<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Hormónarugl og holdafar

Í gær var mikið havarí yfir ráðleggingum Hins breska frjósemisfélags (BFS) um að konum með BMI-gildi yfir 36 yrði neitað um frjósemismeðferð á kostnað breska heilbrigðiskerfisins. Öll umræða snerist um félagslegar og stjórnmálalegar afleiðingar þessara ráðlegginga. Meðal annars var viðhafður mælikvarðinn "number of babies made per pound sterling" í fréttatíma BBC1 eins og um verksmiðjuafurð væri að ræða.

Mér fannst alveg vanta umfjöllun um læknisfræðina sem býr að baki þessum ráðleggingum. Rætt var við konur sem voru of feitar og höfðu annað hvort fengið hjálp til þess að eignast barn eða ekki. Þær sífruðu um það hversu heitt þær óskuðu sér að eignast barn, ein þeirra sagði það meira að segja það eina sem hana langaði að gera við líf sitt. Hún sat þarna í sófanum heima hjá sér og hélt því fram að barneignir væru hennar æðsti draumur en hún hafði greinilega ekki stefnt markvisst að því. Ef maður vill verða mjólkurfræðingur þá fer maður í skóla til þess að læra það og þarf að sitja marga leiðinlega tíma til þess að ná takmarkinu, ef maður vill verða rokkstjarna lærir maður á hljóðfæri eða eigin raddbönd, reynir að koma sér á framfæri og leggur allt sitt í það. Ef kona á sér það eina takmark í lífinu að verða móðir, á hún ekki að leggja rækt við heilsu sína og undirbúa líkamann undir meðgönguna? Nú segi ég ekki að fólk megi ekki skipta um skoðun á lífsleiðinni en læknisfræðin verður að setja mörkin einhvers staðar.

Það getur vel verið að ástæðan fyrir frjósemisvandamálum konunnar sé einmitt offitan. Ég hugsaði strax um alla næringarfræðitímana sem ég sat á sínum tíma þar sem hamrað var á því að gylturnar mættu ALLS EKKI verða feitar áður en þær væru sæddar. Sama gildir fyrir kýr og hryssur. Við áttum einmitt við eina meri í hitteðfyrra sem var spikfeit og það tók allt sumarið að koma henni í fyl. Það sama gildir um horaðar skepnur, enda var talað um konur með BMI undir 19 í sömu ráðleggingum. Frjósemishormónin eru fituleysanleg og er hætta á því að hormónastarfsemin fari fyrir ofan garð og neðan í of feitum eða of horuðum skepnum. Mér finnst því þetta félagslega grenj svolítið missa marks. Það gæti verið að konan væri fullfær um þetta sjálf ef hún bara tæki sig taki.

Líkurnar á því að svona feit kona verði ófrísk eftir tæknifrjóvgun eru afskaplega litlar en þó að meðferðin bæri árangur lyki sögunni ekki þar. Konan þarf á stanslausu eftirliti að halda, hún er í mikilli hættu á að fá fæðingareitrun og/eða fæða andvana barn auk þess sem svona feitar konur þurfa allar að fara í keisaraskurð. Kollegar mínir hér á QMRI sem eru fæðingarlæknar segja mér svakalegar sögur af slíkum aðgerðum. Það þarf sérstakan búnað fyrir svona stóran líkama sem kemst ekki einu sinni fyrir á skurðarborðinu heldur þarf að gera aðgerðina í sjúkrahúsrúminu með annað rúm við hliðina á til þess að leggja fitufellingarnar á meðan leitað er að barnunganum. Svo þegar búið er að sauma grær sárið illa því allur þessi fituvefur er svo fátækur af æðum til þess að styðja gróandann. Já, ég get því ekki annað en haldið að þessar ráðleggingar séu á læknisfræðilegum rökum byggðar og alls ekki ætlaðar til þess að mismuna fólki.

