<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 20, 2005

Mánudagur-fullt af hugsunum

*Það er ofurplebbalegt þegar menn á miðjum aldri eru með tyggigúmmí og hamast á því eins og óðir, tyggja krampakennt og rúlla tönnunum einhvern veginn yfir neðri vörina um leið og þeir eru að reyna að hafa samskipti við stúlkuna á kassanum um leið. Jaaaaagra.

*Rosalega er Evrópusambandið að liðast í sundur um þessar mundir. Ég gleðst yfir því. Í báðum þeim Evrópusambandslöndum hvar ég hef langdvölum dvalist hefur fólk tuldrað ofan í bringuna á sér ókvæðisorð í garð sambandsins og nú loksins gerist það æ augljósara hvað þetta skrifræðisbákn er asnalegt. Já, segið þið kannski, "asnalegt" er nú ekki beint málefnalegt orð, en ég valdi það samt eftir nokkra umhugsun, því andúð mín á Evrópusambandinu er meira tilfinningalegs, eðlisávísunarlegs eðlis og mér finnst ESB bara asnalegt.

Ég er nefnilega vonlaus rómantíker sem finnst fjölbreytni skemmtileg og áhugaverð. Mér finnst gaman að fólki og hlutum sem eru öðruvísi, sama máli gegnir um þjóðir og lönd. Ég þoli til dæmis ekki áletrunina "Made in EU" utan á öllum sköpuðum hlutum. Hún segir mér ekki neitt! Made on Planet Earth, made on dry land, whatever! Og aumingja nýju aðildarlöndin eru enn með glýju í augum yfir því að hafa loksins hlotið náð fyrir augum skrifstofublókanna, vilja svo gjarnan vera memm og gera allt til að halda friðinn. Bjóðast til þess að gefa upp á bátinn ýmis fríðindi og réttindi ef það auðveldar stóru köllunum að vera vinir. Eins og litlu systkinin sem eru hrædd við stóru systkinin þegar þau slást...

*Hvað skyldi draumur sá tákna í hverjum dreymandinn elur og brjóstfæðir þríbura? Vonandi eitthvað gott.

*Að lokum: Hvernig getur maður minnt sjálfan sig á að vefja ekki reipi í kringum litlafingur þegar togast er á við fælna meri? Aumingja litlifingur lendir alltaf á milli og bólgnar og roðnar.

|