<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Nóg að gera

Úff, ég er búin að standa í sjö tíma og kryfja dautt hross (Equus mortus). Þar á undan stökk ég á fund niður í Little France. Deginum lauk svo á að ég eltist við kollega mína sem aldrei eru á sínum stað, til þess að arranséra kennslufyrirkomulagi námskeiðsins sem byrjar á fimmtudaginn. Þarf að fá lánaðar röntgenmyndir og svona til að kræsa fyrir stúdentakvölunum.

Og allt þetta afrekaði ég fárveik. Ég ætlaði aldrei að hafa mig upp af koddanum í morgun vegna þess að hausinn á mér reyndist þungur sem blý og þar að auki voru allir liðir stirðir og aumir. Eftir bolla af heitu Lemsippi leið mér betur og fór ég dúðuð í ullarsokkabuxum, skíðaundirfötum og flísi af stað í daginn. Svitnaði eins og svín á fundinum í morgun en seinna naut ég þess að hafa klætt mig vel þar sem ég stóð úti í mjaltaskemmu við formalínhrossið mitt og skar á fullu. Fékk öðru hverju einhver af mínum verri hóstaköstum og þurfti að kasta frá mér skurðhnífum og pinsettum til þess að standa í þeim fjára.

En nú ætla ég heim í bólið. Eftir að ég er búin að endurskoða eitt stykki vísindagrein og skrifa tvo útdrætti.

|

föstudagur, febrúar 23, 2007

Tölfræði

Ég sá í Mogganum um daginn að það væri byrjað að fara sáttaleiðina í völdum sakamálum á Íslandi og að fram að þessu hefðu tæplega 10 mál fengið þessa meðferð. Tæplega tíu...var ekki bara hægt að segja átta eða níu eða hversu mörg sem þau nú voru? Það er í rauninni ekki þörf á námundun þegar talan er svona lág!

Annað dæmi um kjánalegar tölur í fréttum er úttekt á tungumálakennslu í Evrópusambandinu. Það kom fram að ungt fólk lærði að meðaltali 1.4 erlend tungumál í öðrum löndum en bresk ungmenni lærðu hins vegar helmingi færri tungumál. Það gerir 0.7 tungumál. Sem er ekki einu sinni eitt og því í rauninni ekkert tungumál.

Já, tölfræði er frábær.

|

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Going slightly mad

Ég var að ná mér í vísindagrein á netinu og einn af höfundunum heitir Malakooti. Þetta þykir mér ógeðslega fyndið, enda er fátt annað fyndið í mínum litla heimi um þessar mundir. Bið ykkur bara að afsaka.

Svo fór ég nú reyndar í bíó á föstudaginn og sá The Science of Sleep sem skartar Gael García Bernal í allt of stórum skóm og vínrauðum Bítlajakkafötum. Mér fannst hún skemmtileg en samferðastúlkum mínum fannst hún ekki nógu djúpstæð eða "thought provoking". Ég þarf svo sem ekkert á meiri próvókasjón að halda en bévítans verkefninu mínu, svo mér hentaði ágætlega að horfa á svolítinn kjánaskap og þótti hún bara mjög góð.

|

föstudagur, febrúar 16, 2007

Til hamingju

Örn Helgi Magnússon er fjögurra ára í dag. Hann fékk mjúk náttföt, vasaljós og hamar í afmælisgjöf. Hann tekur á móti gestum á heimili sínu að Jin Bang Lu á morgun.

Áðan barst mér glaðningur með póstinum, geisladiskur sem færði mig aftur til ársins 1989. Það sumar fórum við um Bretland eins og eldur í sinu, fjölskyldan. Tókum með okkur tjald, prímus og hjólabretti og áttum eitt af bestu fríum sem ég man eftir. Ég hafði bitið í mig að kaupa mér spólu með laginu Wild Thing (ekki með Troggs, sko) sem ég hafði líklega heyrt í útvarpinu. Einhvers staðar hafði ég grafið upp að flytjandi lagsins væri Tone Loc. Alls staðar sem við stoppuðum leitaði ég uppi plötubúð og spurðist fyrir um Tone Loc. Framan af kannaðist enginn við hann en það fór þó svo að lokum að ég var svo heppin að komast yfir spóluna Loc'ed after Dark sem hafði einmitt að geyma Wild Thing, auk The Homies, Funky Cold Medina, Cheeba Cheeba og fleiri tónverka. Svo keypti ég mér líka Soul to Soul stuttermabol í karlmannsstærð með stórri andlitsmynd af svertingja að hlusta á vasadiskó. Hann var risastór og var mér hinn besti náttkjóll næstu tíu árin.

