<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, mars 30, 2004

Úff, nú er ég víst búin að leggja nógu marga kapla þennan morguninn. Ég kem engu í verk með þessu áframhaldi. Í gær var ég búin að fá nóg af skrifstofunni um hádegi og fór heim í garðvinnu. Er að undirbúa matjurtabeðið mitt fyrir exótískustu uppskeru í heimi. Þ.e. ég nenni ekki að rækta rófur, kartöflur og grænkál, heldur fékk strax villtar hugmyndir um ætisþistla, aspas, eggaldin og þessháttar snobbplöntur...sjáum nú til hvað verður úr því. Ímyndið ykkur, ég stend í skjóli himinhárra grenitrjáa og sting upp beðin (væri stemmning að vera í vaxjakka...). Fram hjá mér ríða öðru hverju litlar hestepiger á smáhestum. Hundstíkin Molly liggur og sólar sig á grasbala. Hver myndi vilja skipta á þessu og rykfallinni skrifstofu...ekki ég! Eini skugginn sem fellur á stemmninguna eru hrópin sem reglulega rjúfa náttúrukyrrðina...”HELP, HELP!”. Þannig er nefnilega mál með vexti að við hliðina á okkur er elliheimili og mig grunar að vistmaður einn sé orðinn allsvakalega seníll og standi fyrir þessum hrópum. Við Guðmundur vorum að koma heim seint um kvöld í fyrsta skiptið sem við heyrðum í veslings manninum. Við héldum kannski að einhver væri í vandræðum í runnunum við bílastæðið en fundum engan. Svo kom hið sanna í ljós, og um daginn var þetta einkar hvimleitt, því hrópin kváðu við allan daginn með stuttu millibili, og hann þreyttist greinilega ekkert við þetta því alltaf voru þau jafnöflug-auk þess sem glugginn var opinn hjá honum.

Annars brá ég mér til Glasgow um helgina-ekki einu sinni heldur tvisvar. Var að skutla Guðmundi á flugvöllinn því hann ætlaði heim til Íslands, svona til að missa af vorinu hér. Þegar við komum á flugvöllinn á laugardagsmorguninn kom í ljós að það var ekkert flug á laugardögum og að hann hafði verið bókaður í flug 27. apríl. Allt Flugleiðum að kenna svo hann fékk flug daginn eftir, sem reyndist alvöru og hann komst heill á húfi beint í fermingarveislu. En við nýttum sem sagt ferðina og skoðuðum okkur aðeins um í Glasgow-fílum Edinborg betur, of course!

Fórum á frábæra bíómynd um kvöldið-Station Agent, sem við erum búin að bíða eftir síðan hún fékk verðlaun á BAFTA. Vissum í raun ekkert hvað hún fjallaði um en vorum spennt fyrir henni...og við höfðum haft ástæðu til. Myndin er um dverg sem er lestaáhugamaður-fer á lestafundi og býr til lestamódel og svona. Og hann er rosa töffari-kyndvergurinn íslenski er bara lúði (jafnvel í leðurdressinu í “Dvergunum sjö”)-hann er dökka, þögla týpan og fílar ekki þegar kúbanskur kaffi-og pylsusali fer að abbast upp á hann. Einhvers staðar sá ég henni líkt við Lost in Translation, en hún var bara kjánaleg miðað við þessa (enda fannst mér hún léleg...). Anyway, þegar við komum út af myndinni staulaðist náföl kona út úr öðrum bíósal og bar sig heldur illa, eigraði um í eigin heimi. Eitthvað var stumrað yfir henni og hún send aftur inn í sal. Kom í ljós að hún hafði verið búin að horfa á einungis þrjú kortér af Kristsbíómyndinni-átti klukkutíma og þrjú kortér eftir enn og þegar orðin svona illa farin...tssss...hvað mig langar ekkert til að sjá þennan viðbjóð. Man without a face var alveg nógu ógeðsleg fyrir mig.

|

fimmtudagur, mars 25, 2004

Til þess að vera gjaldgeng í RCVS í London fékk ég meðmæli frá leiðbeinandanum mínum, járnfrúnni Elaine. Meðal þess sem hún skrifaði var að mig einkenndi “Scandinavian openness and honesty”. Er ég sú eina sem sé fyrir mér gruppeknald-senuna í Idioterne? Ég held að orðið “Scandinavian” leiði huga Bretanna beint að nekt og öðrum afslappaðheitum. Vissi ekki að ég hefði þessi áhrif á járnfrúna. Annars er ég svo kræf að fara alltaf í sturtu eftir jógatíma, og það felur í sér að ganga nakin 2 metra yfir að sturtunum. Bretarnir missa þvag yfir þessu hátterni mínu.

