<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Kona í Suðurbænum hafði samband við vefstjóra í miklu uppnámi. Sagði hún sínar farir á bloggsíðu þessari ekki sléttar. Hafði hún í mesta sakleysi smellt á vefteljarann sem var og fengið í hausinn mikinn haug af stafrænum sora, dónaskap og viðbjóði. Vefstjóri brást skjótt við og fjarlægði vefteljarann því svona löguðu tekur hún ekki þátt í. Á heimasíðu vefteljarans kemur fram að þeirra styrktaraðili er Viagra. Eflaust einhver tenging þar á milli. Héðan af gildir hérna reglan "kvalitet frem for kvantitet" og heimsóknir því ekki taldar. Lifið heil


|
Accidents and health hazards in the workplace, bls 9

Venue: Postgraduate's room Easter Bush Veterinary Centre.
Victim: Silly Icelandic girl, "victim" to her own stupidity.
Accident/health hazard: Brisk inhaling through nose of herbal tea containing lemon and ginger.
Consequences: Continuous forceful sneezing for 15 minutes, disturbing the peace of other workers.
Preventive action taken: Herbal tea removed from girl, girl sent out to hall to sneeze off. If problem prevails, girl sent to detox clinic for herb addicts.

|
Fullkomið fólk

Eftirfarandi samtal kom einkar illa við mig, verandi í tilvistarkreppu:

Mjóa, sæta fyrirsætan með gullnu húðina (fíbbbl): Hvað gerirðu annars?
Ég: Ég er dýralæknir
Fíbbbl: Ó...vá, ég hef aldrei þekkt dýralækni áður
Ég brosi fallega, nikka og hugsa: Hrmpf...nákvæmlega það sem þú sagðir síðast...aargh

|

mánudagur, nóvember 22, 2004

Síðan síðast hef ég afrekað eftirfarandi:

Séð bænastund í tvinnadeildinni
Dansað "Merry Sergeant" og "Strip the willow" við feitan, sveittan Skota
Nærri sneitt af mér fingurgóminn

Fyrir helgi var ég var sem sagt stödd í vefnaðarvöruverslun sem er rekin af Múslimum-annað hvort pakistönskum eða indverskum. Annars hugar klappaði ég og strauk hverjum stranganum á fætur öðrum en þegar ég kom í skot sem bjó yfir grilljón tvinnakeflum í þúsund litum rakst ég þar á gamla konu sem kraup við bænir, reri fram og aftur og kastaði sér öðru hverju á grúfu. Og þetta var sko ekkert "Staff only" svæði, þetta var á almannafæri. Hún kippti sér ekkert upp við þetta enda eflaust hálfheyrnarlaus og blind en mér leið hálfgert eins og ég hefði komið að henni á klóinu.

Á laugardaginn fór ég svo á Ceilidh-skoskt þjóðdansakvöld. Það er alltaf jafngaman og ég náði að svitna eins og svín þrátt fyrir léttan klæðnað. Næst mæti ég með svitaband og í leikfimibol.

Í morgun ætlaði ég að vera algjör snilli og gera nesti. Ég á það til að vera mjög löt í eldhúsinu, sem lýsir sér einkum í því að ég "nenni" ekki að nota bretti, heldur sker grænmeti í lófanum á mér. Í morgun var ég of löt til að ná í skæri inn í stofu, heldur ákvað að opna ostinn með hníf í staðinn. Hann skrapp auðvitað til og ég náði að skera mig í vísifingurgóm inn að beini. Bévíti var það sárt, búin að vera með hjartslátt í fingrinum í allan dag en eftir að ég náði að líma þetta aftur hef ég bara ekki meikað að taka þetta út. Sjáum til hvort ég verð nokkru sinni góð á ný. Og sjáum til hvort ég læt þetta mér að kenningu verða og fari að nota réttu verkfærin í hvert sinn.

|

fimmtudagur, nóvember 18, 2004


Geldof snýr sér að Súdan

Nýja útgáfan á BandAid var gefin út í dag, kallast nú BandAid Twenty. Mér leist ekki par á þegar ég heyrði þetta fyrst í útvarpinu. Fékk þó leiðréttan þann misskilning sem ég hef greinilega gengið með í 20 ár að það sé kyrjað "freeeeeedooom, wooooooo, let them know it's...osfrv.", heldur er það "feeeeeed theeeee woooooorld, let them know...". Já svona getur maður verið kjáni.

