<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 16, 2004

Á sigurhátíð lífsins yfir dauðanum gerðist ég svo frökk að drepa mölflugu. Var í heimsókn hjá Sólveigu og mín ósjálfráðu viðbrögð voru að skella saman lófum utan um hana. Sólveig æpti upp yfir sig: "Æ, þetta var vinkona mín" og ég svaraði blákalt: "Þetta var mölfluga, bölvuð pest. Hún étur utanaf þér kasmírið og silkið." Henni brá heldur við þessa fregn og sætti sig við þetta voðaverk. Hún ætlaði meira að segja að athuga hvort það væru nokkuð fleiri meindýr á ferli.

Nújæja, ég heyrði aðeins í henni í dag, fimm dögum síðar. Undir sófanum í herberginu hennar reyndist vera mölflugunýlenda, iðandi kös af náttúrutrefja-í-sig-hámandi lirfum og slatti af flugum líka. Risastórt gat var í gólfteppinu, þessar lirfur eru víst engir seinborðar. Þau meðleigjendurnir eru búin að úða breskum Bana 1 (...KillOne?) í gríð og erg síðustu daga og eru nú orðin svo uppfull af fituleysanlegu eitri að þau geta ekki einu sinni horft á maur án þess að valda honum skaða. Ég hugsa nú bara til þess hvernig þetta hefði farið allt saman ef ég hefði ekki bent henni á að vinkona hennar (sem hefur væntanlega verið holdgervingur u.þ.b 500 einstaklinga, alltaf ný og ný á sveimi) væri í raun meindýr.

En mikið finnst mér þetta fyndið....sannkallað Schadenfreude!

Annað í fréttum: Bretar eru snillingar í að leika sér, ýmiss konar spurningaþættir eru mjög vinsælir í öllum miðlum. Í kvöld hefst ný þáttaröð í sjónvarpinu sem heitir Distraction og er þáttur sem Magnús hefði getað fattað uppá. Keppendur eiga að svara auðveldum spurningum eins og "nefndu þrjár tegundir af pasta", en eiga um leið að reyna að leiða hjá sér ýmis fantabrögð sem á þá eru lögð. Fantabrögð þessi eru til dæmis raflost, þvottaklemmur í öllum fellingum, spörk og kýlingar. Magnús átti það nefnilega til að finna upp á sadistískum leikjum og spilum þar sem við Böddi og reyndar öll hans yngri frændsystkin guldum fyrir það að vera yngri og fattminni en hann. Það var alltaf laumað inn svindlreglum í spilin, hnýttar saman á manni sokkabuxurnar og svo framvegis. Og alltaf lögðum við okkur fram við að svara rétt.

Talandi um sokkabuxur: Warum nannt Mann Leggings auch Taubstummenhosen? Weil Mann Sie sich die Leben bewegen sehen kann, aber hört nichts!

|