<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 30, 2004

Sem betur fer er allt þá þrennt er. Stóð áðan á kafi í hryssu þegar gemsinn minn hringdi. Það var maðurinn frá bifreiðaskoðuninni sem sagði mér að bíllinn fengi ekki skoðun nema ef gerð yrði á honum 300 punda viðgerð. Áður en mér gafst ráðrúm til þess að íhuga og ræða málið dó síminn úr rafmagnsleysi (hlóð ég hann þó að fullu í gær). Svo þegar ég var að koma inn þakin rektalgeli og búfjárafurðum ýmiss konar ákvað ég að fara á klóið niðri á skurðstofuganginum en var búin að gleyma bölvun klósettsetunnar á því klói. Hún er brotin á einum stað og ef maður sest klípst rassinn á manni í sprungunni. Og það er ógeðslega sárt, sérstaklega þegar maður sér fram á að missa 300 pund í vaskinn og síminn manns er alvarlega farinn að hrópa á arftaka.

En, þetta var víst allt það neikvæða sem fyrir mig átti að koma í dag, svo ég lít björtum augum fram á veginn og hlakka til að ferðast um helgina með mömmu og pabba.

Góðar stundir

|
Íslenskur lakkrís er besta gotterí í heimi en búandi í útlöndum getur reynst erfitt fyrir mig að nálgast hann eins oft og ég helst vildi-sem er mjög gott. Ég dett þó stundum í þá gryfju að kaupa útlenskt lakkrískonfekt, sem er auðvitað allt annars eðlis, til þess að svala lakkrísþorstanum. Uppáhaldsmolarnir mínir í Bassetts lakkrískonfektinu eru litlu salmíakshnapparnir með bleiku/bláu sykurkúlunum. Og það eru yfirleitt ekki fleiri en þrír í hverjum poka. Man eftir Gamlárskvöldsboði hjá Palla frænda í Njörvasundinu þegar ég var lítil. Þar var Bassetts í skál á hverju borði í húsinu og ég fór milli borða og veiddi salmíakshnappana mjúku uppúr. Ég treinaði mér þá alltaf með því að sjúga bara, ekki tyggja. Það er nú langt um liðið síðan þá.

Nú, um daginn átti ég leið í þýska meinlætasúpermarkaðinn Lidl's og þar var hægt að fá Lidl's lakkrískonfekt. Ég lét til leiðast og keypti poka. Reyndist þessi útgáfa vera mesta gullnáma fyrir unnendur salmíakshnappa því um helmingur blöndunnar voru hnapparnir góðu. Ég þóttist himin hafa höndum tekið og hámaði í mig þetta hingað til sjaldséða gotterí. En ég uppgötvaði fljótt að sjarminn og sérstaðan var aðallega fólgin í því hvað þeir eru sjaldgæfir í Bassettsblöndunni. Ég var orðin hálfdofin í munninum af salmíaki (svona svipað og gerist ef maður þambar þrjá lítra af Ginger Ale) og einhvern veginn bara alveg búin að fá nóg. Ég vona að hnapparnir perluskreyttu fái uppreisn æru með tímanum en í augnablikinu get ég bara ekki hugsað mér þá, því miður.

|

mánudagur, apríl 26, 2004

Það er allt of langt um liðið síðan ég síðast reit hér línu. Búin að vera á haus í verkefnum en finnst ansi lítið eftir mig liggja. Skemmst er frá því að segja að ég fór til Newmarket og Cambridge í vikunni, en hef hugsað mér að segja frá þeirri ferð í lengra máli því hún var svo ljómandi viðburðarík.