Hins vegar var myndbandið frumflutt á samtengdum sjónvarpsrásum nú klukkan tíumínúturísex og þá leist mér strax betur á, því maður sér hver syngur hvað og svona. Reyndar stóð Paul McCartney og plokkaði sömu nótuna á bítlabassann sinn í öllu myndbandinu, veit ekki alveg hvað hann er að gera, en hinir stóðu sig bara vel. Svolítið skrýtið að heyra Dido anda sig í gegnum þetta líka, en bara fínt.

Þannig að ég veit ekki betur en það sé farið að líða að jólum, ha?

|

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Fyrst að Dabbi og Colin Powell eru sammála um að Íslendingar eigi að taka meiri þátt í rekstri varnarstöðvarinnar í Keflavík þá finnst mér að við eigum að fá að veita íslenskt vatn í Leifsstöð. Það er auðvitað afleit landkynning að bjóða upp á þynntan klór í kalda krananum.

|
Lífsreyndar kvensur

Símaði heim á Frón í gærkvöldi og fékk þá þær fréttir að Þorsteina frá Hanhól væri níræð. Þetta þóttu föður mínum góðar fréttir sem ég mætti ekki fara varhluta af. Var ég honum sammála þó ég hafi ekki verið svo lukkuleg að kynnast Þorsteinu. Hins vegar þótti okkur miður að nú sé hún kennd við elliheimilið Eir, því það er auðvitað alltof venjulegt fyrir Þorsteinu. Það vantar mikið ef það vantar Hanhól.




Og að annarri merkri konu, konan sem kenndi mér dönsku er látin á hundraðasta aldursári. Hefði hún ekki verið til kynni ég ekki orð eins og "reol", "pung" og "rødme", hefði ekki meikað nám í Danmörku og væri eflaust ekki dýralæknir í dag. Takk Sonja Rindom! Tugir mappna (hehehe) á æskuheimili mínu eru fullar af vísdómsorðum þínum, megi þau lærast kynslóð af kynslóð.


|

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Úffffff

Er rétt að jafna mig eftir 6 daga danska innrás. Ég var nú svo heppin að geta boðið gestunum sex hverjum sitt herbergi på slottet. Veit ekki hvernig ég eiginlega ætlaði að koma þeim öllum fyrir uppi hjá mér auk þess að hafa pláss til að halda eitt stykki julefrokost.

