<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 29, 2005

Casualty report

Mig er rétt hætt að klæja í mýbitin hundraðogtuttugu og svíða í sólbrunann gjörvalla sem ég náði mér í í mollunni síðustu helgi. Og hvernig fagna ég þessum áfanga? Með því að rífa sjálfviljug af mér skinn á milli vísitáar og löngutáar og líða því vítiskvalir af djöfullegum sviða um þessar mundir. Það var eitthvað skinnþykkildi búið að fara í taugarnar á mér svolítið lengi og ég ákvað að pilla það bara af. Slæmt ákvörðun....mjög slæm...

..auk þess er ég svo þrjósk að í morgun sleppti ég ekki reipinu þó það fældist hjá mér hross og fékk þessa líka fínu blöðru í lófann. En hrossið þurfti að láta í minni pokann fyrir mér svo áverki þessi var ekki alslæmur.

|
Þingmaður dauðans

Lýðræði getur verið afskaplega nytsamlegt og gott að vita til þess að fólkið sem stjórnar landinu talar máli alþýðunnar. Hins vegar eru stundum voðalegir dúddar sem lenda inni á þingi sem eru alltaf að vesenast í einhverjum örmálum sem skipta engu máli. Í gær var sagt frá þingmanni í breska þinginu sem heimtaði að rætt yrði um þann örlitla tímamismun sem er á milli útsendinga BBC í hliðræna kerfinu annars vegar og því stafræna hins vegar.

Fyrir hvern fréttatíma á útvarpsstöðvum BBC hljóma nokkur bíp sem er niðurtalning sekúndna uns klukkan er nákvæmlega þetta eða hitt. Ef maður hlustar á stafrænt og venjulegt útvarp á sama tíma kemur í ljós að pípin eru aðeins á eftir í stafræna útvarpinu. Ástæða þess að honum var svona mikið niðri fyrir var að honum fannst ótækt að Greenwich Mean Time sem allur heimurinn notar til þess að mæta á réttum tíma í vinnuna og hlusta á fréttirnar á réttum tíma skyldi vera borinn fram á svona kæruleysislegan hátt. Að hans mati stjórnar þetta gamla heimsveldi lífi allra jarðarbúa og hann var hræddur um að missa traust og virðingu þeirra. Hann tekur sjálfan sig kannski aðeins of hátíðlega...

...til dæmis er klukkan ekkert það sama á Akureyri og í Reykjavík svona stjarnfræðilega séð en það er ekkert verið að velta sér upp úr því...

...auk þess er Greenwich Mean Time í rauninni Icelandic Mean Time því á Íslandi er ekki fiktað í tímanum á vorin og haustin eins og í öðrum löndum...

Var annars uppi á þaki í grillveislu í gær. Þurftum að klöngrast upp mjóan brattan stiga (ég er svo heppin að hafa víðtæka reynslu í ótraustum stigum frá föður mínum og bróður) og troða okkur í gegn um þakglugga. Þegar upp var komið sáum við vítt í allar áttir, Arthurs Seat í öllu sínu veldi, Meadows og Firth of Forth. Hefðum getað gengið langa leið eftir þökum borgarinnar en nenntum því ekki, sátum þess í stað og nutum sólarlagsins. Það verður haldið morgunverðarpepp fyrir gönguna á laugardaginn uppi á þessu þaki þar sem við getum fylgst með mótmælendunum mæta á Meadows.

|

föstudagur, júní 24, 2005

Föstudagsbull

Þó að amma eigi ekki tölvu og hangi ógjarnan á netinu vil ég óska henni til hamingju með afmælið í dag!

Danska dagsins: VVS-mand (pípulagningamaður). Stytting á hinu óþjála Vand-, varme- og sanitetsmand. Sanitet gæti misskilist sem geðheilsa og þetta gæti því verið sérgrein innan læknisfræðinnar, svona svipað og háls-, nef- og eyrnalæknir: Þvagfæra-, efnaskipta- og geðlæknir kannski...eða kannski ekki.....

....voooondur brandari.....

...ætti að snúa mér að öðrum og mikilvægari verkefnum!

|

fimmtudagur, júní 23, 2005

Fimmtudagspistill

Á þriðjudagskvöldum horfi ég alltaf á Grissom og félaga. Á þriðjudagskvöldum þar sem ég sit niðursokkin í ævintýr Grissoms og félaga, hringir ávallt minn kæri ástmaður. En pistill þessi á ekki að fjalla um þá skemmtilegu endurteknu tilviljun heldur það hvað Grissom og co eru stundum alveg óþolandi klárir, galdra sannanir upp úr engu. Til dæmis á þriðjudaginn var þegar þá fýsti að vita hvað skrafað hefði verið á leirlistanámskeiði nokkru. Skipti þá engum togum heldur skelltu þeir upp á grammófón leirkeri sem hafði verið á snúningsskífunni meðan á samtalinu stóð og létu grammófónnálina leika um rákirnar. Komu þá í ljós orðin "Bobby" og "Engill" og var þá málið á undraverðan hátt leyst þó það hefði verið í algjörum hnút augnablikum áður. Guuubbbb.

