<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Hjálpi mér hamingjan!

Búin að sitja á skrifstofunni síðan hálfníu í morgun og ætla mér að skrifa smá erindisstúf sem ég á að flytja fyrir námsmatsnefndina á morgun, en ekkert gerist. Er orðin mjög leið á samvistinni við sjálfa mig og er búin að hringja í mína nánustu og kvarta og kveina. Samt gerist ekkert enn. Á víst að vita hvað ég ætla að vera búin að afreka í lok septembermánaðar. Áttaði mig hins vegar á (í algjörri neikvæðni) að ég veit ekkert hvað ég er að gera hérna og veit ekkert hvort ég vil vera hérna. Jahérna hér hvað maður getur misst sig í neikvæðnina. Ég bara nenni ekki að standa þarna á morgun og stama einhverju út úr mér sem betur væri látið ósagt.

En nóg af þessu hjali. Ætti að taka upp betri hætti, kveikja á Enyu og reykelsum og gera smá jóga til að létta lundina. Fór í minn fyrsta jógatíma á laugardaginn með Sólveigu og finn enn fyrir eftirköstunum. Var ennþá draghölt á mánudaginn, svo þetta er ekkert grín. Enda skellti ég mér auðvitað beint í framhaldstíma, algjör byrjandi. Mér var allri lokið þegar yfirjóginn stakk upp á að við æfðum höfuðstöður en létti stórum þegar hinir jógarnir litu skelkaðir hver á annan-það er sem sagt vonandi langt í að við verðum sett á hvolf.

Fór í bíó í gær með Fraulein Wissmann og GHordur. Sáum jökulslysamyndina "Touching the Void" sem var prýðileg, geðveikislegt hvað sumt fólk heldur endalaust áfram og gefst ekki upp (annað en ég, auminginn). Mæli með henni fyrir BO Tours jökulunnanda og litla bróður.

Og svo rúsínan í pylsuendanum: Sá bíl með íslenskum númeraplötum fyrir utan bíóið. Þetta er alls staðar!

|