Dagskráin var þessi:
Miðvikudagur 10. nóvember: Christina og Heidi sóttar á flugvöllinn, kvöldinu eytt í litlu búðunum og kaffihúsunum í Grassmarket. Hygge.
Fimmtudagur 11. nóvember: Komst svolítið í skólann, Maja sótt á flugvöllinn um kvöldið, rauðvín og ostar til tvö.
Föstudagur 12. nóvember: Of þreytt til að fara í skólann. Hamast í IKEA til að kaupa síld og glögg, í ASDA til að kaupa heilan innkaupavagn af feitum mat og nóg af desertvíni. Var útúrstressuð allan morguninn við að bíða eftir Ditte, Julie og Tine sem voru einhvers staðar á leiðinni frá Newcastle í bílaleigubíl eftir nótt á vegahóteli með tveimur iðnaðarmönnum sem miskunnuðu sig yfir þær. Smsin gengu fram og til baka þar sem þær voru gjörsamlega rammvilltar og eru auk þess allar frekar fattlitlar. Þær skiluðu sér á endanum og þá var farið í gang með að elda kartöflur, grjónagraut og flæskesteg. Nú, við áttum fínan julefrokost þar sem var meðal annars keppt í sjómanni við undirleik Kim Larsen. Afskaplega skemmtilegt. Vona að myndirnar heppnist.
Laugardagur 13. nóvember: Allar frekar þreyttar. Fórum niður í bæ, röltum um í sólskini og kulda og settumst inn á kaffihús. Fórum svo á síðdegissýningu á Bridget Jones og borðuðum svo á hamborgarastaðnum Relish. Ekki mín síðasta heimsókn þangað. Eftir það fór ég með þær á stúdentapöbbinn Blind Poet og þær fengu sér skoskt öl-enda algjör skylda að þeirra mati. Um miðnætti biðum við svo í kuldanum í þrjú kortér eftir strætó en þegar hann loks kom föttuðum við að það var næturstrætó og kostaði 2,50 í staðinn fyrir 80 hættum við við og tókum leigara. Svona erum við miklir snillingar. Þegar heim kom vorum við allar að leka niður úr þreytu en bólfélagarnir við Tine lágum samt og töluðum til fjögur.
Sunnudagur 14. nóvember: Dagur heimferðar. Julie og Christina fóru í bílaleigubílnum að kaupa í morgunmatinn meðan við hinar gerðum hreint. Þeim tókst að bakka á stóran stein og rispa bílaleigubílinn. Höfðu ekki tekið tryggingu og eiga því von á að þurfa að borga 500 pund fyrir viðgerð. Reyndu að koma ábyrgðinni yfir á okkur allar sjö, en einhverjar mótmæltu. Ég var nú búin að segja þeim að taka lestina sem hefði tekið klukkutíma en ekki fjóra tíma, en við eigum eftir að sjá hver eftirmálinn verður...allar nema ein héldu heim á leið og hafa eftir því sem ég best veit skilað sér. Christina varð eftir hjá mér og við ákváðum að fá lánað video niðri og fara svo og leigja mynd. Á videoleigunni kom maður að máli við okkur og spurði hvort við værum danskar. Við sögðum bara já, og þá sagði hann að móðir sín hefði verið dönsk, konan sín væri dönsk og börnin töluðu dönsku. Svo gaf hann mér upp heimilisfangið sitt og sagði mér að koma í heimsókn og þá gætum við talað dönsku. Við sjáum nú til með það makker!
Svo þegar ég ætlaði að leigja þurfti ég að stofna reikning og fá kort og til þess þurfti ég að vera með tvö skjöl með heimilisfanginu mínu auk skilríkja með undirskrift. Þurftum því að brenna heim rétt fyrir lokun til að ná í þessi skjöl. Þetta hafðist allt því gullslegni pakistaninn í glansskyrtunni, með hárgreiðslu sem minnti á vængjaskó Hermesar var svo vingjarnlegur að hafa opið aðeins lengur bara fyrir okkur. Kvöldinu eytt í makindum við skjáinn, en samt kjaftað til hálffjögur í rúminu. Meikaði ekki skólann daginn eftir.
Mánudagur 15. nóvember: Tók Christinu með á rannsóknastofuna til að hnýta lausa enda frá vikunni áður, fórum svo í bæinn þar sem ég fékk sparikjól. Kom henni svo á rútu til Glasgow þaðan sem hún ætlaði að taka næturrútu til London (been there, done that, never doing it again!) og spóka sig þar áður en hún færi heim. Já, hún er nýútskrifuð og atvinnulaus, um að gera að njóta lífsins. Spennufall um kvöldið sem ég er enn að ná mér af.

Já, þetta var mín síðasta vika.

|

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Skumcenter

Sá skemmtilegt bílnúmer um daginn: D14 RHE (DIARHE)
Þeir sem eru sleipir í dönsku sjá að þarna stendur "steinsmuga", að undanteknu því að það vantar eitt "R". Flestir gæfu af sér annan handlegginn fyrir svona gullmola, seisei já.

Gerði mér ferð í búð sem ber það skemmtilega nafn "Foam" á Causewayside Road, en hún selur einmitt svampa í öllum stærðum og gerðum. Pabbi átti einmitt viðskipti við þessa sömu bútíkk þegar hann var hér ungur og áhyggjulaus námsmaður í kulda og trekk og vantaði eitthvað mjúkt til að liggja á. Svona erfast ýmsir eiginleikar í beinan kvenmannlegg. Ég hef einmitt haft á svona búllum mikinn áhuga síðan ég dvaldist í Höfn. Þar voru þær ekki óalgeng sjón og gegndu þar nafninu "Skumcenter". Ég hef ekki orðið vör við aðra eins skum/foam dýrkun á Íslandi. Skil bara ekki hvað það er sem Skotar og Danir stunda svona mikið en Íslendingar ekki... heima er svampurinn kannski svona undirheimathing sem ég er of gúddí til að fatta. Hver veit nema ég stofni svampklúbb Hafnarfjarðar og komist á forsíðu DV-now we´re talking!

