég er ekki frá því að ferðadagurinn 5. feb hafi verið mesti ólukkudagur sem ég hef lifað. Átti að fljúga á þægilegum tíma klukkan 11.15 frá Edinborg til Heathrow og þaðan til Malpenza flugvallar í Mílanó, hvar frænkur mínar myndu einnig lenda og við tækjum saman rútu upp í fjöllin.

Bea vinkona ætlaði að keyra mig út á flugvöll og ég hafði því sæmilegan tíma til að taka mig til um morguninn. Í rólegheitum mínum datt mér það snjallræði í hug að líma saman sólann á leðurstígvélunum mínum því þau voru hriplek og það gengur nú ekki á götum Cerviniaþorps. Tók upp glænýja tonnatakstúpu en þegar ég reyndi að opna hana sprautuðust þessi lifandis ósköp á fingurna á mér svo vísifingur og langatöng hægri handar límdust saman. Ég starði í forundran á útkomuna en hafði þó rænu á að rykkja fingrunum í sundur og hljóp svo undir vatn með þá. Leit fyrir vikið út fyrir að þjást all svakalega af mjög staðbundnum húðsjúkdómi, en fingurnir voru þó hvor í sínu lagi.

Nú, bílferðin út á flugvöll gekk ósköp vel en það reyndist sprungið á einu dekki flugvélarinnar og samkvæmt öryggisreglum þurfti að skipta um öll fjögur dekk, skrifa skýrslu og gera öryggisúttekt. Þetta vesen olli því að fluginu seinkaði um tvo tíma. Loksins þegar við komumst í loftið voru flugfreyjurnar á fullu að róa fólk sem átti tengiflug. Ég hafði nú rúman tíma því hópurinn sem ég átti stefnumót við átti að lenda rúmum tveimur tímum á eftir mér í Mílanó þannig að ég var alveg róleg. Maðurinn við hliðina á mér átti flug til Kazakhstan, en þangað er aðeins flogið tvisvar í viku, svo ég var líklega betur sett en hann.

Þegar komið var til Heathrow hljóp ég á fullu til þess að freista þess að ná vélinni en auðvitað hafði ég misst af henni. Var því sett á annað flug sem átti að fara eftir hálftíma en á Linate flugvöll í Mílanó. Ég hafði ekkert val og hugsaði að þá hefði ég þó klukkutíma til að koma mér milli flugvalla (um 50 mín með rútu). Var alveg að pissa í mig en ákvað að flýta mér út að hliði og halda frekar í mér. Þegar ég hef setið við hliðið í kortér og ekkert gerist spyr ég fýldan starfsmann hvort það sé nokkuð seinkun? "Já", án þess að líta upp. "Næ ég að fara á klósettið?" "Jahá", án þess að líta upp. "Excuuuuuse me! Geturðu nokkuð sagt mér hvar það er, þá?". Þarna var nú farið að fjúka í mig, hún átti ekkert með að vera svona dónaleg, druslan af henni. Nú, það kom á daginn að það var klukkutíma seinkun á þessu flugi líka, þannig að klukkutíminn sem ég ætlaði að hafa til ferðalaga milli flugvalla var úr sögunni.

Þegar ég lenti í Linate var ég orðin uppgefin og mjöööög svöng, því í báðum flugferðunum var bara boðið upp á möffins og kitkat og ég hafði auðvitað engan tíma til að borða á flugvöllunum. Svo sá ég fram á að þurfa að taka 100 evru leigubíl milli flugvalla og missa samt af hópnum mínum. Þannig var mitt mótstöðuafl alveg farið og ég stóð við tóma farangurskerruna mína og grenjaði. Svo skilaði farangurinn minn sér auðvitað ekki svo ég fór og grenjaði utan í ítölskum starfsmanni sem þóttist ekki skilja mig en þegar hann sá að hann myndi ekkert losna við mig auk þess sem ég var farin að seyta slími í stórum stíl yfir skrifborðið hans fór hann í gang. Það kom í ljós að farangurinn myndi lenda klukkutíma síðar en yrði ekki keyrður upp í fjöll fyrr en að tveimur dögum liðnum því British Airways starfsmenn vinna ekki um helgar. Ég gaf upp allar upplýsingar og hljóp svo út til að húkka leigubíl.

Fyrir utan norpaði lítill hópur skuggalegra manna og einn þeirra hóaði í mig. Ég spurði "taxi?" og hann sagði "si". Þá sagði ég "Malpenza, pronto, pronto" og hann hljóp með mig að bílnum sínum. Þarna var ég búin að gefa allt frá mér, vissi ekkert hvort þetta var alvöru taxi eða hvað en bíllinn var stór Benz svo ég hugsaði að ég væri alla vega slatta vel varin fyrir slysum. Hann sagði að ferðin kostaði 111 evrur, ég átti bara 100 svo ég sagði með spurnartón "cento?" og hann sagði bara "si". Veit ekkert hvort hann skildi mig. Við ókum svo á 160 alla leið á undir hálftíma og náðum hópnum. Þegar ég sá frænkur mínar fór ég aftur að gráta og leigubílstjórinn var alveg í rusli yfir því, fór út úr bílnum og ætlaði að hjálpa mér út. En ég komst út og beint í faðm fjölskyldunnar. Þegar við loks komumst upp í fjöll tveimur tímum síðar fengum við svo kvöldmat og þá var ég enn elt af óheppninni því ég fékk mandarínu sem var með steinum í hverjum einasta báti. Þá ákvað ég líka að enda þennan dag og fara í rúmið. Dagarnir sem fylgdu voru snilld, hver veit nema ég rifji þá upp líka. En hér er nóg komið í bili, vona að ég sé ekki búin að drepa af mér dygga lesendur, fyrst með bloggleti og nú með óhóflegum skrifum.


|