<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Úff, mikið hlakka ég til helgarinnar. Og sumarsins. Og til hádegis, því þá ætla ég að taka mér það bessaleyfi að læðast snemma heim. Því minn kæri Guðmundur er nú í lestinni til Edinborgar frá Glasgow. Jibbíjeiji.

Það er ansi mikið að gera hjá mér þessa dagana. Komst að því að fresturinn til að sækja um styrkinn sem ég er búin að plana síðan í sumar rennur út um miðjan feb. Eins gott að fara að drífa sig. Hef því setið og fyllt út umsóknareyðublöð eins og ég fái borgað fyrir það (sem ég og fæ ef ég fæ þennan styrk). Hins vegar hefur reynst þrautin þyngri að þýða rannsóknarlýsinguna yfir á íslensku, því íðorð ýmiss konar hafa þvælst fyrir mér. Ég meina, hver veit hvað næriþekjufruma er? Give me a trophoblast any time! Eða þá dreifkjörnungur yfir eitthvað svo einfalt sem neutrophil...þetta er blátt áfram skammarlegt. Svo annað hvort verð ég að skila þessu inn á ensku eða skila einhverju sem ég skil ekki helminginn af sjálf. Og það væri verra. Það er ofsalega gaman að kryfja með Sigga Sig á Keldum og fræðast um netjumör, dausgörn og miðmæti en í alþjóðasamfélagi vísindamanna neyðist maður víst til að tala latínu. Og hananú.

Þarf víst að skjótast niður á lab og skera eins og tíu vefjasneiðar til að hægt sé að lita þetta fyrir mig. Svo fer ég bara heim að leika mér með öll þessi eyðublöð.

|