|

miðvikudagur, mars 24, 2004

Það tekur ekki langan tíma (eða mikla áreynslu) að sanka að sér titlum hér í Bretaveldi. Nú er ég komin með tvo titla á eftir nafninu mínu og kallast því upp frá þessu DVM, MRCVS. Náði mér í þennan langa í Lundúnum í gær, hjá Royal College of Veterinary Surgeons, en hann þýðir bara að ég sé meðlimur í því ágæta félagi og sé löggildur dýralæknir á Bretlandseyjum. Ætli ég gæti kallað mig MDÍ á Íslandi-meðlimur í Dýralæknafélagi Íslands? En, án alls gamans, þá nota dýralæknar hérna virkilega þennan titil...hrmpfhh!

Titilafhendingin var einföld: Ég þurfti ekki að krjúpa, en ég þurfti að fara með 160 ára gamlan eið og sverja félaginu eilífa hollustu. Svo þurfti ég að borga 240 pund (þykkt búnt af enskum seðlum-þeir vildu ekki “skoska” peninga), sem þeim þótti nú ekki leiðinlegt köllunum. Svo gekk ég út í haglhryðjuna ný og betri (les. merkilegri) manneskja. Lokaathöfnin var svo sú að aðdáendur mynduðu mig með skírteinið fyrir framan Big Ben.

Lundúnaferðin var skemmtileg og margs að minnast sem vekur hlátur og blíð bros hjá ferðalöngunum tveimur. Fyrsta ber að telja rútuferðina aðfaranótt mánudags sem tók átta tíma og bauð upp á sveitta, þvala ferðafélaga, gefandi frá sér megna líkamslykt, slitinn svefn í þriggja kortéra einingum (eða eina svefneiningu upp á 30 mín hjá The Boy”) og áningarstað sem bauð upp á spilakassa, sveittar pylsur og beikon klukkan 3 um nóttina. Vá, hvað mig langaði í svona ferð heim á leið líka, verst að við vorum búin að panta flug til baka. Vorum komin á leiðarenda um 6 leytið og héldum þá af stað í leit að hótelinu. Það var auðvelt að finna og enn betra var að við gátum skráð okkur strax inn og fengið afhent herbergið. Sváfum í þrjá tíma og rifum okkur svo upp til að skoða allt sem skoða þurfti. Flæktumst um í Chinatown til hádegis en ákváðum svo að fara í Camden market. Það var þvílíkur fílingur, sást hass á öðrum hvorum manni og fullt af litlum búðum sem seldu bölvað drasl. Búðareigendurnir voru dónalegustu mannverur sem ég hef fyrir hitt, reyndu hálfgert að þröngva manni til að kaupa eitthvað af þessu rusli sínu. Ég keypti þó jakka og pils af vingjarnlegum kínamanni og svo keypti ég mér sinaskeiðaól eins og mig hefur alltaf langað í, svo nú er spelkan aðeins fyrir virkilega erfið köst. Náunginn sem seldi mér ólina var með syndandi, útúrreykt augu og ég sá eftir því að hafa ekki boðið honum 10 pens eða eitthvað álíka hlægilegt verð, í þessu ástandi getur vel verið að hann hefði samþykkt! Annars er skrýtið með þessa kalla sem eru með sölubása þarna, þeir eru alltaf að “hjálpa” manni með rennilásinn, töluna eða smellurnar. Leyfi mér að efast um að þeir séu bara hjálpsamir!

Þegar við ætluðum að drífa okkur til baka með underground voru truflanir á lestakerfinu og allt stopp svo við enduðum á að ganga í staðinn, sem gerði okkur nú örugglega bara gott. Fórum á Stones in his pockets í leikhúsi um kvöldið, ekki frá því að íslenska útgáfan hafi verið betri, hló alla vega miklu meira á henni. En þetta var fínt og mikil tilhlökkun að komast á hótelið og sofa heila nótt...

...sá draumur rættist þó ekki, vöknuðum við brunabjölluna um þrjúleytið en vorum óþekk og fórum ekki niður á götu eins og átti að gera, heldur biðum eftir að bjallan hætti-vorum þó búin að klæða okkur ef ske kynni. Þannig að við gátum farið að sofa aftur, en djísös hvað við vorum fúl.
Jæja, eftir orðuveitinguna daginn eftir gengum við ofsalega mikið, og fórum t.d í London Eye, sem er mjög stórt og hægfara parísarhjól, okkur stóð ekki alveg á sama og ég fann fyrir smá flökurleika þegar niður var komið.