Þess má geta að ég þyrfti að bæta á mig tæpum 50 kílóum til þess að ná upp í BMI 36 og hef ég nú ekki talið mig horaða stúlku!

|

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

MótefnaLotta

Nú er ég fullbólusett og allt því klappað og klárt fyrir Kínaför. Ein sprauta hvor í sinn handlegg ver mig gegn barnaveiki, lömunarveiki, taugaveiki, stífkrampa og lifrarbólgu. Og þurfti ég ekki að borga krónu fyrir. Annar handleggurinn er níðþungur og helaumur auk þess sem ég finn að netjueitlarnir í mér hafa tekið við sér. Það er kannski bara ímyndun. En því er samt ekki að neita að nú er ég gangandi mótefnaverksmiðja eins og vinur minn benti mér á áðan. Ég sagði honum að til öryggis skyldi hann beygja sig ef ég hóstaði á hann.

Ég er búin að taka upp fyrsta hvítlaukinn minn og nú þegar búin að gæða mér á tveimur rifjum. Hann er auðvitað ljúffengur og safaríkur en þetta er án efa ferskasti hvítlaukur sem ég hef bragðað. MMMMMmmmm. Auk þess mun hann hjálpa mér í mótefnamynduninni næstu daga.

|

mánudagur, ágúst 28, 2006

Goðsagnir haustsins

Haustið er minn eftirlætisárstími. Þá getur maður farið að klæða sig í föt aftur, ekki þetta endalausa dulu- og sandalarugl. Verst er að hér kemur ekki sama skólalyktin í loftið og heima, ég sakna hennar. En vonandi finn ég hana á ný næsta haust og öll haustin eftir það!

Ég sá í gær öðru sinni bíómyndina "Legends of the Fall" sem ég sá í fyrsta skipti með Bjössa frænda í Ameríku fyrir 12 árum. Ég var búin að gleyma því hvað það eru margar tragedíur í henni. Maður er ekki fyrr búinn að jafna sig á einu sorgaratviki að annað gerist. Það er skemmst frá því að segja að tárin streymdu stanslaust í hálftíma og samt hló ég um leið að sjálfri mér. Brad átti tár mín samt alveg skilið enda með alveg hrikalega flott ör í hlutverki sínu sem Tristan.

|

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Drifið á daginn

Nú er ég komin með heilsíðu vegabréfsáritun á kínversku í passann minn, jibbí! Eftir að hafa heimsótt kínverska ræðismanninn fór ég í klippingu í baðherberginu hjá Þóri. Lét hann klippa mig alveg stutt fyrst hann er að fara og langt þangað til ég hitti hann aftur.

Rose fattaði ekki strax að ég hefði verið í klippingu og afsakaði sig með því að hún hefði ekki verið viss hvort ég hefði kannski þvegið það og það hefði skroppið saman (!). Ég sagði bara pent: "já, auðvitað, ég skil" en hugsaði "þvílíkt sækó". Stundum ætti hún bara að þegja blessunin.

En nú þarf ég að fara í sparifötin því við erum að fara á tangósýningu. Veðrið er unaðslegt. Ást og friður.

|

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Mansal og melódí

Danska dagsins: Alfonseri. Heyrði það áðan í p3 nyhederne um átak gegn mansali. Orðið þýðir hórmang. Ég hef ekki heyrt þessa mynd orðsins alfons (hórmangari) áður. Skemmtilegt!

Dæmi: Så stop dog det alfonseri!

Annars var ég ekki búin að segja frá kakófóníunni sem var meðal samningslausu sveitanna á laugardaginn. Þau voru greinilega búin að horfa/hlusta/pæla yfir sig á Belle&Sebastian og taldi bandið básúnu-, trompet-, þverflautu-, fiðlu-, knéfiðlu- og, xýlófónleikara auk hinna hefðbundnu tveggja gítara, bassa, trommu og hljómborðs. Sem sagt 11 manns á sviðinu. Þegar þau hófu sína tónsköpun virtist hvert þeirra í eigin heimi, engin tenging var á milli þeirra og hamaðist hvert og eitt á sitt hljóðfæri. Úr þessu varð, eins og áður segir hin gífurlegasta kakófónía eða eins og Halldór "Hi*ler" Vilhjálmsson hefði kallað það: KANON.