Hitt er verra að Tone Loc er auðvitað mesti sóðakall og hugsar vart um annað en kynmök, eða "The Wild Thing" eins og hann kallar það, og maríúanareykingar. Textarnir fóru á sínum tíma fyrir ofan garð og neðan hjá mér en mér fannst ég rosalega töff þegar ég stillti Tone á hæsta...eða ekkert mjög lágt...og faunkaði ýkt.

Svo týndist spólan þegar hún var í vörslu míns kæra litlabróður og hef ég lengi saknað hennar. Varð því úr að ég pantaði mér diskinn á netinu um daginn, bara upp á fortíðarþrána. Ég skellti honum beint á fóninn áðan og gladdist yfir því hvað hann er afspyrnu kjánalegur.

Ha' en god weekend!

|

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Commander Alf Hitchcock, head of the Met's Operation Blunt

Já, sá sem stjórnaði handtökum heillar fjölskyldu og nágranna hennar í Forest Gate í sumar heitir Alf Hitchcock. Ætli hann hafi látið spila psycho stefið á meðan ráðist var til atlögu og gamall maður á nærbuxunum var þvingaður á hnén? Það hefði alla vega skapað "rétta andrúmsloftið".

Í gærkvöldi náði ég mér í íþróttameiðsl. Í lokaleik netboltatímabilsins tókst mér að rústa á mér litlafingri vinstri handar. Hann er nú blár og stokkbólginn, gæti verið brotinn en það er víst lítið hægt að gera við því. Mér tekst þó alla vega að vélrita með honum svo hann er ekki alveg ónothæfur. Og nú er netboltaferli mínum líklega lokið því næsta tímabil hefst ekki fyrr en um miðjan maí...so long, I had fun.

Sólin skín og fuglarnir kvaka. Tilvalið að hanga inni og skrifa vísindagrein, jibbí!

|

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Legnámsfrétt

Herra minn trúr, hvað varðar mig um móðurlífið í Camillu Parker-Bowles? Ekkert, myndi ég segja en eitthvað virðast skiptar skoðanir um það. Í gær var nefnilega sagt ítarlega frá því í fréttum að nú standi til að hún fari í legnámsaðgerð. Talað var við "Royal Correspondant" á BBC og farið nákvæmlega í gegn um framkvæmd slíkrar aðgerðar. Svo voru Times með heila síðu um þetta í morgun. Jæja, þá veit maður það, þó ekki hafi maður spurt.

|

mánudagur, febrúar 12, 2007

Judy Dyke

Ég sá rosalega góða bíómynd í gær. Í henni átti Judi Dench frábæran leik sem krípí sagnfræðikennari. Þetta var svona Hitchcockstemmning með óhuggulegri tónlist og sannkölluðum tilfinningatryllingi. Og já, myndin heitir Notes on a Scandal. Svo var líka Bill Nighy í henni og hann er svo hyggelig.

Annað sem ég hef séð áhugavert þessa helgina var rugbyleikur milli Skota og Walesverja. Nú er í gangi six nations stórmótið og því rugbyveisla um hverja helgi. Það er stórskrítið að fylgjast með þessari íþrótt, þeir eru bornir út af alblóðugir, saumaðir á kantinum og sendir inná aftur. Og það er ekki sami tepruskapurinn og í fótboltanum: Hér er ekkert að því að blæða svolítið á aðra leikmenn. Svo eru þeir auðvitað allir með margbrotin (sem sagt oft brotin, ekki flókin) nef og margir taka upp á því að teipa niður á sér eyrun til þess að koma í veg fyrir cauliflower ear sem lýsir sér í blóðsöfnun undir húðinni sem getur gert eyrað rosalega stórt og jafnvel eyðilagt brjóskið í eyranu. Mér sýndist jafnvel einn þeirra velsku vera með gúmmídren út úr eyrnablöðkunni. Skotar unnu, svo ekki var þetta algjör tímasóun hjá mér. Svo gat ég líka prjónað um leið þannig að tímanum var aldeilis vel varið!

|

föstudagur, febrúar 09, 2007

Ummm...