Svo var heimferðin viðburðalítil, enda flugferð, gekk smurt eins og vera ber. Þess má geta að nefið á mér var fullt af svörtum skít og þegar ég þvoði mér í framan í gærkvöldi kom bara svartur skítur í þvottapokann. Ojoj, London er skítug borg.

Og að lokum, þá skuluð þið vera þakklát fyrir þessa löngu ferðasögu. Þeir sem prófað hafa að rektalisera hryssu með öflugar þarmahreyfingar vita að vélritun er kvöl og pína eftir slíka þolraun.

|

föstudagur, mars 19, 2004

Vá, hvað ég hef verið löt að skrifa. Nú er kjöltutölvan mín þó komin í lag eftir langa mæðu, svo ég get loksins skrifað íslenska stafi án mikilla málalenginga. Sit nú við skrifborðið mitt sem er þakið rusli og drasli. Þar á meðal:

Útprentanir ýmiss konar af heimasíðu Ríkisskattstjóra-skattskýrsla í bígerð.
Misheppnuð vefjasýni sem áttu að gefa snilldar mótefnalitanir-gekk ekki.
Upplýsingar um bifreiðatryggingar-já, ég er orðinn bíleigandi!

Í þessu kom inn Frank, þýskur vinur argentínska dýralæknisins Javiers, sem ég vinn með. Frank stendur og hnoðar axlir Javiers sem stynur lágt. Er að spá í hvort ég ætti að pilla mig út á gang-þeir virðast þurfa að vera í einrúmi...gaman að þessu.

Já, aftur að bifreiðinni fögru sem ég er svo stolt af að eiga. Það er Nissan Sunny, vita kraftlaus en traustur (enn sem komið er!). Hann á að heita silfurlitaður en ég sá hann við hliðina á forkunnarfögrum Volvo, einnig silfurlituðum, og áttaði mig þá á að bíllinn minn er meira svona drullupollalitaður. En ég elska hann samt. Enda er ég að hekla púða til að hafa í afturglugganum og á von á XXL loðteningum sem ég pantaði á amerískri vefsíðu. Ég meina, þetta er fyrsti bíllinn minn, um að gera að gera þetta almennilega! Og tillögur að nafni á klárinn eru vel þegnar, í verðlaun er ótakmörkuð gisting á fyrirtaks gistihúsi í hjarta Edinborgar. Engar dónalegar tillögur þó, Ku-Birm Kwon!

Annað-í verkefninu mínu gerast frekar afturfarir en framfarir (Deeza: rétt hjá þér, doktorsnám, pfftsss!). En hins vegar er ég búin að vera með Javier hinum hugummilda í hrossaskoðunum á spítalanum. Hérna ætlum við nefnilega að hoppa um borð í tískulestina Fósturvísaflutninga og framkvæma tvær slíkar aðgerðir í næsta mánuði. Og til þess þarf margar hryssur sem geta tekið á móti litlu fósturvísirunum. Þessar hryssur voru keyptar inn í síðustu viku og við höfum verið að pota í báða enda og öll göt (aðallega tvö þeirra þó) til þess að fullvissa okkur um að þær séu starfinu vaxnar. Og þær eru voða sætar, af Clydesdale kyni, sem er stolt okkar Skota, hávaxnir dráttarklárar með loðna hófa. Og til að toppa það eru þær með yfirvaraskegg, sannkallað Schnurrbart, svona sem snýst upp til endanna. Verð eiginlega að taka mynd af þeim. Get kannski gert heimatilbúið ilmspjald í bílinn minn fagra með íðilfagurri Clydesdale hryssu....mmmm....

|

föstudagur, mars 12, 2004

Ólán!

Ég er svoooo mikill lúði að það hálfa væri nóg! Skemmdi símann minn í gær...búhú. Þeir sem til þekkja vita að ég keypti þennan síma í símabúðinni á Selfossi fyrir einu og hálfu ári af því að gamli síminn dó úr raka í einum af mínum dýralæknatúrum. Svo það lá mikið á að fá nýjan síma, sem var keyptur á fullu verði í áðurnefndu bæjarfélagi. Síminn sem fyrir valinu varð var "Haandværker"síminn frá Nokia, vegna þess að hann er vatns- og höggvarinn.

Nú hefur hann þjónað mér vel síðan, í votu sem þurru veðri og þolað allt sem yfir hann hefur dunið. Þangað til í gærmorgun...

