<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Gunther, ó Gunther

Á Channel 4 hefur undanfarin síðkvöld verið sýndur þátturinn "Anatomy for beginners". Þeir sem þekkja mig bara eitthvað smá vita að ég ætti að sitja límd yfir þessum þætti. Hann er bara sýndur svo seint að ég hef hingað til verið komin í bólið og misst af honum. En í gær sat ég afróhress fyrir framan sjónvarpið og sá loksins þetta undur. Ég entist þó ekki nema tíu mínútur, ekki af því að þetta væri ógeðslegt, heldur af því að þetta var svo skrítið eitthvað.

Kynnirinn er í hvítum slopp, það getur vel verið að hann sé læknir, en hann er of mikill amerískur draumur til að ég trúi á hann. Þátturinn byrjaði á því að kynnirinn leiddi á sviðið allsnakinn, ungan, ljósabrúnan og ljóshærðan pilt og stillti honum upp fyrir framan myndvarpa sem varpaði upp mynd af meltingarkerfinu á kviðinn á honum. Svo tók við Gunther Von Hagens, sá hinn mikli snillingur sem stendur fyrir Body Worlds, sýningum á plastfylltum líkömum í ýmsum stellingum, mismikið sundurskornum. Svo vill nú til að ég er einmitt á póstlista hans því mig langar að sjá þessa sýningu ef hún verður einhvern tímann í nágrenni við mig. Nú, ég hef aldrei séð hann eða heyrt, en hann er bæði afskaplega óásjálegur og óáheyrilegur. Hann hefur mikinn þýskan hreim auk þess sem hann er svo hás að hann missir röddina öðru hverju. Svo er hann við þennan starfa alltaf með svartan filthatt, afskaplega skrítinn maður.

Gunther hafði auðvitað tekið með sér smá góðgæti í salinn, en það var fixeraður kvenmannslíkami eins og hann lagði sig, strengdur upp með vírum. Nú byrjaði hann að skera, skar hrygginn burt og opnaði vélindað. Svo fór hann fram fyrir líkamann, tróð rauðum leir upp í munninn, fór svo aftur fyrir og tók við leirnum þar sem hann kom aftur í kokið og potaði honum áleiðis niður vélindað.

Þarna hætti ég að horfa. Ég veit ekki hvort ég var of þreytt, hvort ég vorkenndi allsbera manninum of mikið (hann sást alltaf í bakgrunninum, standandi grafkyrr og allsber á meðan allir horfðu á formalínkonuna) eða hvort það var raddleysi Von Gunthers sem gerði útslagið. Kannski var það út af því að ég hef séð þetta allt áður og krufningastofan hefur aldrei verið minn uppáhaldsstaður. En ætli ég gefi þeim ekki séns í kvöld greyjunum...

|
Einmana frumkvöðull

Afró í gær var sveittara en nokkru sinni áður, fólk svolgraði í sig lítravís af vatni, örmagna og þvalt. En það fjölgaði ekkert í sturtuklefunum fyrir það. Ég er ekki sá frumkvöðull sem ég taldi mig vera, fólk kærir sig kollótt um þetta frík sem kýs að baða sig þegar það svitnar.

Annars uppgötvaði ég í morgun að ef maður borðar mangó þá er maður ropandi upp lýsisbragði lengi á eftir...spurning um að taka bara lýsi í staðinn.

|

miðvikudagur, janúar 26, 2005



Ógeðslegt? Neinei!

Það var ekki pláss í töskunni minni fyrir þessa góðu bók svo ég neyddist til þess að vera með hana í fanginu á ferðum mínum um bæinn í gær. Sat langar leiðir í strætó með þessa hræðilegu bókarkápu fyrir almenningssjónum. Fattaði ekki fyrr en ég kom heim hvurs lags hroði þetta er.

|

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Fertugur Breti var í gær dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir að senda 35 tölvuskeyti í nafni Thaílenska utanríkisráðuneytisins til ættingja fólks sem týndist í flóðbylgjunni í Asíu. Í skeytunum stóð að ættingjarnir væru látnir. Sumir af þessum týndu ættingjum komu svo í leitirnar skömmu síðar.

