<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 16, 2007

Til hamingju

Örn Helgi Magnússon er fjögurra ára í dag. Hann fékk mjúk náttföt, vasaljós og hamar í afmælisgjöf. Hann tekur á móti gestum á heimili sínu að Jin Bang Lu á morgun.

Áðan barst mér glaðningur með póstinum, geisladiskur sem færði mig aftur til ársins 1989. Það sumar fórum við um Bretland eins og eldur í sinu, fjölskyldan. Tókum með okkur tjald, prímus og hjólabretti og áttum eitt af bestu fríum sem ég man eftir. Ég hafði bitið í mig að kaupa mér spólu með laginu Wild Thing (ekki með Troggs, sko) sem ég hafði líklega heyrt í útvarpinu. Einhvers staðar hafði ég grafið upp að flytjandi lagsins væri Tone Loc. Alls staðar sem við stoppuðum leitaði ég uppi plötubúð og spurðist fyrir um Tone Loc. Framan af kannaðist enginn við hann en það fór þó svo að lokum að ég var svo heppin að komast yfir spóluna Loc'ed after Dark sem hafði einmitt að geyma Wild Thing, auk The Homies, Funky Cold Medina, Cheeba Cheeba og fleiri tónverka. Svo keypti ég mér líka Soul to Soul stuttermabol í karlmannsstærð með stórri andlitsmynd af svertingja að hlusta á vasadiskó. Hann var risastór og var mér hinn besti náttkjóll næstu tíu árin.

Hitt er verra að Tone Loc er auðvitað mesti sóðakall og hugsar vart um annað en kynmök, eða "The Wild Thing" eins og hann kallar það, og maríúanareykingar. Textarnir fóru á sínum tíma fyrir ofan garð og neðan hjá mér en mér fannst ég rosalega töff þegar ég stillti Tone á hæsta...eða ekkert mjög lágt...og faunkaði ýkt.

Svo týndist spólan þegar hún var í vörslu míns kæra litlabróður og hef ég lengi saknað hennar. Varð því úr að ég pantaði mér diskinn á netinu um daginn, bara upp á fortíðarþrána. Ég skellti honum beint á fóninn áðan og gladdist yfir því hvað hann er afspyrnu kjánalegur.

Ha' en god weekend!

|