<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 29, 2005

Þingmaður dauðans

Lýðræði getur verið afskaplega nytsamlegt og gott að vita til þess að fólkið sem stjórnar landinu talar máli alþýðunnar. Hins vegar eru stundum voðalegir dúddar sem lenda inni á þingi sem eru alltaf að vesenast í einhverjum örmálum sem skipta engu máli. Í gær var sagt frá þingmanni í breska þinginu sem heimtaði að rætt yrði um þann örlitla tímamismun sem er á milli útsendinga BBC í hliðræna kerfinu annars vegar og því stafræna hins vegar.

Fyrir hvern fréttatíma á útvarpsstöðvum BBC hljóma nokkur bíp sem er niðurtalning sekúndna uns klukkan er nákvæmlega þetta eða hitt. Ef maður hlustar á stafrænt og venjulegt útvarp á sama tíma kemur í ljós að pípin eru aðeins á eftir í stafræna útvarpinu. Ástæða þess að honum var svona mikið niðri fyrir var að honum fannst ótækt að Greenwich Mean Time sem allur heimurinn notar til þess að mæta á réttum tíma í vinnuna og hlusta á fréttirnar á réttum tíma skyldi vera borinn fram á svona kæruleysislegan hátt. Að hans mati stjórnar þetta gamla heimsveldi lífi allra jarðarbúa og hann var hræddur um að missa traust og virðingu þeirra. Hann tekur sjálfan sig kannski aðeins of hátíðlega...

...til dæmis er klukkan ekkert það sama á Akureyri og í Reykjavík svona stjarnfræðilega séð en það er ekkert verið að velta sér upp úr því...

...auk þess er Greenwich Mean Time í rauninni Icelandic Mean Time því á Íslandi er ekki fiktað í tímanum á vorin og haustin eins og í öðrum löndum...

Var annars uppi á þaki í grillveislu í gær. Þurftum að klöngrast upp mjóan brattan stiga (ég er svo heppin að hafa víðtæka reynslu í ótraustum stigum frá föður mínum og bróður) og troða okkur í gegn um þakglugga. Þegar upp var komið sáum við vítt í allar áttir, Arthurs Seat í öllu sínu veldi, Meadows og Firth of Forth. Hefðum getað gengið langa leið eftir þökum borgarinnar en nenntum því ekki, sátum þess í stað og nutum sólarlagsins. Það verður haldið morgunverðarpepp fyrir gönguna á laugardaginn uppi á þessu þaki þar sem við getum fylgst með mótmælendunum mæta á Meadows.

|