Mér fannst ræða Halldórs þykjustuforsætisráðherra (eða sá bútur sem ég heyrði af henni) alveg ofsalega klaufaleg og í henni ljótt málfar. Davíð er þó ljóðmæltur. Ég vil fá nýjan forsætisráðherra, mann með metnað og lífsgleði. Ekki klaufalegan svefngengil.

|

mánudagur, júní 20, 2005


Enn sem komið er eina myndin af mér í brúðkaupsdressinu-Christina gaf mér þessi gleraugu, er hún ekki góð? Sko, mamma, vonandi verða einhverjar myndir án gleraugna og af kjólnum og allt, en þetta er fyrsta myndin af mér sem mér berst. Ansi hrædd um að gleraugun séu með á þeim flestum...þau eru svooooo fín!

|
Mánudagur-fullt af hugsunum

*Það er ofurplebbalegt þegar menn á miðjum aldri eru með tyggigúmmí og hamast á því eins og óðir, tyggja krampakennt og rúlla tönnunum einhvern veginn yfir neðri vörina um leið og þeir eru að reyna að hafa samskipti við stúlkuna á kassanum um leið. Jaaaaagra.

*Rosalega er Evrópusambandið að liðast í sundur um þessar mundir. Ég gleðst yfir því. Í báðum þeim Evrópusambandslöndum hvar ég hef langdvölum dvalist hefur fólk tuldrað ofan í bringuna á sér ókvæðisorð í garð sambandsins og nú loksins gerist það æ augljósara hvað þetta skrifræðisbákn er asnalegt. Já, segið þið kannski, "asnalegt" er nú ekki beint málefnalegt orð, en ég valdi það samt eftir nokkra umhugsun, því andúð mín á Evrópusambandinu er meira tilfinningalegs, eðlisávísunarlegs eðlis og mér finnst ESB bara asnalegt.

Ég er nefnilega vonlaus rómantíker sem finnst fjölbreytni skemmtileg og áhugaverð. Mér finnst gaman að fólki og hlutum sem eru öðruvísi, sama máli gegnir um þjóðir og lönd. Ég þoli til dæmis ekki áletrunina "Made in EU" utan á öllum sköpuðum hlutum. Hún segir mér ekki neitt! Made on Planet Earth, made on dry land, whatever! Og aumingja nýju aðildarlöndin eru enn með glýju í augum yfir því að hafa loksins hlotið náð fyrir augum skrifstofublókanna, vilja svo gjarnan vera memm og gera allt til að halda friðinn. Bjóðast til þess að gefa upp á bátinn ýmis fríðindi og réttindi ef það auðveldar stóru köllunum að vera vinir. Eins og litlu systkinin sem eru hrædd við stóru systkinin þegar þau slást...

*Hvað skyldi draumur sá tákna í hverjum dreymandinn elur og brjóstfæðir þríbura? Vonandi eitthvað gott.

*Að lokum: Hvernig getur maður minnt sjálfan sig á að vefja ekki reipi í kringum litlafingur þegar togast er á við fælna meri? Aumingja litlifingur lendir alltaf á milli og bólgnar og roðnar.

|

föstudagur, júní 17, 2005

Gleðilegan þjóðhátíðardag, kæru landar!

Hér er "sticky" veður, óskaplega hlýtt og mjög rakt. Ég líð þess vegna vítiskvalir í dýralæknagallanum og stáltárstígvélum, eins og ég er nú heitfeng! Er að fara að gera fyrstu frumuræktartilraun lífs míns, tek lífsýni úr meri og rækta það áfram. Spennt að sjá hvernig það mun ganga enda var ég hujper stressuð í morgun með ristilkrampa yfir því að ég næði ekki að skanna allar merarnar og sprauta þær sem þurfti að sprauta. Auk þess þurfti ég að ná í skottið á meri í krufningastofunni áður en allt væri búið.

Róaðist þó mikið þegar Javier fór yfir listann með mér og Velvet reyndist læknuð af legbólgunni og Paul í krufningastofunni passaði að legið úr hræinu færi ekki forgörðum. Svona er nú róandi að fá aðstoð frá góðu fólki. Jæja, nú þarf ég að stökkva út og ná í þetta lífsýni svo mér vinnist tími í rannsóknastofunni.

