<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Gunther, ó Gunther

Á Channel 4 hefur undanfarin síðkvöld verið sýndur þátturinn "Anatomy for beginners". Þeir sem þekkja mig bara eitthvað smá vita að ég ætti að sitja límd yfir þessum þætti. Hann er bara sýndur svo seint að ég hef hingað til verið komin í bólið og misst af honum. En í gær sat ég afróhress fyrir framan sjónvarpið og sá loksins þetta undur. Ég entist þó ekki nema tíu mínútur, ekki af því að þetta væri ógeðslegt, heldur af því að þetta var svo skrítið eitthvað.

Kynnirinn er í hvítum slopp, það getur vel verið að hann sé læknir, en hann er of mikill amerískur draumur til að ég trúi á hann. Þátturinn byrjaði á því að kynnirinn leiddi á sviðið allsnakinn, ungan, ljósabrúnan og ljóshærðan pilt og stillti honum upp fyrir framan myndvarpa sem varpaði upp mynd af meltingarkerfinu á kviðinn á honum. Svo tók við Gunther Von Hagens, sá hinn mikli snillingur sem stendur fyrir Body Worlds, sýningum á plastfylltum líkömum í ýmsum stellingum, mismikið sundurskornum. Svo vill nú til að ég er einmitt á póstlista hans því mig langar að sjá þessa sýningu ef hún verður einhvern tímann í nágrenni við mig. Nú, ég hef aldrei séð hann eða heyrt, en hann er bæði afskaplega óásjálegur og óáheyrilegur. Hann hefur mikinn þýskan hreim auk þess sem hann er svo hás að hann missir röddina öðru hverju. Svo er hann við þennan starfa alltaf með svartan filthatt, afskaplega skrítinn maður.

Gunther hafði auðvitað tekið með sér smá góðgæti í salinn, en það var fixeraður kvenmannslíkami eins og hann lagði sig, strengdur upp með vírum. Nú byrjaði hann að skera, skar hrygginn burt og opnaði vélindað. Svo fór hann fram fyrir líkamann, tróð rauðum leir upp í munninn, fór svo aftur fyrir og tók við leirnum þar sem hann kom aftur í kokið og potaði honum áleiðis niður vélindað.

Þarna hætti ég að horfa. Ég veit ekki hvort ég var of þreytt, hvort ég vorkenndi allsbera manninum of mikið (hann sást alltaf í bakgrunninum, standandi grafkyrr og allsber á meðan allir horfðu á formalínkonuna) eða hvort það var raddleysi Von Gunthers sem gerði útslagið. Kannski var það út af því að ég hef séð þetta allt áður og krufningastofan hefur aldrei verið minn uppáhaldsstaður. En ætli ég gefi þeim ekki séns í kvöld greyjunum...

|