Tók lestina báðar leiðir-afskaplega þægilegur ferðamáti þó ég þyrfti að vakna fyrir allar aldir til að taka strætó niður á lestarstöð. Keypti mér kaffi til að hafa með um borð í lestina, þreytt og úfin. Næsti viðskiptavinur bað um koffínlaust kaffi...til hvers í ósköpunum að forðast koffín klukkan hálfátta að morgni? Það er einmitt það sem þú þarft vina mín. Sumt fólk! Nú, ég náði auðvitað að svelgja í mig allt kaffið áður en lestin lét sjá sig á brautarpallinum. Ég hugsaði mér þá að þarna væri ég að græða, gæti bara keypt mér annan bolla til að hafa með. En fyrst var auðvitað að losna við bollann hinn fyrri. Og þá var ég einu sinni enn minnt óþyrmilega á nokkuð sem ég svo blessunarlega gleymi alltaf: Það eru engar ruslatunnur á lestarstöðvum! Og það er ekki séns að losna við ruslið á sómasamlegan hátt. Maður neyðist til að skilja það eftir einhvers staðar á laumulegan hátt. Ég hata það! En svona er það að lifa við ógnanir hryðjuverkamanna börnin góð.

Um borð í lestinni voru rólegheit, fólk dormaði, búið að rembast við að vakna ekki of vel. Það er að segja þar til í Newcastle. Þá kom inn hávær arabafjölskylda. Og friðurinn var úti. Það er ótrúlegt hvað arabar geta alltaf hljómað reiðir-meira að segja tveggja ára börnin sem voru með þeim hreyttu úr sér ónotum hægri vinstri. Kannski voru þau bara að segja “ég elska þig mamma” og “mig langar svo að strjúka þér mjúklega á hrjúfa vangann þinn, afi minn” en það hljómaði bara alls ekki þannig. Og vogið ykkur að segja að ég sé með fordóma! Við hliðina á mér settist svo feitlagin bissnesskona. Ég hafði haldið að ég gæti verið svolítið bissnessleg að taka upp fartölvuna og undirbúa fyrirlesturinn sem ég átti að halda í Newmarket en ég átti ekki séns í hana þessa. Hún var í dragt og með blásið platínuljóst hár og hringdi örugglega þrjátíu símtöl sem snerust um húsnæðislán, íbúðir í þremur borgum, fundi með kaupendum og hennar ferðir milli Blackpool og London þá vikuna. Ég játaði mig sigraða, tuskuleg í pokabuxum, úfið hár, illa sofin og batteríislausa fartölvu. Gat ekki skrifað eina setningu í Word áður en hún gafst upp. Ég get þó huggað mig við að eiga líklega eftir að lifa lengur en hún, með hennar rosalegu vömb og eflaust blæðandi magasár sem hún fóðraði með Diet kóki og kartöfluflögum.

Þegar ég kom til Cambridge tók á móti mér dýralæknirinn Twink Allen, sem er svo íhaldssamur að jaðrar við fasisma. Hann lítur á tölvur sem verk hins illa og orðið computer hljómar í hans eyrum eins og versta neðanmittisblótsyrði. Þess vegna neyddist ég til að fara með fyrirlesturinn án stuðnings PowerPoint og varð hann heldur ruglingslegur fyrir vikið. Nú, þegar þessi kvöl og pína var yfirstaðin bauð Twink mér og tveimur ljóshærðum dýralæknanemum á tónleika í Robinson College Chapel í Cambridge, en það er college sem hann styður og er þar heiðursprófessor. Hann gaf öllum gin og kampavín í hléinu en við þrjár vorum ekkert búnar að borða og fannst nú heldur harður kostur. Tróðum í okkur eins mörgum snitsum og við gátum. Twink drakk 50-50 gin og tónik af miklum móð og ætlaði svo að keyra heim um kvöldið. Ég var sem betur fer í herbergi þarna á staðnum. Það kom upp að okkur gamall kall með lepp fyrir öðru auganu og spurði Twink af hverju hann hefði aldrei verið kynntur fyrir þessum þremur eintökum. Ég efast ekki um að hann sé alltaf að kynna vini sína fyrir nýjum ungum dýralæknum. Hann er þekktur sem mikill kvennamaður, enda átti hann erfitt með að hafa augun af brjóstkassanum á mér fyrsta hálftímann. Gamli sóðakall. Hann er sko um sjötugt.

