<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 14, 2005

Gaman og alvara

Aumingja Javier lenti í því um daginn að það rifnaði endaþarmurinn á meri sem hann var að skanna. Þetta getur alltaf komið fyrir en hefur aldrei komið fyrir hann þó hann sé afar reyndur. Ég er bara svo fegin að þetta var ekki ég! Hún fór í meiriháttar skurðaðgerð og virtist vera á batavegi en um helgina hríðversnaði henni, hún fór í septic shock og þurfti að aflífa. Merin kom sem sagt inn á spítala til þess að vera sædd en komst ekki héðan lifandi. Ömurlegt að þurfa að segja eigendunum að ekki aðeins fái þeir ekki folald, heldur fái þeir ekki merina aftur. Aftur: Fegin að þetta kom ekki fyrir mig.

Annað (og öllu alvörulausara) í fréttum:

1) Fór í klippingu í gær, kom út með frábæra seventies-diskódrottningargreiðslu með missíðum topp. Eins gott að ég einmitt er seventies-diskódrottning og var nýbúin að kaupa mér Best of Motown geisladisk.
2) Er að fara að skrifa fyrstu ávísun lífs míns. Já hér í Bretlandi er allt svo dejlig gammeldags. Ég skrifa tékka til að borga fyrir þjónustu meinafræðideildarinnar hér.
3) Mig dreymdi að amma væri að þýfga mig um einhver box sem áttu að hafa verið í eldhúsinu hjá henni. Þetta var afar óþægilegur draumur því ég var saklaus og leist ekkert á ömmu í þessum ham. Fattaði ekki fyrr en á leiðinni í skólann í morgun að það seinasta sem ég gerði áður en ég fór að sofa í gær var að lesa smásöguna "Boxin" eftir Svövu Jakobsdóttur.

|