<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Vikan...

Já, þetta virðast vera hálfgerðir vikupistlar hjá mér núorðið.

Þakka Heidi að ég drattaðist á lappir klukkan átta eins og ég ætlaði mér. Þegar gemsinn vakti mig í morgun sá ég að mín beið sms. Þar stóð: "Hvad sker der på Island, er der udbrud på Vatanakul?". Ég varð auðvitað að stökkva á fætur eins og spennt fjöður, tengja mig við Alnetið og tékka á fregnunum. Þetta stóð heima (þ.e. það var vissulega gos í Vatnajökli) og ég svona líka hress að ég fór í hlaupatúr með Molly eins og ég hafði hugsað mér í gærkvöldi. Það er nefnilega búið að breyta klukkunni sem gerir það að verkum að það er gífurlega grátt og drungalegt þegar maður kemur heim um fimmleytið á daginn og þá nennir maður engu. Hins vegar er bjart og sumarlegt klukkan átta á morgnana (enn sem komið er).

Svo gerði ég mér latte og ristabrauð og horfði á Trishu meðan ég borðaði. Það er svona hallærisþáttur sem maður ætti ekki að horfa á þar sem fólk kemur með sín persónulegu vandamál og Trisha blessunin hjálpar þeim. Það versta við að horfa á þennan þátt er að ég fæ alltaf titillagið á heilann og fer alltaf að flauta það sjálfkrafa-þá vita sko allir af hverju maður mætti of seint! Ég reyni að redda mér með því að grípa inní eftir fyrstu þrjá tónana og semja eftir eyranu eitthvað fáránlegt tónverk sem ég augljóslega myndi aldrei flauta ótilneydd. Veit ekki hvort fólk sér í gegnum mig.

Nú, ég mætti á rannsóknastofuna og gerði mitt dagsverk. Svo tók ég strætó í Newington og fór í skemmtilegan leiðangur. Byrjaði á að heimsækja gömlu garnsölukonuna í sótugu búðinni þar sem er ekki einu sinni pláss fyrir hana sjálfa. Í glugganum var skilti: "To my ladies: My second cataract OP will be Nov 9th, so will be closed from Tues to Fri". Já, en huggulegt. En, það var opið, sá reyndar ekki að hún væri með ský á auga, þó ég horfði djúpt í augun á henni. Keypti af henni 400 grömm af garni á 9 pund-ókei verð. Hins vegar var vandfundið, eins og annars staðar hér úti, 100% ullargarn. Ekki einu sinni Aran garnið (Aran er skoskt, sko), sem var bara 25% ull og 75% akrýl. Nú, svo fór ég í heilsubúð þar sem ég loksins fann rúgmjöl. Ég kom heim úr þessum leiðangri með rúgmjöl, garndokkur, brotið hveiti og bílasjampó, allt í sama poka. Þar styttist minnislistinn umtalsvert.

En ég verð á rannsóknastofunni þessa vikuna, svo það verður líklega langt í næsta pistil. Hins vegar tek ég venjulega strætó þangað, svo ég verð vonandi full af djúsí sögum. Til dæmis í morgun fann ég margs konar vondar lyktir af mörgu gömlu fólki...bara lítið dæmi!

PS: Þessi nýja Kastljósdama kann nú að koma fyrir sig orði...í inngangi hér áðan sagði hún að kjörsókn í Bandaríkjunum væri "yfirleitt ekkert sérstök"...fínt góða.

|