<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 30, 2004

Íslenskur lakkrís er besta gotterí í heimi en búandi í útlöndum getur reynst erfitt fyrir mig að nálgast hann eins oft og ég helst vildi-sem er mjög gott. Ég dett þó stundum í þá gryfju að kaupa útlenskt lakkrískonfekt, sem er auðvitað allt annars eðlis, til þess að svala lakkrísþorstanum. Uppáhaldsmolarnir mínir í Bassetts lakkrískonfektinu eru litlu salmíakshnapparnir með bleiku/bláu sykurkúlunum. Og það eru yfirleitt ekki fleiri en þrír í hverjum poka. Man eftir Gamlárskvöldsboði hjá Palla frænda í Njörvasundinu þegar ég var lítil. Þar var Bassetts í skál á hverju borði í húsinu og ég fór milli borða og veiddi salmíakshnappana mjúku uppúr. Ég treinaði mér þá alltaf með því að sjúga bara, ekki tyggja. Það er nú langt um liðið síðan þá.

Nú, um daginn átti ég leið í þýska meinlætasúpermarkaðinn Lidl's og þar var hægt að fá Lidl's lakkrískonfekt. Ég lét til leiðast og keypti poka. Reyndist þessi útgáfa vera mesta gullnáma fyrir unnendur salmíakshnappa því um helmingur blöndunnar voru hnapparnir góðu. Ég þóttist himin hafa höndum tekið og hámaði í mig þetta hingað til sjaldséða gotterí. En ég uppgötvaði fljótt að sjarminn og sérstaðan var aðallega fólgin í því hvað þeir eru sjaldgæfir í Bassettsblöndunni. Ég var orðin hálfdofin í munninum af salmíaki (svona svipað og gerist ef maður þambar þrjá lítra af Ginger Ale) og einhvern veginn bara alveg búin að fá nóg. Ég vona að hnapparnir perluskreyttu fái uppreisn æru með tímanum en í augnablikinu get ég bara ekki hugsað mér þá, því miður.

|