<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 22, 2004

Síðan síðast hef ég afrekað eftirfarandi:

Séð bænastund í tvinnadeildinni
Dansað "Merry Sergeant" og "Strip the willow" við feitan, sveittan Skota
Nærri sneitt af mér fingurgóminn

Fyrir helgi var ég var sem sagt stödd í vefnaðarvöruverslun sem er rekin af Múslimum-annað hvort pakistönskum eða indverskum. Annars hugar klappaði ég og strauk hverjum stranganum á fætur öðrum en þegar ég kom í skot sem bjó yfir grilljón tvinnakeflum í þúsund litum rakst ég þar á gamla konu sem kraup við bænir, reri fram og aftur og kastaði sér öðru hverju á grúfu. Og þetta var sko ekkert "Staff only" svæði, þetta var á almannafæri. Hún kippti sér ekkert upp við þetta enda eflaust hálfheyrnarlaus og blind en mér leið hálfgert eins og ég hefði komið að henni á klóinu.

Á laugardaginn fór ég svo á Ceilidh-skoskt þjóðdansakvöld. Það er alltaf jafngaman og ég náði að svitna eins og svín þrátt fyrir léttan klæðnað. Næst mæti ég með svitaband og í leikfimibol.

Í morgun ætlaði ég að vera algjör snilli og gera nesti. Ég á það til að vera mjög löt í eldhúsinu, sem lýsir sér einkum í því að ég "nenni" ekki að nota bretti, heldur sker grænmeti í lófanum á mér. Í morgun var ég of löt til að ná í skæri inn í stofu, heldur ákvað að opna ostinn með hníf í staðinn. Hann skrapp auðvitað til og ég náði að skera mig í vísifingurgóm inn að beini. Bévíti var það sárt, búin að vera með hjartslátt í fingrinum í allan dag en eftir að ég náði að líma þetta aftur hef ég bara ekki meikað að taka þetta út. Sjáum til hvort ég verð nokkru sinni góð á ný. Og sjáum til hvort ég læt þetta mér að kenningu verða og fari að nota réttu verkfærin í hvert sinn.

|