Í þau fáu andartök sem annað hvort strengir eða blástur hvíldust reyndi melódían að brjótast í gegn og hljómaði ekkert svo illa. En sólógítarleikarinn var samt óþolandi mikið að fíla sig og söngvarinn stældi Frank Black. Og stelpurnar voru allar í notuðum fötum með túberað hár. Og textarnir-maður minn, þvílík lýrík! Greyin voru greinilega miklir hægindastólsheimspekingar, þannig að textarnir voru svona í "eyrnabrotið milta"-stíl, hefðu getað verið samdir af Degi B. Eggertssyni og Kristjáni Guy Burgess á þeirra menntaskólaárum.

Já, svona er ungdómurinn kjánalegur! Eins gott að ég er næstum því ekki lengur ung!

|

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Alþjóðleg tilkynning

Nu har jeg puttet nye billeder på billedsiden. Nogle eksperimenter med shutterspeed i mørket på vej hjem fra koncert lørdag aften afslørede spøgelset udenfor Liberton House. Prøv selv og se!

|

mánudagur, ágúst 21, 2006

LYSI

Mér datt í hug að þið hefðuð áhuga á því hvernig lifrarsöfnun fer fram, fylgið tenglinum

|
Hátíðarkögur

Ég er risin úr rekkju, hætt að geta sofið 20 stundir á sólarhring og hlýt því að teljast heil heilsu. Hef þó auðvitað ennþá hóstann minn sem mun eflaust una sér lengi í brjósti mér. Dr. Amy kallaði hann "juicy" áðan. Hann er það svo sannarlega. Annars varð mér hugsað til þess að hann er nú kominn aftur til æskustöðvanna, því ég er viss um að hann er arfleifð frá ungbarnæsku minni hér í Edinborg þar sem ég lá iðulega og hóstaði í rökum og köldum húsakynnum. Þessa vitneskju hef ég úr sendibréfum föður míns til Björns afa en fréttirnar voru ýmist "Charlotta litla er að verða betri af hóstanum" eða "hóstinn hefur ekkert minnkað í Charlottu". Svo, vertu velkominn heim herra hósti!

Það er ekki seinna vænna að fá heilsuna aftur því Edinborgarhátíðin (Edinburgh Festival) og kögrið (Fringe) eru í fullum gangi. Já það er alveg frábært að geta bara sest inn á ýmsa viðburði þegar það dettur í mann, hægt að stinga sér inn á uppistand eða leiksýningu með engum fyrirvara. Gerði tilraun á fimmtudagskvöld, fór á uppistand með Bea en minn sjúki kroppur þoldi það ekki betur en svo að föstudeginum var eytt í svefn. Fór aftur út á laugardaginn með Cynthiu, í þetta sinn á T-break, tónleika með samningslausum hljómsveitum og skemmti mér prýðilega. Uppáhaldið mitt var hljómsveitin The Acute, glamrokktríó frá Penicuik sem voru allir í glimmeri og gítarinn var rosalega ljótur. Myndir fylgja síðar.

|

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Lasarus

Jah, nú er ég komin aftur til Edinborgar og ekki seinna vænna að rita ferðasöguna áður en ég gleymi henni.

Ferðin heim var algjör hörmung enda kom ég heim með beinverki og minn fræga sex-pakkar-á-dag hósta, búin að vera lasibúdd síðan.