Getur þetta versnað?......Já:

Fyrir rétti bar hann við "tíu mínútna brjálæði" vegna sorgar sinnar og álags sökum eftirfarandi:
Fyrir 13 árum fæddist fyrsta barnið hans andvana.
Frændi hans dó nokkrum dögum fyrir jól, auk þess sem 12 ára sykursjúkur sonur hans var nærri dáinn (þetta er eins og í Eastenders!).
Hann hefur annast móður sína sem fékk brjóstakrabbamein og föður sinn sem fékk slag auk frænku sinnar sem er með Alzheimer (hahaha, góð tilraun).
Ó...þá skil ég ALVEG hvað þér gekk til, þú indælis samúðarfulla mannvera. Hérna, fáðu síðasta molann minn!

Fáviti....

|

mánudagur, janúar 24, 2005

Ooohh....Eins og það sé ekki nógu erfitt að einbeita sér hérna....Hérna á skrifstofunni minni er skrækur Kínverji sem samkjaftar ekki um sjúkdóma í vatnabufflum. Og viðmælandi hans er Tom, sem liggur alltaf óskiljanlega hátt rómur. Úúúúúffff...hækka í síðasta lagi fyrir fréttir.

|
Helgarbedriftur

Rosalega var ég dugleg að vakna í morgun, bara spratt á fætur um áttaleytið. Það var nú eitthvað annað en í gær, þegar ég vaknaði ekki fyrr en undir tvö, því ég hafði lent í rosa partíi í Leith á laugardagskvöldið. Sigrún "fóstursystir" mín bauð mér með stuttum fyrirvara í afmæli vinkonu sinnar og ég sló til.

Það var bara hörkustuð þarna-en þeir sem þekkja til vita að Leith er "the rough side of town" hér í Edinborg. Þarna var meðal annarra Dr Evil (ég er viss um að hann og Mike Myers eru skyldir) auk þess sem ég var kynnt fyrir stúlku sem er 1/8 íslendingur, Emma Johannesson heitir hún. Svo var ég látin éta ofan í mig stór orð um kunnáttu mína í portúgölsku. Hún er sem sagt engin. Það var brasilíumaðurinn Leo sem kom mér í skilning um það. Ég bað hann nefnilega að tala bara við mig portúgölsku allt kvöldið og ég skildi ekkert af því sem hann var að segja. En það var samt gaman að því, þetta er svo flott tungumál.

Klukkan fjögur kom nágranni og kvartaði, vildi fá að sofa í friði. Það var bara sagt jájá vinan og haldið áfram. Um fimmleytið komu aðrir nágrannar með stórt fat af haggis, neeps and tatties og vildu fá að taka þátt í glaumnum. Þau höfðu verið með Burns supper og voru til í meira.

Við Sigrún skreiddumst loksins heim klukkan sex og þá var ég aaalveg búin!

Sunnudagurinn fór ekki allur í vitleysu, ég sauð heilan pott af marmelaði og bakaði súrdeigsbrauð. En þá var ég líka alveg búin og fór í bælið aftur með ævisögu Sean Penn.

|

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Af skoskri svepparækt

Annar afrótíminn yfirstaðinn, þessi tími var sýnu hraðari en síðasti tími enda var ég dauðþreytt í gærkvöldi og svaf 11 tíma í nótt. Svo eru sturturnar þarna í DanceBase óvænt ánægja, ég hafði ekki átt von á góðum sturtum því ég Skotar eru ekki miklir aðdáendur almenningsbaða. Enda kom fljótt í ljós að það hefur ekkert breyst, því er ég sú eina sem notar þær!

Það eru átta sturtur á staðnum, búningsklefinn fullur af sveittum stúlkum og enginn fer í sturtu-það skella sér bara allir í fötin sín aftur og láta gott heita. Ég veit ekki hvort það er spéhræðsla eða einskær sóðaskapur sem stjórnar gerðum þessa fólks. Sama hvort það hafa þær varla hlotið mikla hreinlætisfræðslu í uppvextinum, því þetta býður upp á grósku sveppa og gerla, ojojojoj! En ég held áfram að spranga um allsber innan um sveittar stúlkur sem reyna að fara úr leikfimigallanum um leið og farið er í gallabuxurnar, svo það sjáist örugglega ekki í bert hold.