Svo fór ég heim í lestinni daginn eftir. Sú lest var einmitt full af ungum heittrúuðum gyðingadrengjum. Þeir voru klæddir í svartar buxur og frakka en prýddir ýmsum fögrum munum. Fyrsta ber að telja hvíta silkiskúfa sem dingluðu niður af mjöðmum þeirra. Einnig barðastóra hatta sem voru tveimur númerum of þröngir svo þeir rétt tolldu á hvirflinum-þeir hafa kannski gleymt að mæla hvirvilkolluna svörtu með þegar hattmálið var tekið. Þeir voru allir með hattöskjur flúraðar hebresku letri. Og síðast en ekki síst báru þeir allir risastór og þung sterk nærsýnisgleraugu. Ætli þeir séu allir nærsýnir eða er það skylda að eyðileggja í sér augun til að geta borið gjörvallan búninginn? Þetta voru svona gleraugu eins og ömmur ganga með-stórar gegnsæjar plastspangir. Ætli þetta séu átrúnaðargoð gyðingastúlkna um allan heim? Ætli þetta þyki kynþokkafullt? Það er svo misjafn smekkur manna, herra minn trúr.

|

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Dæsös hvað dagurinn í gær var leiðinlegur. Vaknaði fyrir allar aldir....leiðrétting: vaknaði í raun aldrei alveg allan daginn...til þess að fara með bílinn á verkstæði í grenjandi rigningu. Þegar ég loks kom heim eftir tvo strætóa í morgunösinni lá beint við að setjast við samningu fyrirlestursins sem ég á að halda í Newmarket á morgun. Gat þó ekki einbeitt mér frekar en undnagengna tvo frídaga og reyndi eins og ég gat að lesa mér til um fyrirlestrarefnið. Fer ótrúlega í taugarnar á mér að eiga að halda fyrirlestur um eitthvað sem ég skil ekki til fullnustu sjálf. En þessi bévítans MMP prótín eru bara svo flókin og asnaleg. Nú, svo hringdi karlremban að beiðni hvers sem fyrirlesturinn er haldinn, og tók mig á taugum-lét mig koma út eins og einhvern lúða sem hafði ekkert áhuga á því að vinna með honum...jájá, einhverjir myndu kalla þetta ýkjur, en ekki ég!

Svo kom í ljós að bíllinn var ekki tilbúinn fyrr en daginn eftir og ég sá því fram á langa strætóferð og göngutúr í rigningunni í morgun. Það skal því engan undra að ég hafi sofið lítið og illa í nótt. Bætti ekki mörgum gullkornum í fyrirlesturinn í dag en ég held að ég massi þetta nú.

Í gær sá ég fyrsta viðtalið sem tekið er við Rebeccu Loos í beinni útsendingu. Hún er einmitt kvensan sem átti 10 daga ástarævintýri með mömmustráknum Beckham. Og enn sannaðist það að þessi skrækróma knattspyrnufegri á sér ból í hjörtum breskra húsmæðra, því í slúðurblaðskönnun kom í ljós að þegar fólk var spurt hverjum framhjáhaldið væri að kenna kenndu 51% fröken Loos um það en 49% Victoriu Beckham. Fyrirgefið mér, en er strákpjakkurinn saklaus? Það lítur víst allt út fyrir að hann hafi átt sér alla vega tvö ástarævintýri í viðbót-er Victoria stabíl í 49 prósentunum eða átti hún meiri sök í hinum? Ég meina, kommon, þó að þetta sé fyrirliðinn í landsliðinu þá er hann bloody sóði og svikari og dónadúskur. Fólk getur verið svo einfalt....en svo er það nú líka vitað að það er ekki til kona í heiminum sem hefur samúð með Victoriu í nokkrum hlut...þvengmjó, sílíkonbrjóst, Gucci frá toppi til táar...hún hefur svo sem beðið um þetta blessunin. Beckham á víst að hafa sagt við Rebeccu að hann væri meira fyrir íturvaxnar konur með lendar og lær. "I bet you´re surprised" sagði hann svo þegar hún setti upp undrunarsvip.

