<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Nú er ég nýmætt á skrifstofuna og ætti að vera á kafi í að undirbúa skýrsluna sem ég á að skila á morgun. Í fyrsta lagi er erfitt að koma sér að því (er í stoppkasti), í öðru lagi vantar mig myndir frá leiðbeinandanum til að setja inn í þetta og í þriðja lagi situr konan sem ég deili skrifstofu með (systir konunnar sem kyndir ofninn minn) og opnar öll vefkortin sem hún hefur fengið síðan í gær, en þeim fylgir einmitt hroðaleg tónlist. Svo það er erfitt að einbeita sér.

Átti alltaf eftir að segja frá því þegar við Guðmundur fórum á Hringadróttinssögu um helgina. Sat við hliðina á mér kona á sextugsaldri sem var ein í bíó. Það var nú allt gott og blessað. Fljótt fór ég að heyra hvísl eins og einhver væri að útskýra gang myndarinnar fyrir sessunauti sínum. Komst þó fljótt að því að konan var að tala við sjálfa sig. Fór mikið af seinni hluta myndarinnar hjá mér í að fylgjast með henni. Hún virtist mjög gripin af þessu öllu saman og hvíslaði skipanir til sögupersónanna. Þegar Aragorn hitti Arwen aftur eftir alla þessa bardaga, hvíslaði konan opinmynnt: "Kiss her, kiss her!!!" og svo grenjaði hún líka heilmikið. Vesalingurinn var eitthvað svo umkomulaus í myrkrinu. Þannig að ég fékk aldeilis bónus með í kaupunum í þetta skiptið!

|