<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 09, 2007

Komin aftur

"Nú er aldeilis kominn tími til að blogga" hugsaði ég og sá fyrir mér mína nánustu í angist yfir því að hafa ekki heyrt frá mér vikum saman. Ég sé núna að þetta eru nú bara sex dagar sem ég hef ekkert skrifað, svo mikið hlýtur að hafa gengið á. Hvar hef ég alið manninn undanfarna viku? Nú, kennandi smápíum og gelgjudrengjum að þekkja hrosslöpp frá kýrlöpp!

Hvað er eiginlega með ljótar og þófnar prjónahúfur og umfangsmikil rúskinnsstígvél með óheyrilegu dinglumdangli og loðpjötlum? Litlu stúdínurnar bera ýmist annað eða hvort tveggja með miklu stolti í krufningasalnum við hvítu sloppana sína. Svo er um það bil helmingur drengjanna með aflitað hár svo sumir þeirra eru appelsínugulhærðir. Ég býst við því að þarna hafi komið við sögu einhvers konar veðmál.

Annars sé ég ákveðnar hliðstæður við minn eigin árgang í DK. Það er ein Pernille (eldri en hinar, ein af fáum sem er út allan tímann og einbeitir sér allan tímann) og ein Majken (óheppilega greppin feitlagin stúlka sem snörlar í), einn Henrik (hávær, frekar venjulega útlítandi strákur sem brettir upp kragann á sloppnum sínum og er alltaf umkringdur stelpum) og einn Torsten (óvenjulega loðinn, óásjálegur og lágvaxinn, hálfsíðhærður piltur í hljónstarbol) þó breska útgáfan sé ekki í PANTERA bol (crucial mistake!).

Var með tutorial tíma um daginn-eins konar dæmatíma í reproduction þar sem 12 áttu að mæta. Það mættu sjö og þau voru hvert öðru fattlausara og bjuggust eiginlega bara við því að ég talaði og talaði og þau skrifuðu og skrifuðu. Ég hafði undirbúið mig með því augnamiði að fá einhver viðbrögð frá þeim og vitneskju en þeim var ekki til að dreifa svo ég sat og ruddi út úr mér einhverju samhengislausu rausi um hormón og endaði svo á að geta ekki svarað einustu bévítans spurningunni sem ég fékk!

Fór svo beint niður í anatómíusal að undirbúa kýrlappir fyrir næsta dag, stóð þar í formalínfýlu í fjóra tíma og skar og snyrti. Þegar ég kom út var komin ólukkans sekt á bílinn hjá mér og ég algjörlega uppgefin. Komst að því daginn eftir að ég fæ þessa sekt víst fellda niður því ég var í akademískum erindagjörðum-jibbí.

Nú langaði mig helst heim að leggja mig (klukkan var tvö) en þurfti að koma við og kaupa brauð og aðrar nauðsynjavörur. Taldi það nú ekki þurfa að taka langan tíma en auðvitað var búðin full af miðaldra og öldruðum konum sem tóku tímann sinn og voru alls staðar fyrir. Ég náði því næstum að sofna standandi í biðröð við kassann en það hjálpaði mér þó að þykjast ekki hafa séð eina af stúdínunum mínum því mig langaði ekki að heilsa henni. Loksins þegar ég komst heim fór ég auðvitað beint undir sæng.

Nú virðist hins vegar allt á uppleið, seinna tutorialið mitt var í morgun og var ég mun betur undirbúin en nemendurnir voru líka meira með á nótunum. Og í strætó var maður sem státaði af undarlegri andremmu því út úr honum stóð sterk marsípanstækja. Sem sagt ekki góð marsípanlykt heldur svona vemmileg, greinilega af einhverjum bakteríugróðri. Það var nú spennandi, ha? Og í dag á ég fund með Elaine vegna launavandamálanna-ég ætla að krefjast launahækkunar og hún ætti heldur betur að veita mér hana, konan. Í síðustu viku var örvæntingin farin að gera vart við sig svo ég fór með öll penníin og tupensin sem ég hef safnað undanfarin þrjú ár og setti þau í mynttalningarvél í Sainsbury's. Bjóst ég við góðri búbót, en þar var ég illa svikin-þetta reyndust skitin 1 pund og 69 pens. Ekki get ég selt úr mér blóðið-þeir borga ekki fyrir það hérna, og ekki get ég selt úr mér sæði því ekki auðnaðist mér sú hamingja að geta framleitt sáðfrumur. Þannig að launahækkun er það....vonandi...

|