Alan Rickman er í útvarpinu

|
Komin aftur

"Nú er aldeilis kominn tími til að blogga" hugsaði ég og sá fyrir mér mína nánustu í angist yfir því að hafa ekki heyrt frá mér vikum saman. Ég sé núna að þetta eru nú bara sex dagar sem ég hef ekkert skrifað, svo mikið hlýtur að hafa gengið á. Hvar hef ég alið manninn undanfarna viku? Nú, kennandi smápíum og gelgjudrengjum að þekkja hrosslöpp frá kýrlöpp!

Hvað er eiginlega með ljótar og þófnar prjónahúfur og umfangsmikil rúskinnsstígvél með óheyrilegu dinglumdangli og loðpjötlum? Litlu stúdínurnar bera ýmist annað eða hvort tveggja með miklu stolti í krufningasalnum við hvítu sloppana sína. Svo er um það bil helmingur drengjanna með aflitað hár svo sumir þeirra eru appelsínugulhærðir. Ég býst við því að þarna hafi komið við sögu einhvers konar veðmál.

Annars sé ég ákveðnar hliðstæður við minn eigin árgang í DK. Það er ein Pernille (eldri en hinar, ein af fáum sem er út allan tímann og einbeitir sér allan tímann) og ein Majken (óheppilega greppin feitlagin stúlka sem snörlar í), einn Henrik (hávær, frekar venjulega útlítandi strákur sem brettir upp kragann á sloppnum sínum og er alltaf umkringdur stelpum) og einn Torsten (óvenjulega loðinn, óásjálegur og lágvaxinn, hálfsíðhærður piltur í hljónstarbol) þó breska útgáfan sé ekki í PANTERA bol (crucial mistake!).

Var með tutorial tíma um daginn-eins konar dæmatíma í reproduction þar sem 12 áttu að mæta. Það mættu sjö og þau voru hvert öðru fattlausara og bjuggust eiginlega bara við því að ég talaði og talaði og þau skrifuðu og skrifuðu. Ég hafði undirbúið mig með því augnamiði að fá einhver viðbrögð frá þeim og vitneskju en þeim var ekki til að dreifa svo ég sat og ruddi út úr mér einhverju samhengislausu rausi um hormón og endaði svo á að geta ekki svarað einustu bévítans spurningunni sem ég fékk!

Fór svo beint niður í anatómíusal að undirbúa kýrlappir fyrir næsta dag, stóð þar í formalínfýlu í fjóra tíma og skar og snyrti. Þegar ég kom út var komin ólukkans sekt á bílinn hjá mér og ég algjörlega uppgefin. Komst að því daginn eftir að ég fæ þessa sekt víst fellda niður því ég var í akademískum erindagjörðum-jibbí.

Nú langaði mig helst heim að leggja mig (klukkan var tvö) en þurfti að koma við og kaupa brauð og aðrar nauðsynjavörur. Taldi það nú ekki þurfa að taka langan tíma en auðvitað var búðin full af miðaldra og öldruðum konum sem tóku tímann sinn og voru alls staðar fyrir. Ég náði því næstum að sofna standandi í biðröð við kassann en það hjálpaði mér þó að þykjast ekki hafa séð eina af stúdínunum mínum því mig langaði ekki að heilsa henni. Loksins þegar ég komst heim fór ég auðvitað beint undir sæng.