|

föstudagur, apríl 16, 2004

Á sigurhátíð lífsins yfir dauðanum gerðist ég svo frökk að drepa mölflugu. Var í heimsókn hjá Sólveigu og mín ósjálfráðu viðbrögð voru að skella saman lófum utan um hana. Sólveig æpti upp yfir sig: "Æ, þetta var vinkona mín" og ég svaraði blákalt: "Þetta var mölfluga, bölvuð pest. Hún étur utanaf þér kasmírið og silkið." Henni brá heldur við þessa fregn og sætti sig við þetta voðaverk. Hún ætlaði meira að segja að athuga hvort það væru nokkuð fleiri meindýr á ferli.

Nújæja, ég heyrði aðeins í henni í dag, fimm dögum síðar. Undir sófanum í herberginu hennar reyndist vera mölflugunýlenda, iðandi kös af náttúrutrefja-í-sig-hámandi lirfum og slatti af flugum líka. Risastórt gat var í gólfteppinu, þessar lirfur eru víst engir seinborðar. Þau meðleigjendurnir eru búin að úða breskum Bana 1 (...KillOne?) í gríð og erg síðustu daga og eru nú orðin svo uppfull af fituleysanlegu eitri að þau geta ekki einu sinni horft á maur án þess að valda honum skaða. Ég hugsa nú bara til þess hvernig þetta hefði farið allt saman ef ég hefði ekki bent henni á að vinkona hennar (sem hefur væntanlega verið holdgervingur u.þ.b 500 einstaklinga, alltaf ný og ný á sveimi) væri í raun meindýr.

En mikið finnst mér þetta fyndið....sannkallað Schadenfreude!

Annað í fréttum: Bretar eru snillingar í að leika sér, ýmiss konar spurningaþættir eru mjög vinsælir í öllum miðlum. Í kvöld hefst ný þáttaröð í sjónvarpinu sem heitir Distraction og er þáttur sem Magnús hefði getað fattað uppá. Keppendur eiga að svara auðveldum spurningum eins og "nefndu þrjár tegundir af pasta", en eiga um leið að reyna að leiða hjá sér ýmis fantabrögð sem á þá eru lögð. Fantabrögð þessi eru til dæmis raflost, þvottaklemmur í öllum fellingum, spörk og kýlingar. Magnús átti það nefnilega til að finna upp á sadistískum leikjum og spilum þar sem við Böddi og reyndar öll hans yngri frændsystkin guldum fyrir það að vera yngri og fattminni en hann. Það var alltaf laumað inn svindlreglum í spilin, hnýttar saman á manni sokkabuxurnar og svo framvegis. Og alltaf lögðum við okkur fram við að svara rétt.

Talandi um sokkabuxur: Warum nannt Mann Leggings auch Taubstummenhosen? Weil Mann Sie sich die Leben bewegen sehen kann, aber hört nichts!

|

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Það er svo dýrmætt að kynnast siðum framandi landa, menningu þeirra og trúarbrögðum. Nú hef ég loksins upplifað biskupakirkjupáska, eða "Easter" eins og það heitir hjá þeim blessuðum. Komist hef ég að því að hinn mesti helgidagur hér er annar í páskum-Easter Monday-því þá taka Bretar sér frí frá öllu og slappa af. Áðurgengnir helgidagar sem við lútherstrúarmenn höldum hvað mest upp á, þ.e skírdagur, föstudagurinn langi og sigurhátíðin páskadagur eru minna hátíðlegir hér. Á skírdegi vinna menn baki brotnu, á föstudaginn langa spila þeir fótbolta og á páskadag umturnast fólk í allsherjar innkaupavélar, "shop 'til they drop". Þetta hefur komið mér spánskt fyrir sjónir...þó ég sé viss um að á Spáni haldi fólk páskana hátíðlega á sama hátt og Íslendingar.

|

föstudagur, apríl 09, 2004

Og alltaf jafn mikið um að vera á Fróni

Af mbl.is:

Kveikt í innkaupakerru í Skeifunni
"...Þegar slökkvilið kom á svæðið hafði lögreglu tekist að ráða niðurlögum eldsins, en töluverður reykur hlaust af íkveikjunni, enda hafði logað glatt í hjólum innkaupakerrunnar."

