<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, ágúst 31, 2006

Hormónarugl og holdafar

Í gær var mikið havarí yfir ráðleggingum Hins breska frjósemisfélags (BFS) um að konum með BMI-gildi yfir 36 yrði neitað um frjósemismeðferð á kostnað breska heilbrigðiskerfisins. Öll umræða snerist um félagslegar og stjórnmálalegar afleiðingar þessara ráðlegginga. Meðal annars var viðhafður mælikvarðinn "number of babies made per pound sterling" í fréttatíma BBC1 eins og um verksmiðjuafurð væri að ræða.

Mér fannst alveg vanta umfjöllun um læknisfræðina sem býr að baki þessum ráðleggingum. Rætt var við konur sem voru of feitar og höfðu annað hvort fengið hjálp til þess að eignast barn eða ekki. Þær sífruðu um það hversu heitt þær óskuðu sér að eignast barn, ein þeirra sagði það meira að segja það eina sem hana langaði að gera við líf sitt. Hún sat þarna í sófanum heima hjá sér og hélt því fram að barneignir væru hennar æðsti draumur en hún hafði greinilega ekki stefnt markvisst að því. Ef maður vill verða mjólkurfræðingur þá fer maður í skóla til þess að læra það og þarf að sitja marga leiðinlega tíma til þess að ná takmarkinu, ef maður vill verða rokkstjarna lærir maður á hljóðfæri eða eigin raddbönd, reynir að koma sér á framfæri og leggur allt sitt í það. Ef kona á sér það eina takmark í lífinu að verða móðir, á hún ekki að leggja rækt við heilsu sína og undirbúa líkamann undir meðgönguna? Nú segi ég ekki að fólk megi ekki skipta um skoðun á lífsleiðinni en læknisfræðin verður að setja mörkin einhvers staðar.

Það getur vel verið að ástæðan fyrir frjósemisvandamálum konunnar sé einmitt offitan. Ég hugsaði strax um alla næringarfræðitímana sem ég sat á sínum tíma þar sem hamrað var á því að gylturnar mættu ALLS EKKI verða feitar áður en þær væru sæddar. Sama gildir fyrir kýr og hryssur. Við áttum einmitt við eina meri í hitteðfyrra sem var spikfeit og það tók allt sumarið að koma henni í fyl. Það sama gildir um horaðar skepnur, enda var talað um konur með BMI undir 19 í sömu ráðleggingum. Frjósemishormónin eru fituleysanleg og er hætta á því að hormónastarfsemin fari fyrir ofan garð og neðan í of feitum eða of horuðum skepnum. Mér finnst því þetta félagslega grenj svolítið missa marks. Það gæti verið að konan væri fullfær um þetta sjálf ef hún bara tæki sig taki.

Líkurnar á því að svona feit kona verði ófrísk eftir tæknifrjóvgun eru afskaplega litlar en þó að meðferðin bæri árangur lyki sögunni ekki þar. Konan þarf á stanslausu eftirliti að halda, hún er í mikilli hættu á að fá fæðingareitrun og/eða fæða andvana barn auk þess sem svona feitar konur þurfa allar að fara í keisaraskurð. Kollegar mínir hér á QMRI sem eru fæðingarlæknar segja mér svakalegar sögur af slíkum aðgerðum. Það þarf sérstakan búnað fyrir svona stóran líkama sem kemst ekki einu sinni fyrir á skurðarborðinu heldur þarf að gera aðgerðina í sjúkrahúsrúminu með annað rúm við hliðina á til þess að leggja fitufellingarnar á meðan leitað er að barnunganum. Svo þegar búið er að sauma grær sárið illa því allur þessi fituvefur er svo fátækur af æðum til þess að styðja gróandann. Já, ég get því ekki annað en haldið að þessar ráðleggingar séu á læknisfræðilegum rökum byggðar og alls ekki ætlaðar til þess að mismuna fólki.

Þess má geta að ég þyrfti að bæta á mig tæpum 50 kílóum til þess að ná upp í BMI 36 og hef ég nú ekki talið mig horaða stúlku!

|