<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Mansal og melódí

Danska dagsins: Alfonseri. Heyrði það áðan í p3 nyhederne um átak gegn mansali. Orðið þýðir hórmang. Ég hef ekki heyrt þessa mynd orðsins alfons (hórmangari) áður. Skemmtilegt!

Dæmi: Så stop dog det alfonseri!

Annars var ég ekki búin að segja frá kakófóníunni sem var meðal samningslausu sveitanna á laugardaginn. Þau voru greinilega búin að horfa/hlusta/pæla yfir sig á Belle&Sebastian og taldi bandið básúnu-, trompet-, þverflautu-, fiðlu-, knéfiðlu- og, xýlófónleikara auk hinna hefðbundnu tveggja gítara, bassa, trommu og hljómborðs. Sem sagt 11 manns á sviðinu. Þegar þau hófu sína tónsköpun virtist hvert þeirra í eigin heimi, engin tenging var á milli þeirra og hamaðist hvert og eitt á sitt hljóðfæri. Úr þessu varð, eins og áður segir hin gífurlegasta kakófónía eða eins og Halldór "Hi*ler" Vilhjálmsson hefði kallað það: KANON.

Í þau fáu andartök sem annað hvort strengir eða blástur hvíldust reyndi melódían að brjótast í gegn og hljómaði ekkert svo illa. En sólógítarleikarinn var samt óþolandi mikið að fíla sig og söngvarinn stældi Frank Black. Og stelpurnar voru allar í notuðum fötum með túberað hár. Og textarnir-maður minn, þvílík lýrík! Greyin voru greinilega miklir hægindastólsheimspekingar, þannig að textarnir voru svona í "eyrnabrotið milta"-stíl, hefðu getað verið samdir af Degi B. Eggertssyni og Kristjáni Guy Burgess á þeirra menntaskólaárum.

Já, svona er ungdómurinn kjánalegur! Eins gott að ég er næstum því ekki lengur ung!

|