Hasarfrétt maður!

|
Lokaði Molly frammi á gangi í nótt, ætlaði ekki að láta hana vekja mig aftur. Hún náði nú samt að vekja mig, gekk til atlögu við hurðina, kastaði sér alla vega þrisvar af alefli á hurðina eins og víkingasveitarmaður. Hún gafst þó upp á endanum.

Við stöllur vöknuðum allt of seint (og þó, hálftíu að íslenskum tíma...ekki svo slæmt) en drifum okkur þá út í garð að vinna beðin. Garðyrkjumaðurinn Sean sýndi mér hvernig á að gera þetta allt saman og svo stóðum við yrktum hvort sitt beðið við örvæntingaróp gamla mannsinns í næsta húsi. Ég hamaðist í fimm tíma og fór svo inn og gerði jógaæfingar fyrir auma vöðva....ég hljóma eins og nýaldarmaniac, í næsta pistli verð farin að borða natusan birkiösku í hvert mál. Það er þó bót í máli að ég gerði jógað við ljúfa tóna Haukar Morthensar en ekki Buddha Rythms diskinn minn.

Og nú er enn komið að því að setjast yfir skattskýrsluna. Heyrumst síðar.

|

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Ætlaði að massa leiðbeinenda(leiðtoga-)fundinn í dag, búin að prenta út dagskrá fundar og allt. Svo eru bara leiðbeinendurnir mínir með kjaftavaðal, talandi um skíðaferðir og alls konar hluti sem komu ekki verkefninu mínu við. Æi, ég var ekkert að láta það fara í taugarnar á mér. Fékk sagt það sem ég vildi og það var nóg. Hins vegar lítur út fyrir að vandræðum mínum með að safna sýnum sé ekki lokið. Þarf að reyna að finna ungar veðhlaupahryssur sem ég má pota í. Og það er ekki auðvelt.

Hlakka til að fara í garðinn í fríinu. Ég er ekki í fríi annan í páskum og verð því að nýta helgina vel.

Ég bið núna bænirnar mínar fyrir bændunum mínum uppi í Tungum, að riðan greinist ekki víðar. Ólíklegt! Og talandi um bændur...er í lögum Sláturfélags Suðurlands að stjórnarformaðurinn hafi upphafsstafina SS? Nema að það sé búið að endurráða Steinþór Skúlason...minnir nefnilega að nýi stjórnarformaðurinn heiti eitthvað annað "SS".

Skúraði bæði hér uppi og á skrifstofunni í kvöld. Arkitektarnir sátu og skemmtu sér hið besta í Quake, hver í sinni tölvunni. Eigendurnir mega ekki bregða sér í viku frí og þá er allt komið í vitleysu!

Það er svo fyndið að fylgjast með Molly þegar hún liggur og hrýtur á gólfinu...hún hleypur og geltir í svefni...kjánaprik. Hún var nú svo óheppin að flækjast fyrir mér í tröppunum í gær svo ég kýldi hana á kjammann. VIð sko mættumst, ég á uppleið og hún á leið niður, báðar á fullu-ég að fara að svara símanum og hún hélt að hún ætti að fara í göngutúr. Þannig að það er fjör hjá okkur stallsystrum.

|

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Psycho strikes again

Af mbl.is:

Árásarmaður aftur í haldi vegna líkamsárásar

"Rúmlega tvítugur karlmaður, sem var handtekinn vegna grófrar líkamsárásar á sextán ára dreng á laugardag, var aftur handtekinn í gær í tengslum við líkamsárás í húsi við Hverfisgötu í Reykjavík. "

Getur enginn stöðvað þennan mann? Þetta er geðveiki!


|

mánudagur, apríl 05, 2004

Fáviti

Mér finnst að þessi ofbeldisbróðir við Eiðistorg eigi skilið að Íslendingar taki upp Sharia-lög, bara til að hægt sé að refsa honum þannig að hann skilji það. Bévítans fáviti. Og hvað var fórnarlambið annars að gera heima hjá þessum kjánabjána?

