<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 29, 2004

Djalla dáin?

Nú halda lesendur kannski að í síðustu færslu hafi ég hlakkað svo til helgarfrísins að ég hafi gert það að vikufríi. Það er ekki rétt. Ég hef nefnilega síður en svo verið í fríi. Ég hef bara aldrei þessu vant haft nóg að gera. Sem er mjög gott. Þegar ég er dugleg að blogga þá liggur doktorsverkefnið steindautt. Það er skammarlegt, en satt.

Er sem sagt búin að vera í hvítum slopp við rannsóknastörf alla vikuna. Og það er bara rosa gaman. Á þriðjudaginn var ég svo mikið að pípettera að ég gleymdi að borða frá hálftíu til hálfsex og dróst heim nær dauða en lífi. Now this is dedication-hvað gerir maður ekki fyrir vísindin.

Og ég er líka búin að vera dugleg í félagslífinu, aldrei þessu vant. Ég fór á tónleika tvö kvöld í röð, með sömu hljómsveitinni, samt ekki í sömu borginni. Íslenska hljónstin Ske var með tónleika í Glasgow og svo kvöldið eftir í Edinborg. Og Bógómíl Font tók í hendina á mér og þakkaði fyrir komuna. Hann er sko að tromma með Ske. Og Guðmundur Dennason er stórskrítinn maður. Hann átti afmæli í gær og það skríkti í honum og hann hoppaði og híaði við hljómborðið. Og Ragnheiður Gröndal var líka með þeim. Ég keypti rauðan bol með leðurblöku og litlu "ske" á. Mér fannst leðurblakan bara svo kúl...og þetta er í fyrsta skipti sem ég kaupi tónleikabol sem passar....og nei, ég er ekki að segja að ég sé feit, það eru bolirnir sem eru of litlir (víííst!). Það eru sko alltaf svona feitir sveittir kallar fyrir utan að selja boli sem eru annað hvort nógu stórir á þá sjálfa (Gents) eða þrettán ára frænkur þeirra (Ladies) og ekkert þar á milli...

Upphitunarbandið í Glasgow var skoskt og hét My Latest Novel og mig langar rosalega í disk með þeim. Þau eru bara ekki búin að gefa út disk...

Senst velheppnuð vika og gaman að lifa.

|