<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, ágúst 21, 2006

Hátíðarkögur

Ég er risin úr rekkju, hætt að geta sofið 20 stundir á sólarhring og hlýt því að teljast heil heilsu. Hef þó auðvitað ennþá hóstann minn sem mun eflaust una sér lengi í brjósti mér. Dr. Amy kallaði hann "juicy" áðan. Hann er það svo sannarlega. Annars varð mér hugsað til þess að hann er nú kominn aftur til æskustöðvanna, því ég er viss um að hann er arfleifð frá ungbarnæsku minni hér í Edinborg þar sem ég lá iðulega og hóstaði í rökum og köldum húsakynnum. Þessa vitneskju hef ég úr sendibréfum föður míns til Björns afa en fréttirnar voru ýmist "Charlotta litla er að verða betri af hóstanum" eða "hóstinn hefur ekkert minnkað í Charlottu". Svo, vertu velkominn heim herra hósti!

Það er ekki seinna vænna að fá heilsuna aftur því Edinborgarhátíðin (Edinburgh Festival) og kögrið (Fringe) eru í fullum gangi. Já það er alveg frábært að geta bara sest inn á ýmsa viðburði þegar það dettur í mann, hægt að stinga sér inn á uppistand eða leiksýningu með engum fyrirvara. Gerði tilraun á fimmtudagskvöld, fór á uppistand með Bea en minn sjúki kroppur þoldi það ekki betur en svo að föstudeginum var eytt í svefn. Fór aftur út á laugardaginn með Cynthiu, í þetta sinn á T-break, tónleika með samningslausum hljómsveitum og skemmti mér prýðilega. Uppáhaldið mitt var hljómsveitin The Acute, glamrokktríó frá Penicuik sem voru allir í glimmeri og gítarinn var rosalega ljótur. Myndir fylgja síðar.

|