<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Úffffff

Er rétt að jafna mig eftir 6 daga danska innrás. Ég var nú svo heppin að geta boðið gestunum sex hverjum sitt herbergi på slottet. Veit ekki hvernig ég eiginlega ætlaði að koma þeim öllum fyrir uppi hjá mér auk þess að hafa pláss til að halda eitt stykki julefrokost.

Dagskráin var þessi:
Miðvikudagur 10. nóvember: Christina og Heidi sóttar á flugvöllinn, kvöldinu eytt í litlu búðunum og kaffihúsunum í Grassmarket. Hygge.
Fimmtudagur 11. nóvember: Komst svolítið í skólann, Maja sótt á flugvöllinn um kvöldið, rauðvín og ostar til tvö.
Föstudagur 12. nóvember: Of þreytt til að fara í skólann. Hamast í IKEA til að kaupa síld og glögg, í ASDA til að kaupa heilan innkaupavagn af feitum mat og nóg af desertvíni. Var útúrstressuð allan morguninn við að bíða eftir Ditte, Julie og Tine sem voru einhvers staðar á leiðinni frá Newcastle í bílaleigubíl eftir nótt á vegahóteli með tveimur iðnaðarmönnum sem miskunnuðu sig yfir þær. Smsin gengu fram og til baka þar sem þær voru gjörsamlega rammvilltar og eru auk þess allar frekar fattlitlar. Þær skiluðu sér á endanum og þá var farið í gang með að elda kartöflur, grjónagraut og flæskesteg. Nú, við áttum fínan julefrokost þar sem var meðal annars keppt í sjómanni við undirleik Kim Larsen. Afskaplega skemmtilegt. Vona að myndirnar heppnist.
Laugardagur 13. nóvember: Allar frekar þreyttar. Fórum niður í bæ, röltum um í sólskini og kulda og settumst inn á kaffihús. Fórum svo á síðdegissýningu á Bridget Jones og borðuðum svo á hamborgarastaðnum Relish. Ekki mín síðasta heimsókn þangað. Eftir það fór ég með þær á stúdentapöbbinn Blind Poet og þær fengu sér skoskt öl-enda algjör skylda að þeirra mati. Um miðnætti biðum við svo í kuldanum í þrjú kortér eftir strætó en þegar hann loks kom föttuðum við að það var næturstrætó og kostaði 2,50 í staðinn fyrir 80 hættum við við og tókum leigara. Svona erum við miklir snillingar. Þegar heim kom vorum við allar að leka niður úr þreytu en bólfélagarnir við Tine lágum samt og töluðum til fjögur.
Sunnudagur 14. nóvember: Dagur heimferðar. Julie og Christina fóru í bílaleigubílnum að kaupa í morgunmatinn meðan við hinar gerðum hreint. Þeim tókst að bakka á stóran stein og rispa bílaleigubílinn. Höfðu ekki tekið tryggingu og eiga því von á að þurfa að borga 500 pund fyrir viðgerð. Reyndu að koma ábyrgðinni yfir á okkur allar sjö, en einhverjar mótmæltu. Ég var nú búin að segja þeim að taka lestina sem hefði tekið klukkutíma en ekki fjóra tíma, en við eigum eftir að sjá hver eftirmálinn verður...allar nema ein héldu heim á leið og hafa eftir því sem ég best veit skilað sér. Christina varð eftir hjá mér og við ákváðum að fá lánað video niðri og fara svo og leigja mynd. Á videoleigunni kom maður að máli við okkur og spurði hvort við værum danskar. Við sögðum bara já, og þá sagði hann að móðir sín hefði verið dönsk, konan sín væri dönsk og börnin töluðu dönsku. Svo gaf hann mér upp heimilisfangið sitt og sagði mér að koma í heimsókn og þá gætum við talað dönsku. Við sjáum nú til með það makker!
Svo þegar ég ætlaði að leigja þurfti ég að stofna reikning og fá kort og til þess þurfti ég að vera með tvö skjöl með heimilisfanginu mínu auk skilríkja með undirskrift. Þurftum því að brenna heim rétt fyrir lokun til að ná í þessi skjöl. Þetta hafðist allt því gullslegni pakistaninn í glansskyrtunni, með hárgreiðslu sem minnti á vængjaskó Hermesar var svo vingjarnlegur að hafa opið aðeins lengur bara fyrir okkur. Kvöldinu eytt í makindum við skjáinn, en samt kjaftað til hálffjögur í rúminu. Meikaði ekki skólann daginn eftir.
Mánudagur 15. nóvember: Tók Christinu með á rannsóknastofuna til að hnýta lausa enda frá vikunni áður, fórum svo í bæinn þar sem ég fékk sparikjól. Kom henni svo á rútu til Glasgow þaðan sem hún ætlaði að taka næturrútu til London (been there, done that, never doing it again!) og spóka sig þar áður en hún færi heim. Já, hún er nýútskrifuð og atvinnulaus, um að gera að njóta lífsins. Spennufall um kvöldið sem ég er enn að ná mér af.

Já, þetta var mín síðasta vika.

|