Sóðar!!

|

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Allt svo flókið....

Öfugt við bræður mína hef ég alltaf farið ákaflega vel með skó og reiðhjól. Það sér yfirleitt ekki á þeim eftir áralanga notkun. Verst er að sama máli gegnir um tannburstana mína. Ég get notað sama gripinn árum saman án þess að fatta hvað hann er orðinn gamall (ojojoj). En þó að gamli burstinn líti út fyrir að vera nýr, þá finn eg nú alltaf muninn þegar ég kaupi nýjan. Ég ákvað um daginn að skipta út þriggja ára tannbursta og kíkti því í tannburstadeildina eftir nýjum. Sá strax að viðbrigðin yrðu líklega meiri en venjulega-svona venjulegur bursti eins og sá þriggja ára fæst ekki lengur. Þetta er allt útsett í marglitum gúmmítotum, mishæðótt og fyrirferðarmikið. Ég keypti umfangsminnsta gúmmískrípið og hálfkveið vígslunni sem fór fram þetta kvöld. Burstinn fyllti út í hvoftinn á mér og það reyndist erfitt að hreyfa hann að nokkru gagni. Og auðvitað spýtti ég blóði eftir þessar aðfarir-hananú, maður fær bara berkla af þessum fjára!

Ég er búin að henda þeim gamla svo ég sit víst uppi með þetta tól. Ætti ég kannski að reyna að klippa gúmmítoturnar af? Við sjáum hvað setur, kannski er þetta bara spurning um vana....

Það var sagt frá mexíkóskum lýta"lækni" í gær sem viðhafði heldur frumstæðar aðferðir við vinnu sína með þeim afleiðingum að fjöldi fólks er afmyndað eftir hann. Það var sýnt myndband af aðgerð sem hann gerði á karlmanni sem óskaði sér stærri brjóstvöðva (ever heard of weight lifting? Even steroids?) og fékk snillinginn til þess að uppfylla þá ósk. "Læknirinn" notaði pönnukökuspaða sem sárahaka, hjakkaði með honum undir húð og tróð svo silikonbrjóstapúðum, ætluðum konum, þarna inn. Það var sýnd mynd af vesalings sjúklingnum sofandi með fínustu CC skálar. Dr Nick í Simpsons er greinilega til í alvörunni.

|

mánudagur, janúar 17, 2005

Totally Kosher

Ég skemmti mér vel í Sainsbury's í gær. Ég uppgötvaði nefnilega nýja deild sem ég vissi ekki að væri til hjá þeim: Gyðingadeildina. Hef ekki glaðst svona síðan ég uppgötvaði Contemporary deildina í Hennesen og Mauritsen. Hahahaha, það er ein hillustæða tileinkuð Gyðingavörum. Allt frá Memorial candles-"Ideal for Yom Kippur and Hanukkah" til "Happy families" sælgætispoka. Svo voru þarna alls konar "Kneidel" og "Lachniks". Ég dvaldi þarna lengi vel og skoðaði allt vandlega. Þessi eina hilla hafði meira aðdráttarafl á mig en restin af stórmarkaðnum í heild sinni. Svona á þetta að vera!

|

föstudagur, janúar 14, 2005

Rónni raskað en ró sinni haldið

Frábært! Sængin rétt farin að hlýna og ég dorma notalega milli svefns og vöku, og þá hringir síminn. Ætlaði rétt aðeins að láta föstudagsþreytuna líða úr mér en það var víst til of mikils mælst. Stekk þó fram í símann, aldrei að vita nema þetta sé einhver af Íslandi að segja mér hvað hann sakni mín mikið, léttist nú aðeins á mér brúnin að búast við því í einsemdinni. Tek upp tólið, syfjuð og ekki alveg með á nótunum. Í tólinu er enskumælandi vélbyssukjaftur, ég greini orð á stangli í flaumnum: "Hello...rattatttatttt...ips productions...ratattattt...pizza slice....rattattattt...downtown Edinburgh...ratttattat....some questions?". Eftir mínútukjafthátt er nú kviknað á perunni hjá mér og ég nýti mér öndunarpásu kauða til þess að segja "I'm not interested". Vá....æðislegt hjá ykkur að hringja svona klukkan átta á föstudagskvöldi, ég er viss um að heimilismenn berjast um að fá að svara spurningunum ykkar.....