...ég tek strætó 13 mínútur yfir átta á morgnana og er yfirleitt byrjuð að hlaupa 10 mínútur yfir, þó að ég sé vel í tíma, bara svona til að vera viss, því hann á það til að vera of snemma í því. Í gær var ég sem sagt á hlaupum klukkan 8:10 og missti símann. Hlaupin voru að venju óþörf því ég sat og beið eftir strætó í fimm mínútur...arghhhh

Neðsta hornið á skjánum er dautt svo ef fólk vill senda mér sms, ekki senda neitt lengra en tvær línur, því ég get ekki bloody lesið það. Og svo þurfiði að afsaka allar villur sem frá mér koma í smsum, því ég sé heldur ekki helminginn af því sem ég er að skrifa. Kominn tími á nýjan síma? Ég held ekki...þarf að halda þetta út því þvert á það sem Deeza virðist halda á ég ekki endalaust af péning... Pis!

|

þriðjudagur, mars 09, 2004

Hmmm...við virðumst vera hér stödd meira úti í sveit en ég áttaði mig á, því í gær fórum við í göngutúr hérna upp í skóg og rákumst á nautgripi af Highland cattle kyninu-þessar rauðhærðu með síðan feld og risavaxin horn. Þetta voru ungneyti sem bitu sinu í mestu makindum á afgirtu túni sem reyndar var á hlið og vinalegt skilti sem merkti gönguleið þvert yfir túnið. Það var víst eins gott að við fórum ekki blint eftir skiltunum því þetta er með mannýgustu nautgripum sem fyrir finnast. Annars voru þeir voða sætir greyin.

Fór og skoðaði bíl í gær. Nissan Sunny, leist svo sem ágætlega á og gerði tilboð. Svo er bara að halla sér aftur og láta hann svitna...eða missa gripinn í hendurnar á einhverjum öðrum. Eigandinn var mjög sómalegur, eiginlega um of, svona ofurnákvæm fjöldamorðingjatýpa, enda voru stórir brúnir blettir í skottinu. Datt í hug morðsófinn sem Hafdís og Tobbi keyptu í Góða hirðinum. Múhúhahaha.

|

föstudagur, mars 05, 2004

Oooohh hvað mér leiðist. Veit ekki af hverju ég var að mæta hér í morgun. Öll verkefnin sem ég ætlaði að takast á hendur í dag hafa dottið upp fyrir, þetta held ég að sé minn óheilladagur, ekkert gengur upp.

Er að reyna að kaupa mér bíl, það gengur ekkert því allar þessar auglýsingar rugla mig alveg og svo þegar ég loksins finn bíl sem ég held að gæti hentað mér þá er ég of feimin til að hringja, veit ekkert hvað ég á að spyrja um og svoleiðis. Og síðan þegar ég loksins tek mig saman og hringi, er búið að selja bílinn! Lúði!

Og svo er ég að gefast upp á þessum bévítans vefjasneiðum, það gengur bölvanlega að skera þær og ég fer í svo vont skap þegar svoleiðis stendur á.

Jæja, það þýði ekki að velta sér upp úr eymdinni! Komið er vor, ég heyri sauðféð jarma hér í högum og stelkurinn hneggjar og vellir í vegköntum. Svo ef ég loka augunum er eins og ég sé bara í Tungunum á fögrum maídegi. I wish!

|

miðvikudagur, mars 03, 2004

(Atriðið hefst í svefnherbergi miðaldra konu. Ljósið er mjúkt og ljúfir tónar heyrast í bakgrunni. Konan er í óðaönn að pakka niður í ferðatösku. Á fataskáp hanga ljósar buxnadragtir í hópum, tilbúnar til pökkunar.)
Miðaldra kona (stórt bros, sjarmerandi raddhljómur): "On your big day, the last thing you need is constipation."

(Sýndir eru grænir, snyrtilegir pakkar af harðlífistöflum, við hliðina á þeim skálavís af fíkjum og sveskjum. Hlý karlmannsrödd tíundar kosti taflnanna).

(Næsta atriði gerist daginn eftir. Bíll heyrist flauta, konan svífur niður stigann með ferðatöskuna fulla af ljósum drögtum. Hún opnar útidyrnar.)

Vinkona: "Are you ready?"
Miðaldra kona (af ákafa, sannfæringu og vellíðan): "I am ready!"

Ef þetta er eina verkefnið sem þú getur krækt í, ættirðu að íhuga að leggja leiklistarskónum og gera eitthvað annað...bara allt annað en þetta...