Nú þegar hefur verið minnst á vísindalegt innihald ráðstefnunnar svo þessi færsla verður helguð hinum frábæra félagsanda og fjöri sem hrossafrjósemisdýralæknar geta pískað upp. Ég var búin að segja svolítið frá hrossasýningunni og dixielanddjassinum á ánni Maas en ekki tók verra við á fimmtudeginum. Þegar vinnufundum lauk klukkan tíu höfðu lókalarnir séð til þess að einn bar yrði opinn fyrir okkur í svefnbænum Kerkrade. Flykktumst við þangað og sá fimmtugur Argentínumaður Samper að nafni um tónlistina en hann hafði verið svo forsjáll að taka með sér ipodinn sinn.

Það var geðveikt stuð fram eftir nóttu, ég dansaði eins og andsetin salsa, merengue, chachacha, lambada og ég veit ekki hvað og hvað. Þegar ég rankaði við mér um 2 leytið var ég auðvitað sveitt eins og svín og ákvað að fara heim þegar fólk var farið að hlæja að mér. Hinir voru til hálffimm og var ég fegin á 9 fyrirlestrinum daginn eftir að hafa ekki verið svo lengi.

Á föstudeginum var lokahóf í Maastricht, í Festivillage sem var lítið torg undir þaki, umkringt eftirlíkingum af búðum og stofnunum. Í hverri "búð" var einhver hluti veitinganna-barinn í einni, kjöt í annarri, fiskur í þeirri þriðju osfrv. Það besta var svo ísvagn þar sem maður gat fengið sér endalaust af ís í formi! Það var BigBand í gangi allt kvöldið svo fólk dansaði milli rétta, jafnvel milli munnfylla. Þegar veislunni lauk um miðnætti var ég auðvitað ekki búin að fá nóg og stóð fyrir því að seinasta rútan yrði partybus og safnaði öllum dansfolunum saman-og auðvitað Samper líka sem var með ipodinn sinn. Ég var kosin chairwoman of the partybus og fékk bílstjórann til að setja okkur af við barinn okkar. Þar dunaði dansinn til þrjú. Ég dansaði meðal annars við náungann sem skrifaði kennslubókina Equine Reproduction upp á 1200 síður. Hingað til hef ég bara þekkt hann sem eftirnafn á kili þessarar bókar. Svo var auðvitað Dickson Texasbúi mættur. Annars var allt fullt af Javierum, Juanum, Heraldoum og Rodolfoum.

Djamm þetta varð til þess að ég fékk bara 2 tíma svefn því ég þurfti að vakna eldsnemma til að ná í lest til Amsterdam. Skemmst er frá því að segja að mér leið bölvanlega daginn eftir, með brjálaða hálsbólgu, gjörsamlega ósofin og á ferðalagi. Þriggja tíma lestarferð, tafir á flugvellinum, pínku leggjapláss í flugvélinni og miðsæti (=ekki hægt að sofa) bættu svo ekki ástandið.

But Boy was it worth it!!!!

|

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Fréttir úr klaustri

Bévíti massaði ég nú fyrirlesturinn í gær! Ég var búin að kvíða spurningunum úr salnum hvað mest en endaði á að stinga upp í freku kellinguna frá Kentucky sem var að reyna að beygja mig undir sig. Haha, er búin að fá hrós frá mörgum gömlum refum hér, þeir hafa eflaust lengi þurft að hlusta á hana þessa besserwissa út í eitt.

Hér kennir ýmissa grasa en skrautlegastur er þó Texasbúinn Dickson Varner sem er í kúrekastígvélum úr strútsleðri og með kúrekahatt úr bifurskinni. Fórum í gær á hrossasýningu þar sem snobbhross tipluðu og tóku skiptispor við instrúmental Bítla og Queen. Eftir það borðuðum við um borð í fljótabát á ánni Maas og dönsuðum við dixieland djass. Í rútunni á leiðinni fékk ég svo reikiheilun frá grískum fyrrverandi doktorsnema Elaine.

