<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 31, 2004

Brá mér af bæ á laugardagskvöldið og át tapas með Sólveigu og Önnu Vigdísi sem hér er líka búsett. Ég skil ekki hvaða havarí er í kringum tapas-þetta er bragðlaust, naumt skammtað og rándýrt. En sangríað var gott og kvöldið fór vel fram. Hins vegar var bið mín eftir strætó niður í bæ ekkert síðri skemmtun. Sat í mestu makindum í kvöldsólinni þegar ungt par kom og byrjaði hávaðarifrildi við hliðina á mér. Ég var fyrst ekki viss hvort þau væru systkin, feðgin eða kærustupar. Litu bæði út fyrir að vera unglingar en hann talaði eins og hann væri annað hvort blindfullur eða svakalega skemmdur af vímuefnanotkun.

Hann tók upp jógúrtdollu og húðskammaði hana fyrir að hafa keypt eplajógúrt en tók svo upp lyklana sína og byrjaði að slafra í sig jógúrtina með þeim. Svo gaf hann sig að mér og spurði hvort ég fílaði DVD-myndir, hann væri nefnilega að selja slatta. Ég sagðist ekki eiga spilara, hélt að ég slyppi vel með þá afsökun. Hann sagði að það væri ekkert mál, hann væri að selja spilara líka. Tók svo upp poka og fór að lesa á kjölinn á DVD myndunum sem hann var með. Hann var illa læs og drafaði líka eins og áður sagði. Hann sat þarna á eintali við sjálfan sig og las upp kvikmyndatitla í fimm mínútur. Þangað til "Confessions of a teenage drama queen", að hann komst ekki lengra en "conf...conf...of..". Hann reyndi að draga spilarann upp úr kassanum en ég sagði honum að vera ekkert á því, stóð fast á mínu og sagðist bara ekki vanta þetta. Þá dró hann upp rispaðan, dauðan gemsa upp úr vasanum og bauð mér hann. Ég benti honum á að hann væri nú ansi illa farinn en sölumaðurinn knái kvað hann bara þurfa hleðslu. Svo byrjaði hann að segja mér frá því þegar hann sat inni, en rétt í því kom strætó mér til bjargar.

Þessi ólánspiltur var örugglega ekki mikið eldri en sextán.

|