Annars gæti hún nú landað hlutverki í einni af ellibaðkaraauglýsingunum. Hér er varla auglýsingahlé í sjónvarpi nema aldrað fólk sjáist hálfnakið að láta slaka sér oní baðið á öruggan og fljótlegan hátt. Bretar hljóta að missa mörg öldruð líf í baðslysum, hafandi svona miklar áhyggjur af baðvenjum gamla fólksins.

|

þriðjudagur, mars 02, 2004

Jæja, við Guðmundur Hörður komum sjálfum okkur aldeilis á óvart í gær-Gerðum sameiginlega fjárfestingu. Þetta var náttúrulega stórt skref og andleg eftirköst þónokkur. Fram að þessu hafði geisladiskurinn City of God verið það eina sem rimma hefði staðið um, tækjum við upp á því að skilja. En nú bættist espressovél, lítil og nett, á listann. Stukkum bara á tilboð í Sainsbury's án þess að hugsa. Drakk nú úr henni macchiato í morgun og líkaði vel. Nú er bara að nota hana svo maður fái ekki samviskubit!

Annars gerðum við okkur líka ferð í Botanic Garden, þá íkornaparadís. Vissuð þið lesendur góðir að íkornar hafa hljóð? Og þau bara nokkuð snotur! Þannig stóð nefnilega á að nú eru gráu íkornarnir á hormónaflippi og því var stemmningin eins og kortér fyrir þrjú á Klúbbnum, allir að leita sér að maka með brjálæðis- og gredduglampa í augum. Og þeir höfðu sko ekki lágt, litlu krúttin. Það var hálfgert urr sem kom upp úr þeim, sem endaði þó á væmnu nótunum. Þess má geta að þó þetta séu ofsalega sæt og bangsaleg dýr með sinn þétta feld þá er aldeilis hægt að missa framan af fingri fyrir þeirra tilstilli, eins og gamli íkornafóðrarinn í Prince's St. Gardens bar augljós merki. Svo það er eins gott að vera varkár.

Hins vegar sofa rauðu íkornarnir enn, því þeir eru u.þ.b tveimur mánuðum á eftir þeim gráu á fætur á vorin. Fyrir vikið missa þeir af miklu af matarforðanum og standa verr að vígi þegar þeir fara að myndast við að maka sig og koma upp ungum. Þetta ójafnvægi er nokkuð sem gleymdist að taka inn í reikninginn þegar gráu íkornarnir voru fluttir inn til að halda þeim rauðu í skefjum. Því er nú svo komið að gráu íkornarnir eru hálfgerð plága.

|

mánudagur, mars 01, 2004

Já, svo ég svari henni Helenu Evu sem er sætasta litla stelpa sem ég þekki, þá skammast ég mín fyrir að hafa ekki heimsótt hana og foreldra hennar háæruverðuga. Fattaði líka að svona stutt heimsókn væri alveg út í hött, sérstaklega þegar allur tíminn fór í að halda eitt skitið partí. Því verður næsta heimsókn lengri, afslappaðri og ekkert brjálað partí takk, bara matur, bjór og hygge. Hins vegar er fólk jú velkomið hingað yfir til mín anytime they want!

Nú, af afrekum helgarinnar má nefna að ég fékk, ásamt Villa Vill, Magnúsi Eiríks, Pálma Gunnars og Stuðmönnum, alla út á dansgólfið á þorrablótinu á laugardaginn. Meira að segja Sally Magnusson og systur hennar (hmm, veit ekki einu sinni hvað hún heitir...). Svo ég var sko ánægð. Mitt æðsta takmark þetta kvöld var nefnilega að það yrði dansað. Hér í borg er þorrablótið nefnilega búið klukkan tólf, ekkert djamm fram á rauða nótt eins og í Köben. En ég skemmti mér konunglega og allir sem með mér voru. Mun reyna að vísa á myndir af blótinu ef þær verða settar á netið.

Þess má geta, svona fyrir þá sem hafa deilt með mér áhyggjum af þessu tiltekna máli (Tóta ;-)), að hinn tannlausi virðist hafa látið setja upp stifttönn og er það hinn mesti munur.

Á sunnudaginn var svo bara afslappelsi, ætluðum að skoða Botanical Gardens í góða veðrinu en þar var búið að loka, svo við gengum um það huggulega hverfi og fórum svo á kaffihús. Þegar við komum heim um kvöldmatarleitið dauðþreytt áttum við eftir að skúra teiknistofuna (erum með svolitla kvöldvinnu hjá arkitektunum sem við leigjum hjá) og rétt höfðum það af og svo skriðum við upp í ból.

Gerum aðra tilraun við grasagarðinn í dag, ætlum að fá lánaðan bílinn hjá Limmu.

|