Nú virðist hins vegar allt á uppleið, seinna tutorialið mitt var í morgun og var ég mun betur undirbúin en nemendurnir voru líka meira með á nótunum. Og í strætó var maður sem státaði af undarlegri andremmu því út úr honum stóð sterk marsípanstækja. Sem sagt ekki góð marsípanlykt heldur svona vemmileg, greinilega af einhverjum bakteríugróðri. Það var nú spennandi, ha? Og í dag á ég fund með Elaine vegna launavandamálanna-ég ætla að krefjast launahækkunar og hún ætti heldur betur að veita mér hana, konan. Í síðustu viku var örvæntingin farin að gera vart við sig svo ég fór með öll penníin og tupensin sem ég hef safnað undanfarin þrjú ár og setti þau í mynttalningarvél í Sainsbury's. Bjóst ég við góðri búbót, en þar var ég illa svikin-þetta reyndust skitin 1 pund og 69 pens. Ekki get ég selt úr mér blóðið-þeir borga ekki fyrir það hérna, og ekki get ég selt úr mér sæði því ekki auðnaðist mér sú hamingja að geta framleitt sáðfrumur. Þannig að launahækkun er það....vonandi...

|

laugardagur, febrúar 03, 2007

Helgarpistill

Í gær var ég búin að fá alveg nóg af vandræðum mínum (aðallega af fjárhagslegum toga) og ákvað að skella mér á tónleika til að rokka úr mér allar áhyggjur með Beethoven. Á dagskránni var Eroica, sem var auðvitað bara fínt. Eftir hlé var hins vegar algjör perla, Nevsky eftir Prokofiev, sem var sveitt rokk all the way through. Þá var bætt við hljómsveitina, aðallega við slagverkið sem taldi þá 8 meðlimi, auk hörpu, 8 kontrabassa, 117 kórmeðlima og einnar rosalega feitrar söngkonu. Hljómsveitarstjórinn var unun á að horfa, hárið á honum átti sér eigið líf og hef ég aldrei séð annað eins. En slagverksdrengirnir stóðu sig eins og hetjur, þeystust milli páka, bassatromma og gong-a eins og velsmurðir stimplar í v8 vél. Þeir spiluðu meira að segja á xylofón og þríhyrning! Þetta var svo mikil kakófónía og var svo óskipulagt að það snerist í andhverfu sína og varð bara þrælskemmtilegt. Þetta fékk mig heldur betur til að gleyma vandræðum mínum þar sem ég skríkti af ánægju og hristist öll í takt við slagverkið.

Vandræðin eru þó enn til staðar en eldhuginn ég hef þó enn einhver trikk í pokahorninu og hyggst ég hóta að beita verkfallsréttinum til að fá mínu fram við ólukkans skrifstofublókirnar sem eiga að heita launagreiðendur mínir. Aular.

Æ, svo var alveg fullt af einhverju skrítnu og skemmtilegu sem ég var búin að leggja á minnið til að blogga um en óstuðið á föstudaginn virðist hafa eytt því. Það verður þá bara að hafa það.

|

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Boltaland

Ég komst að því í gær að það er gífurlega vandræðalegt að hlusta á útvarpsleikrit þar sem persónurnar kyssast stanslaust af mikilli ástríðu. Missti alla vega matarlystina og varð að fara út í göngutúr til að hrista af mér ímyndaða sleftauma.

Og mikið var ég svekkt á þriðjudagskvöld að þurfa einmitt að vera að spila netbolta þegar handboltaleikurinn var. Þegar ég kom heim og sá hvernig þetta hafði farið var ég himinlifandi að hafa ekki þurft að sitja undir þessari spennu. Það hefði farið alveg með mitt litla hjarta að engjast í stressi og harmi fyrir framan tölvuna hlustandi á Dolla og Samúel Örn í gegnum netið. En bévítans Danirnir, alltaf hafa þeir okkur undir, sama hvað! Las lýsingu á leiknum á DR síðunni og hún var auðvitað mjög partísk, eini Íslendingurinn nefndur á nafn var Ólafur Stefánsson. Annars var bara talað um "islændingene". En ég er nú glöð að sjá að íslenskir fjölmiðlar hafa slegið eign sinni á einhvern veslings danskan landsliðsmann sem kom lítið eitt við sögu í leiknum á þriðjudaginn. Danirnir nefna auðvitað hvergi íslenskar rætur piltsins, svona svipað og með Jón Dahl Tómasson. Skiljanlega.

By the way, netboltaleikurinn var æsispennandi og tapaðist með 2 stigum. Þar urðum við af þriðja sæti deildarinnar. Og skyttan okkar fór frá velli með gífurlega bólginn ökkla.

Jæja, back to the books.

|