....því af lýsingunum má auðvitað sjá að hér í Liberton House er svoleiðis fjólublátt ljós við barinn og rosalegt stuð að maður má ekkert vera að svona vitleysu....

Hugsaði það samt á leiðinni heim áðan að á föstudögum hlakka ég gjarnan til að sofa út daginn eftir. En þetta er bandvitlaust því auðvitað á maður að reyna að fá sem mest út úr helginni með því að vaka sem lengst, sem sagt vakna snemma og "få ting fra hånden", reka erindi og gera allt það sem hefur setið á hakanum. Svo ég ætla snemma í bólið-eftir að hafa horft á lokaþátt Little Britain-og vakna snemma til að fara í garðinn og svona, gera marmelaði og sitthvað fleira. Svo ekki sé minnst á bunkann af tölfræðigullkornum sem ég þarf að lesa. En meira af þessu afreki síðar, ef af því verður.

Ég skilaði af mér fyrstu tölfræðiupplýsingum til leiðbeinendanna. Elaine þegir þunnu hljóði en ég fékk strax tölvupóst frá Simon sem var einfaldlega: "THIS LOOKS FANTASTIC!!!". Hvort þeirra á ég að taka alvarlega?


|

fimmtudagur, janúar 13, 2005


Dansað gegn kvefi

Ég hef uppgötvað góða lækningu við hálsbólgu og sleni: afródans. Fór í minn fyrsta tíma af 12 í gærkvöldi með Bea og Jennu og kom út ný manneskja. Mætti hóstandi og slefandi með kirsuberjaauga en fór þaðan næstum því alheil, svaf eins og barn í nótt og er því endurnærð og hamingjusöm í dag. Hef meira að segja náð að gera eitthvað af viti, ekki seinna vænna þar sem þessi vika er senn á enda runnin. Af jólabókunum er það að frétta að ég grúska nú í þeirri seinustu, perlunni sem ég geymdi þar til síðast, en það er Gruk hans Piet Hein. Þar er sko að finna vísdóm sem má nota til að þagga niður allar efasemdir sem maður ber í hjarta yfir allflestu. Þetta er svona hentistefnubók-á einni síðu er mælt gegn svartsýni, en á þeirri næstu með henni-allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Til dæmis fann ég þetta litla gruk sem réttlætir slæpingsháttinn í mér fyrstu þrjá daga vikunnar:


HER OG NU
Livets kunst.

Hvad hjælper al
din kløgt og viden
hvis du har glemt
at spilde tiden

Gruk er orðskrípi sem Hein setti sjálfur saman úr orðunum grin (hlátur) og suk (andvarp, dæs(!)). Ég hugsa að ég kalli þetta hlæs frekar en hlandvarp, hvarp eða hlarp.

Nú, svo á ég auðvitað gimsteininn Íslenskt dýralæknatal eftir ólesinn, sá lestur verður frekar í uppflettistíl.

|

mánudagur, janúar 10, 2005

Er þreytt. Var andvaka. Halló dagur!!!

Já, jibbíjei, nú er skólinn hafinn á ný og ég berst við að finna áhugann. Það er djúpt á honum þó að verkefnið mitt eigi að heita afskaplega skemmtilegt. Ég er núna í kafi í tölfræðipælingum. Mér þótti gaman að tölfræði í dýralæknaskóla, var með svo skemmtilegan kennara-fékk meira að segja 11 á prófinu. Nú er ég hins vegar gjörsamlega andlaus, veit ekkert í minn haus, reikna fram og aftur en skil ekki baun. Úff.

Langar mest til að sitja undir sæng með jólabók-þeim ólesnu fer nú óðum fækkandi-var nærri búin að klára næstsíðustu í nótt, verandi andvaka, en píndi mig til að sofa í staðinn svona til að eiga eitthvað eftir af bókinni.

|