fimmtudagur, maí 20, 2004
Scarborough Fair þeirra Simon&Garfunkelar er væmnasta lag í heimi og hefur orðið til þess að hugmynd mín af bænum Scarborough er af huggulegum sveitabæ, fullum af hippum reykjandi kryddjurtir. Þessi mynd breyttist í hryllingsmynd í gær þegar ég heyrði útvarpsviðtal við einn íbúa bæjarins. Það var miðaldra kerlingarkvöl sem var búin að draga úr sér fimm tennur vopnuð klípitöng og viskíglasi. Hún greip til þessara örþrifaráða vegna þess að enginn af tannlæknum bæjarins tekur við sjúklingum sjúkrasamlagsins. Fyrsta tönnin var dregin eftir marga daga í vítiskvölum og var sársaukinn slíkur að tanndráttur gat ekki gert illt verra. Hún slengdi í sig tveimur pintum ("I'm a pint drinker, luv" eins og hún sagði) og viskíglasi til að manna sig upp í aðgerðina og sló svo til. Mesta listin er víst að brjóta ekki rótina, því þá er sko alveg víst að þörf sé á fagmanni. Hún á nú eftir þrjár geiflur í neðri gómi og vona ég að henni auðnist nú að halda þeim. En annars þarf maður nú lítið á tönnum að halda ef maður lifir á bjór einum saman, svo hún ætti að redda sér blessunin.
|
|