Svo vona ég að ég nái í skottið á 17. júní garðveislunni sem haldin er heima í Liberton House seinnipartinn. Það á að setja upp blaknetið og allt!

|

þriðjudagur, júní 14, 2005

Gaman og alvara

Aumingja Javier lenti í því um daginn að það rifnaði endaþarmurinn á meri sem hann var að skanna. Þetta getur alltaf komið fyrir en hefur aldrei komið fyrir hann þó hann sé afar reyndur. Ég er bara svo fegin að þetta var ekki ég! Hún fór í meiriháttar skurðaðgerð og virtist vera á batavegi en um helgina hríðversnaði henni, hún fór í septic shock og þurfti að aflífa. Merin kom sem sagt inn á spítala til þess að vera sædd en komst ekki héðan lifandi. Ömurlegt að þurfa að segja eigendunum að ekki aðeins fái þeir ekki folald, heldur fái þeir ekki merina aftur. Aftur: Fegin að þetta kom ekki fyrir mig.

Annað (og öllu alvörulausara) í fréttum:

1) Fór í klippingu í gær, kom út með frábæra seventies-diskódrottningargreiðslu með missíðum topp. Eins gott að ég einmitt er seventies-diskódrottning og var nýbúin að kaupa mér Best of Motown geisladisk.
2) Er að fara að skrifa fyrstu ávísun lífs míns. Já hér í Bretlandi er allt svo dejlig gammeldags. Ég skrifa tékka til að borga fyrir þjónustu meinafræðideildarinnar hér.
3) Mig dreymdi að amma væri að þýfga mig um einhver box sem áttu að hafa verið í eldhúsinu hjá henni. Þetta var afar óþægilegur draumur því ég var saklaus og leist ekkert á ömmu í þessum ham. Fattaði ekki fyrr en á leiðinni í skólann í morgun að það seinasta sem ég gerði áður en ég fór að sofa í gær var að lesa smásöguna "Boxin" eftir Svövu Jakobsdóttur.

|

föstudagur, júní 10, 2005

Blekkingarleikur

Ein af æsifyrirsögnunum utan á "det islandske her og nu" hljómar svo: "Dragtdrottning í hvítu!". Hva, á fólk að verða æstara í að kaupa blaðið ef það óvart heldur að það séu myndir af karlmanni kvenmannsfötum? Ég meina, dragtdrottning, hvað er það?

|

miðvikudagur, júní 08, 2005

Blautur draumur?

Mig dreymdi þetta:

....í kassavís í nótt. Þetta var þó ekki neitt dónalegur draumur, það vill bara þannig til að þetta er besti vinur repro-dýralæknisins og það var farið að lækka í staflanum hjá okkur hér. Áminning frá undirmeðvitundinni að kaupa meira.

|
Jæja, hér eru myndir úr brúðkaupinu ef einhverjir hafa áhuga...Verst að þær eru í öfugri röð en kann bara ekki að breyta því. Myndasyrpan byrjar því á þynnku og lýkur í yndislegheitum. Þannig ætti það auðvitað að vera sko.

|
Gleymdi að óska Sigurði í Víðinesi og félögum til hamingju með niðurstöðuna, þó ekki sé útséð um þetta enn. Hann lánaði sko meri í tilraunina mína og var hinn ljúfasti í alla staði.

|
Back up the backside

Nú er ég rétt farin að jafna mig eftir brúðkaup aldarinnar sem haldið var á Lálandi um helgina. Búin að vera hálfgerður svefngengill síðan þá enda biðu mín hér miðnæturvakt og óskannaðar merar í lange baner. Stefni á að fara snemma í bólið í kvöld til að komast á réttan kjöl. Næstu mánuðir verða strembnir þar sem ég á víst að skila annarsársskýrslu um miðjan júlí og halda smá tölu fyrir matsnefnd. Jájá, það sleppur allt saman vonandi.

Vil bara þakka kærlega fyrir mig, Danmörk og mínir kæru vinir í Danaveldi fyrir að taka við mér með bros á vör þrátt fyrir allt vesen sem mér fylgdi. Þetta var algjör unaður!

Myndir frá brúðkaupinu verða settar á netið þegar tími gefst, læt vita af því seinna.

|

miðvikudagur, júní 01, 2005

HAhahahhaah! Hlustið á Jónsa á generalprufu á Júróvisjón. Þetta er algjört dúndur. Baggalútur: Ich liebe dich!

|
Ef einhvern langar að vita hvað ég mun hafa fyrir stafni 2. júlí þá má smella á "make poverty history" hnappinn og sjá hvað verður rosalegt fjör hjá mér! Hlakka þvílíkt til.

|