<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, október 12, 2004

Dionysos í tunnunni

Ætti að vera að æfa og betrumbæta fyrirlesturinn sem ég á að halda fyrir fullan sal af fólki á morgun (skjálf, skjálf). Kem mér bara ekki að því. Þetta er kannski einhver undankomufídus hjá mér. Hafði svo sem alla helgina til þess, en valdi þess í stað að vera í garðinum að taka upp gulrætur og lauka. Sultaði svo og sauð niður eins og ég hefði tíu munna að metta.

Í gærkvöldi sá ég svo ansi góðan þátt, "Bob Geldof on Marriage". Hann er bara ansi kvikk náungi, auk þess sem írski hreimurinn er dæmalaust kumpánlegur, maður trúir engu illu upp á svona rúllandi Íra. Hann var þarna sem sagt að kanna örlög hjónabandsins á þessum síðustu tímum og gerði það ansi vel. Kom fram að börn úr brostnum hjónaböndum eiga erfiðara uppdráttar en þau sem búa með báðum foreldrunum.

Það fylgdi þó ekki sögunni að hann elur nú upp þrjú börn frá brostnu hjónabandi, auk dóttur hinnar fyrrverandi og hennar ástmanns en þau frömdu bæði sjálfsmorð eins og vitað er. Kannski er það þess vegna sem hann var svona brennandi í þessarri rannsókn sinni. Það kom líka fram að margir gifta sig í dag fyrir brúðkaupsdaginn sjálfan og fatta ekki að svo koma dagar eftir þann dag og þá er maður altså giftur og þarf að taka tillit til þarfa og óska annarra. Og þá var líka rætt um "I´m worth it, I deserve it" pælingarnar-fólk er svo vant því að fá það sem það vill að ef það sér einstakling í vinnunni sem það girnist, að þá á það skilið að fylgja þeirri girnd. Frekar en að standa undir skuldbindingunum og bara láta svoleiðis ekki eftir sér.

Og við konurnar sem eru að hamast upp metorðastigann segir hann: "When you come home and your day has been shite, and she has done something nice, cooked dinner or something, that is really sexy". "Já, mikið er ég sammála", hugsaði ég, búin að standa í sultugerð alla helgina...

Jæja, þetta var heimspekipistill mánaðarins-það er svona þegar maður hefur engan til að ræða málin við-Netið sér um sína!

|