<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Royal Fail-enn á ný

Já, Royal Mail er uppáhaldsklaufafyrirtækið mitt. Þeir eru svo vitlausir og svo óáreiðanlegir að það er næstum því sætt. NÆSTUM því. Eins og lesendur mínir vita voru þeir svo dásamlegir að taka sér sjö mánuði í það að færa mér tvo böggla frá Íslandi en nú þykir mér sko nóg um.

Ég fékk svarbréf við kvörtuninni sem ég sendi út af lestarferðinni ógurlegu um daginn. Svarbréfið barst mér í plastpoka frá Royal Mail með áletruninni "Sorry!". Hafði póstklaufunum tekist að rífa umslagið og innihald þess þannig að haus og ávarp bréfsins var heillum horfinn. Sem betur fer gat ég stautað mig fram úr símanúmeri þjónustudeildar Meylesta (Virgin Trains, sko) sem var ofarlega í bréfinu en í því var ég einmitt beðin að hafa samband.

Svo þegar ég hringdi í Meylestir áðan kom í ljós að þeir höfðu bara fengið frá mér umslagið (sem var sérhannað fyrir kvartanir, svo ég hafði fyllt inn einhverjar upplýsingar þar) en bréfið og miðana sem voru í umslaginu fengu þeir aldrei! Þessir konunglegu klaufar á póstinum! Hvað er að???!!! Ég var fyrirhyggjusöm og tók afrit af miðunum og á bréfið í tölvunni þannig að þetta bjargast vonandi fyrir horn.

Annars er ég svo glöð í dag að þetta fær ekki á mig. Sjanghæferðin gerist raunverulegri með hverjum deginum og í kvöld ætlum við foreldrarnir vonandi að panta okkur farmiða! Jibbíjæjei!!!

|