<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, mars 30, 2004

Úff, nú er ég víst búin að leggja nógu marga kapla þennan morguninn. Ég kem engu í verk með þessu áframhaldi. Í gær var ég búin að fá nóg af skrifstofunni um hádegi og fór heim í garðvinnu. Er að undirbúa matjurtabeðið mitt fyrir exótískustu uppskeru í heimi. Þ.e. ég nenni ekki að rækta rófur, kartöflur og grænkál, heldur fékk strax villtar hugmyndir um ætisþistla, aspas, eggaldin og þessháttar snobbplöntur...sjáum nú til hvað verður úr því. Ímyndið ykkur, ég stend í skjóli himinhárra grenitrjáa og sting upp beðin (væri stemmning að vera í vaxjakka...). Fram hjá mér ríða öðru hverju litlar hestepiger á smáhestum. Hundstíkin Molly liggur og sólar sig á grasbala. Hver myndi vilja skipta á þessu og rykfallinni skrifstofu...ekki ég! Eini skugginn sem fellur á stemmninguna eru hrópin sem reglulega rjúfa náttúrukyrrðina...”HELP, HELP!”. Þannig er nefnilega mál með vexti að við hliðina á okkur er elliheimili og mig grunar að vistmaður einn sé orðinn allsvakalega seníll og standi fyrir þessum hrópum. Við Guðmundur vorum að koma heim seint um kvöld í fyrsta skiptið sem við heyrðum í veslings manninum. Við héldum kannski að einhver væri í vandræðum í runnunum við bílastæðið en fundum engan. Svo kom hið sanna í ljós, og um daginn var þetta einkar hvimleitt, því hrópin kváðu við allan daginn með stuttu millibili, og hann þreyttist greinilega ekkert við þetta því alltaf voru þau jafnöflug-auk þess sem glugginn var opinn hjá honum.

Annars brá ég mér til Glasgow um helgina-ekki einu sinni heldur tvisvar. Var að skutla Guðmundi á flugvöllinn því hann ætlaði heim til Íslands, svona til að missa af vorinu hér. Þegar við komum á flugvöllinn á laugardagsmorguninn kom í ljós að það var ekkert flug á laugardögum og að hann hafði verið bókaður í flug 27. apríl. Allt Flugleiðum að kenna svo hann fékk flug daginn eftir, sem reyndist alvöru og hann komst heill á húfi beint í fermingarveislu. En við nýttum sem sagt ferðina og skoðuðum okkur aðeins um í Glasgow-fílum Edinborg betur, of course!

Fórum á frábæra bíómynd um kvöldið-Station Agent, sem við erum búin að bíða eftir síðan hún fékk verðlaun á BAFTA. Vissum í raun ekkert hvað hún fjallaði um en vorum spennt fyrir henni...og við höfðum haft ástæðu til. Myndin er um dverg sem er lestaáhugamaður-fer á lestafundi og býr til lestamódel og svona. Og hann er rosa töffari-kyndvergurinn íslenski er bara lúði (jafnvel í leðurdressinu í “Dvergunum sjö”)-hann er dökka, þögla týpan og fílar ekki þegar kúbanskur kaffi-og pylsusali fer að abbast upp á hann. Einhvers staðar sá ég henni líkt við Lost in Translation, en hún var bara kjánaleg miðað við þessa (enda fannst mér hún léleg...). Anyway, þegar við komum út af myndinni staulaðist náföl kona út úr öðrum bíósal og bar sig heldur illa, eigraði um í eigin heimi. Eitthvað var stumrað yfir henni og hún send aftur inn í sal. Kom í ljós að hún hafði verið búin að horfa á einungis þrjú kortér af Kristsbíómyndinni-átti klukkutíma og þrjú kortér eftir enn og þegar orðin svona illa farin...tssss...hvað mig langar ekkert til að sjá þennan viðbjóð. Man without a face var alveg nógu ógeðsleg fyrir mig.

|