Þess má geta að danska orðið fyrir sykurpúða (marshmallow) er skumfidus. Kemst ansi nærri "pulk" og "bambino" sem asnalegasta útlenska orðið. En þar sem það er danskt fyrirgefast því asnalegheitin.

|

mánudagur, nóvember 08, 2004



Ég átti mér Marilyn Monroe móment í dag. Nema það var ekki elegant og alls ekki sexí. Og það var napur norðanvindur en ekki hlýr holræsisgustur sem olli mínu mómenti. Stóð við hraðbanka í rokinu og vissi ekki fyrr en pilsið var á hraðleið uppeftir mér. Gat ekki borið hendur fyrir klof mér og brosað stríðnislega því ég var með fullar hendur...ja, ekki fjár heldur veskis, debetkorts og kvittunar. Þess vegna varð ég að kengbeygja mig svo ég gæti ýtt pilsgarminum niður með olnbogunum. Svo náttúrulega tróð ég seðlum, kvittunum og korti í næsta vasa, leit alls ekki í kringum mig og strunsaði áf stað eins og ekkert hefði í skorist (%#$@!!!!). Jæja, ég hef kannski létt einhverjum lífið í dag..

|

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Vikan...

Já, þetta virðast vera hálfgerðir vikupistlar hjá mér núorðið.

Þakka Heidi að ég drattaðist á lappir klukkan átta eins og ég ætlaði mér. Þegar gemsinn vakti mig í morgun sá ég að mín beið sms. Þar stóð: "Hvad sker der på Island, er der udbrud på Vatanakul?". Ég varð auðvitað að stökkva á fætur eins og spennt fjöður, tengja mig við Alnetið og tékka á fregnunum. Þetta stóð heima (þ.e. það var vissulega gos í Vatnajökli) og ég svona líka hress að ég fór í hlaupatúr með Molly eins og ég hafði hugsað mér í gærkvöldi. Það er nefnilega búið að breyta klukkunni sem gerir það að verkum að það er gífurlega grátt og drungalegt þegar maður kemur heim um fimmleytið á daginn og þá nennir maður engu. Hins vegar er bjart og sumarlegt klukkan átta á morgnana (enn sem komið er).

Svo gerði ég mér latte og ristabrauð og horfði á Trishu meðan ég borðaði. Það er svona hallærisþáttur sem maður ætti ekki að horfa á þar sem fólk kemur með sín persónulegu vandamál og Trisha blessunin hjálpar þeim. Það versta við að horfa á þennan þátt er að ég fæ alltaf titillagið á heilann og fer alltaf að flauta það sjálfkrafa-þá vita sko allir af hverju maður mætti of seint! Ég reyni að redda mér með því að grípa inní eftir fyrstu þrjá tónana og semja eftir eyranu eitthvað fáránlegt tónverk sem ég augljóslega myndi aldrei flauta ótilneydd. Veit ekki hvort fólk sér í gegnum mig.

Nú, ég mætti á rannsóknastofuna og gerði mitt dagsverk. Svo tók ég strætó í Newington og fór í skemmtilegan leiðangur. Byrjaði á að heimsækja gömlu garnsölukonuna í sótugu búðinni þar sem er ekki einu sinni pláss fyrir hana sjálfa. Í glugganum var skilti: "To my ladies: My second cataract OP will be Nov 9th, so will be closed from Tues to Fri". Já, en huggulegt. En, það var opið, sá reyndar ekki að hún væri með ský á auga, þó ég horfði djúpt í augun á henni. Keypti af henni 400 grömm af garni á 9 pund-ókei verð. Hins vegar var vandfundið, eins og annars staðar hér úti, 100% ullargarn. Ekki einu sinni Aran garnið (Aran er skoskt, sko), sem var bara 25% ull og 75% akrýl. Nú, svo fór ég í heilsubúð þar sem ég loksins fann rúgmjöl. Ég kom heim úr þessum leiðangri með rúgmjöl, garndokkur, brotið hveiti og bílasjampó, allt í sama poka. Þar styttist minnislistinn umtalsvert.

En ég verð á rannsóknastofunni þessa vikuna, svo það verður líklega langt í næsta pistil. Hins vegar tek ég venjulega strætó þangað, svo ég verð vonandi full af djúsí sögum. Til dæmis í morgun fann ég margs konar vondar lyktir af mörgu gömlu fólki...bara lítið dæmi!

PS: Þessi nýja Kastljósdama kann nú að koma fyrir sig orði...í inngangi hér áðan sagði hún að kjörsókn í Bandaríkjunum væri "yfirleitt ekkert sérstök"...fínt góða.

|