En talandi um vandræðadrengi...sá Good Will Hunting í gærkvöld og hún versnar bara ekkert með árunum. Mjög hugljúfir áheyrnartímar sálfræðings. Ég grét meira að segja og allt, en það þarf víst ekki mikið til að starta mér.

Ég hafði svo félagsskap af Molly í nótt, hún lá hér frammi í körfunni sinni og ýlfraði í svefni. Mikið huggulegt.

Er að ná mér núna eftir svolítið ristilkrampakast-er ég eitthvað stressuð eða hvað? Alla vega gat ég ekki annað fyrir flökurleika og magapínu en legið í sófanum með púða í fanginu. Það bætti aðeins ástandið að ég gat horft á seinni hluta orðaleiksins Countdown í sjónvarpinu. En nú er ég komin á lappir og með vísindagreinar í hönd. Heyrumst síðar.

|

sunnudagur, apríl 04, 2004

We´re not alone!

Lenti í rosalegu atviki í gær. Var að borða kornfleks í gærmorgun þegar eitt fleksið rataði ekki upp í munn og datt. Ég fann það hvergi og þóttist viss um að það lægi einhvers staðar á gólfinu og ég ætti eftir að troða á því og fá mylsnu milli tánna-frekar óhugguleg tilhugsun. Nú, ég hélt áfram mínum morgunverkum, fór svo í tölvuna og gleymdi öllu saman. Svo fór ég aðeins út að róta í safnhaugnum og ná mér í mold. Þegar ég kem inn aftur og sest við tölvuna verður mér litið í kjöltu mína, og hvað sé ég? Kornfleksið loðir við buxurnar mínar og er búið að vera þarna allan tímann! Eða...var því kannski komið þarna fyrir af geimverum? Ég búin að vera úti í garði og allt.

Nú, í gær fór ég líka í seinasta jógatímann þessa önnina. Við Sólveig vorum bara tvær mættar svo við fengum einkatíma, þetta reyndist bara hörkupúl en kennarinn var mjög hrifin af liðugleika okkar. Hún vildi endilega vita hvað þetta væri með Íslendinga, hvort við sætum alltaf í skrýtnum stellingum og ætum fiskinn okkar. Vildi ekki segja henni að fyrir það mesta húktum við og úðruðum í okkur hamborgurum og pítsum, það hefði eyðilagt fyrir henni draumsýnina.

Og svo um kvöldið tók ég Sólveigu með mér í samskotapartí þar sem allir komu með mat og drykk og svo var allt sett í púkk. Það var haldið hjá Elisu, kanadísk-kínverskri stelpu sem ég þekki eiginlega ekki neitt, við fórum með henni á Burns Night og síðan hef ég ekki talað við hana. Ég bakaði geggjaðslegar brownies til að fara með-sletti súkkulaðideigi upp um alla veggi því ég var að flýta mér svo mikið. En maður sem sagt át og át af því það voru svo margar sortir. Og í stofunni var alvöru barborð með ljósavél og reykmaskínu svo þegar maturinn var búinn var pleisinu breytt í diskótek. Og það var sko fjólublátt ljós við barinn-fyrirtaks veitingar og allt það. Meðleigjendur Elisu eru tveir strákar sem ætla að eyða einum sólarhring (5. maí) í Reykjavík á leiðinni frá Bandaríkjunum. Þeir vildu endilega hitta eitthvað íslenskt lið sem væri til í að sýna þeim fjörið-verst að þetta er á miðvikudegi. Svo nú spyr ég: Er einhver til í að leiða tvo Skota um borg óttans?

|

laugardagur, apríl 03, 2004

Suburbia

Ég er orðinn svo mikill úthverfanörd-fer ekkert lengur í bæinn, geri bara mín erindi í búðarklösum byggðum á gömlum öskuhaugum, svokölluðum Industrial Estates. Heillandi, ég veit. En, alla vega áttaði ég mig á þessu í gær, fór á háskólabókasafnið og svo á kaffihús og í strætó á leiðinni niðureftir sá ég tvær nýjar búðir sem hafa opnað síðan ég var þarna síðast og svo var bara svo mikið líf eitthvað. Ekki skemmir fyrir að það er komin útlandalykt í loftið, hér er sko farið að vora.

