<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 23, 2004

Jæja, ég er enn hér eftir öll verkefni gærdagsins. Og þvílíkur dagur! Af hverju safnast öll verkefni vikunnar á einn dag og svo situr maður og lætur sér leiðast alla hina dagana! Dagurinn byrjaði á kennslu armra dýralæknanema í frjósemisfræðum. Þetta voru lokaársnemar en voru samt eitthvað svo andlaus og fattlaus-meira að segja ég fílaði mig bara klára við hliðina á þeim, múhúhúhaha! Svo brjálaðist ein merin og sló næstum niður Matt, hinn dýralækninn og þau stóðu bara og flissuðu nervust. Og þessi 1/9 hluti sem var strákur var í skyrtu og bindi undir fjósagallanum-þeir eru víst allir svona. Who are they kidding? Bíðiði bara þangað til þið liggið í flórnum við burðarhjálp, mykjugir upp fyrir haus. Þá stoðar ekkert að vera með hálstau af þessu tagi.

Eftir verklegu æfinguna áttu þau svo að svara spurningum sem þau voru búin að undirbúa heima. Og þau komu ekki bara með beint svar við hlutunum heldur kom allur kaflinn og kaflarnir á undan og eftir líka. Matt var frekar þreyttur á þessu, en ég man hvernig þetta er, maður veit svo lítið að það er hægt að lesa alla bókina til enda og alltaf vera að læra eitthvað nýtt. Þau hafa bara ekkert vitað hvar þau áttu að hætta. Svo ég fyrirgaf þeim þetta greyjunum.

Þessi ráðvilltu skólabörn urðu þó til þess að ég losnaði ekki fyrr en klukkan eitt og átti að koma fyrir þessa námsmatsnefnd hálfþrjú og átti eftir að undirbúa það, vissi ekkert hvað ég ætlaði að segja eða gera. En...þá hringir í mig vörubílstjóri sem situr fyrir utan húsið heima með dótið okkar úr skipinu og biður mig að koma út og veifa svo hann viti að hann sé á réttum stað...Ég hringdi heim, en enginn heima til að taka á móti þessu! En svo redduðu húsráðendur mér og tóku við dótinu fyrir mig.

Þegar svo kom að fundinum hringdi leiðbeinandinn Elaine með stálaugun og sagðist verða sein en við ættum bara að byrja án hennar því hún þyrfti líka að fara fyrr...thanks for taking an interest! Og ég hef eigi fyrr lagt tólið á en ég frétti að formaður nefndarinnar hafi slitið hásin kvöldið áður en sé þó mættur á hækjum! Þvílík hrakföll í kringum mig! Ég gat því alveg átt von á hörmungarfundi. Þetta var samt ekki svoo slæmt, gat ekki svarað spurningunum þeirra, vissi ekki hvað ég ætlaði að gera og hvernig en þau voru ekkert vond við mig. Og það skemmtilega við fundinn er að formannshækjurnar góðu voru svona holhandarhækjur eins og maður sér í bíómyndum. Ég gat því skemmt mér konunglega yfir því innra með mér og því látið af stressi, sorg og sút og flutt erindið klakklaust.

Eftir þennan fund fór ég beint á fund með hinum framhaldsnemunum og þar var vín og bjór og snakk..og líka eitthvað verið að tala um fræðslufundi...missti eiginlega mikið til af formlega hlutanum. Það er brenglað að hlusta á samtöl fólks á svona samkomu, þau eru eiginlega bara á skammstöfunarformi og maður fílar sig svo mikið nörd af því að maður skilur sumt af því sem fólk er að segja.

En nú sit ég hér á föstudegi og er að spá í að fara fyrr í dag því mér finnst ég ekki hafa neitt að gera. Hef samt allt það sem matsnefndin sagði mér að gera...sé til...

|