<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Ég fer alltaf með strætó út á skrifstofu á morgnana og á stoppistöðinni eru alltaf tveir unglingsstrákar með mér sem taka sama strætó. Þeir eru ca. 13 ára og óharðnaðir að sjá, algjör babyfaces. Hins vegar eru þeir í kallamokkasínum og terilínbuxum, angandi af Old Spice. Veit ekki hvort þessi forni sveitailmur er hluti af skólabúningnum, en nóg pusa þeir á sig af þessu greyin. Það eina sem þeir geta gert til að virðast töff (sem skólabúningurinn leyfir) er að greiða hárið upp í loft og vera með bakpokana hangandi niður í hnésbætur.

Þegar um borð í strætó er komið fara þeir auðvitað upp á efri hæð eins og ungdóminum sæmir. Ég gerði það einu sinni í svona morgunferð og geri það aldrei aftur! Þeir eru nefnilega ekki einu unglingsfarþegar morgunsins, heldur bætast sífellt fleiri skólafélagar þeirra á farþegalistann með hverri stoppistöðinni. Og þetta eru dónalegir, háværir og sóðalegir krakkar (senst "normal" unglingar) sem stunda skólatóskuvarp, öskur og áflog. Ekki það sem ég óska mér á dimmum vetrarmorgnum. Ég virðist vera orðin það gömul að ég er búin að gleyma æsispennandi ferðum í skólabílnum hans Krúsa sem keyrði okkur einu sinni í viku út í Sundhöll Hafnarfjarðar. Þá var stuð. En ég hefði ekki viljað húkka far með honum í dag.

|