Að lokum verð ég að minnast á fyrirlestur sem var haldinn á mánudaginn. Fyrirlesarinn var frönsk kona, afskaplega settleg og eiginlega kennslukonuleg í útliti, í síðu pilsi og með kraga upp í háls, gleraugu og frekar stutt liðað svart hár. Þrátt fyrir þetta kurteislega útlit er ég viss um að margir karlmannanna í salnum hafi örvast á einhvern hátt því hún hafði alveg svakalega franskan hreim og endurtók í sífellu orðin "erection", "ejaculation" og "libido" því fyrirlesturinn var einmitt um kynhegðun stóðhesta. Hahaha, þetta var eins og úr Monty Python mynd-"the erection was only waaaafer theeen"...

|

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Nú sit ég á munkaklaustri í Suður-Hollandi og uni mér við leik og störf. Ég læt vita af mér þegar ég sný heim aftur, endurnærð eftir heitar bænastundir og heilsusamlegan kost.

|

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Vitið þið hvað? Það var komið fullt af fólki í kaffibollann minn í morgun. Mér leið nú betur við það.

|
Geta ekki fjármálin manns alveg verið í fínu lagi þó maður eigi bara 10 pund og 41 penny á öðrum degi mánaðarins?

|

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

ÆÆÆ! Var að lesa á mbl.is um sorgaratburð að Húsatóftum á Skeiðum. Valgerður á Húsatóftum er heiðurskona og hræðilegt að vita að 30 gripir hafi brunnið inni hjá henni. Þvílík aðkoma sem það hlýtur að vera. Úff!

|
Ljóður

Ég orti ljóð í vikunni. Andinn kom bara yfir mig og ég var svo heppin að vera með glósubók með mér. Það er of dónalegt til að birta það. Kannski birti ég það einhvern tímann undir dulnefni. Kannski í vonduljóðakeppni Nýhils.

Og það er nú staðfest að 29. afmælisdagur minn verður haldinn hátíðlegur í Sjanghæ í faðmi (hluta) fjölskyldunnar. Megameiriháttar!

Og, bætti líka inn nokkrum myndum á myndasíðuna. Rosalega er maður skapandi eitthvað.

|

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Royal Fail-enn á ný

Já, Royal Mail er uppáhaldsklaufafyrirtækið mitt. Þeir eru svo vitlausir og svo óáreiðanlegir að það er næstum því sætt. NÆSTUM því. Eins og lesendur mínir vita voru þeir svo dásamlegir að taka sér sjö mánuði í það að færa mér tvo böggla frá Íslandi en nú þykir mér sko nóg um.

Ég fékk svarbréf við kvörtuninni sem ég sendi út af lestarferðinni ógurlegu um daginn. Svarbréfið barst mér í plastpoka frá Royal Mail með áletruninni "Sorry!". Hafði póstklaufunum tekist að rífa umslagið og innihald þess þannig að haus og ávarp bréfsins var heillum horfinn. Sem betur fer gat ég stautað mig fram úr símanúmeri þjónustudeildar Meylesta (Virgin Trains, sko) sem var ofarlega í bréfinu en í því var ég einmitt beðin að hafa samband.

Svo þegar ég hringdi í Meylestir áðan kom í ljós að þeir höfðu bara fengið frá mér umslagið (sem var sérhannað fyrir kvartanir, svo ég hafði fyllt inn einhverjar upplýsingar þar) en bréfið og miðana sem voru í umslaginu fengu þeir aldrei! Þessir konunglegu klaufar á póstinum! Hvað er að???!!! Ég var fyrirhyggjusöm og tók afrit af miðunum og á bréfið í tölvunni þannig að þetta bjargast vonandi fyrir horn.

Annars er ég svo glöð í dag að þetta fær ekki á mig. Sjanghæferðin gerist raunverulegri með hverjum deginum og í kvöld ætlum við foreldrarnir vonandi að panta okkur farmiða! Jibbíjæjei!!!

|