Annars sit ég hér og geri skattskýrsluna mína...ég veit, ég ætti í raun að vera búin að skila, en ég talaði við einhvern durt á Skattstofunni og hann sagði að ég gæti fengið eins langan frest og ég bara vildi, hummaði og ha-aði og snýtti sér í rauðan tóbaksklút. Reyndar hef ég bara hans orð fyrir þessu, og voru þau orð látin falla í millilandasímtali...kannski var ég ekkert einu sinni að tala við rétta stofnun...við sjáum til.

Annars er þetta með flóknustu skýrslum sem um mig hafa verið gerðar, held ég. Ekki nóg með að ég standi í þessum ör-rekstri mínum 9 vikur á ári, heldur hef ég á árinu verið skráð með lögheimili í tveimur löndum og vaxtatekjur í þremur...úfff....hlakka til að gerast bara ríkisstarfsmaður þar sem þetta er bara átómatískt sett inn fyrir mann. Og svo ætla ég bara alltaf að búa á Hellubraut og taka strætó hvert sem ég fer því þá þarf ég ekki að gera grein fyrir neinum eignum, múhúhahahaaaa.

|

föstudagur, apríl 02, 2004

Mikið roooosalega var ég einmana í gær. Var nefnilega heima við lestur, skriftir og kaffidrykkju og talaði ekki orð við neinn nema sjálfa mig-að maríuhænunni í glugganum undanskilinni. Og ekki á ástandið eftir að skána alveg í bráð því ég verð alein með hundstíkina í næstu viku-húsráðendur og börn ætla í sumarhúsið sitt á Írlandi yfir páskana. Og ef ég enda ekki hlaupandi á eftir Molly með öxi reidda yfir höfuð mér, talandi við draugana á barnum (hér ku jú búa þrír nafngreindir draugar), þá tel ég það vel sloppið.
Frásögnum þessum af einmanaleika er beint að einum manni öðrum fremur, hann veit upp á sig sökina og tekur það til sín.

Hins vegar mun nú verða kátt í höllinni 27. apríl, þá koma pabbi og mamma í heimsókn og verða í 9 daga. Jibbí! Reyndar hafði Bea á sér fyrirvara áður en hún samgladdist mér og spurði "And that's a good thing, right?" af því að það er algengt hér í Bretlandi að vilja vera sem fjærst foreldrum sínum og hitta þá sem sjaldnast.

Í gærkvöldi var ég komin með svo mikið nóg af að vera með sjálfri mér að ég leitaði á náðir sjónvarpsins. Það voru náttúrulega eintómir veruleikaþættir, ekkert nýtt. Á BBC1 var þó einn þáttur sem ég naut mjög að horfa á. Hann var um hundadeild lögreglunnar hér í Edinborg. Þeir eru með 44 hunda, stærsta deild sinnar tegundar í Bretlandi, ef ekki ESB. Og þetta er bara rosalega töff djobb. Mig myndi langa til að vera svona hundalögga. Í fyrsta lagi því ég elska Séfera, og öðru lagi því það hlýtur að vera frábært að hafa svona algjöra stjórn á hundinum-hann hlýðir öllu sem þú segir og svo finnst honum svooo gaman að vinna! Þeir voru þefandi uppi eiturlyf, eltandi árásarmenn og þjófa og ýlfruðu alveg af spenningi! Gaman gaman.

Jæja nú er Javier farinn að bíða, við erum að fara að leika okkur að blása upp hryssuleg....ekki spyrja!

|