<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 14, 2005

Rónni raskað en ró sinni haldið

Frábært! Sængin rétt farin að hlýna og ég dorma notalega milli svefns og vöku, og þá hringir síminn. Ætlaði rétt aðeins að láta föstudagsþreytuna líða úr mér en það var víst til of mikils mælst. Stekk þó fram í símann, aldrei að vita nema þetta sé einhver af Íslandi að segja mér hvað hann sakni mín mikið, léttist nú aðeins á mér brúnin að búast við því í einsemdinni. Tek upp tólið, syfjuð og ekki alveg með á nótunum. Í tólinu er enskumælandi vélbyssukjaftur, ég greini orð á stangli í flaumnum: "Hello...rattatttatttt...ips productions...ratattattt...pizza slice....rattattattt...downtown Edinburgh...ratttattat....some questions?". Eftir mínútukjafthátt er nú kviknað á perunni hjá mér og ég nýti mér öndunarpásu kauða til þess að segja "I'm not interested". Vá....æðislegt hjá ykkur að hringja svona klukkan átta á föstudagskvöldi, ég er viss um að heimilismenn berjast um að fá að svara spurningunum ykkar.....

....því af lýsingunum má auðvitað sjá að hér í Liberton House er svoleiðis fjólublátt ljós við barinn og rosalegt stuð að maður má ekkert vera að svona vitleysu....

Hugsaði það samt á leiðinni heim áðan að á föstudögum hlakka ég gjarnan til að sofa út daginn eftir. En þetta er bandvitlaust því auðvitað á maður að reyna að fá sem mest út úr helginni með því að vaka sem lengst, sem sagt vakna snemma og "få ting fra hånden", reka erindi og gera allt það sem hefur setið á hakanum. Svo ég ætla snemma í bólið-eftir að hafa horft á lokaþátt Little Britain-og vakna snemma til að fara í garðinn og svona, gera marmelaði og sitthvað fleira. Svo ekki sé minnst á bunkann af tölfræðigullkornum sem ég þarf að lesa. En meira af þessu afreki síðar, ef af því verður.

Ég skilaði af mér fyrstu tölfræðiupplýsingum til leiðbeinendanna. Elaine þegir þunnu hljóði en ég fékk strax tölvupóst frá Simon sem var einfaldlega: "THIS LOOKS FANTASTIC!!!". Hvort þeirra á ég að taka alvarlega?


|