<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júní 29, 2007

Textabrot dauðans

Jæja elskurnar, eruð þið ekki öll full af tærri tryggð og tárlaust yfirskyggð af ást? Nei, segi bara svona...

|

miðvikudagur, júní 27, 2007

Afrek dagsins

Úff, gærkvöldið endaði á því að ég borðaði lasagna niðri með stórfjölskyldunni auk Guinnes-liðsins. Það var því ekki skrifað það kvöldið, en skriftir höfðu gengið gífurlega vel yfir daginn svo það var í lagi. Þar sem ég var svona búin eftir daginn eins og fyrri færsla ber vitni um náði ég ekki að halda mér vakandi yfir bók vikunnar á miðnætti og vaknaði því upp með andfælum við ólukkans Sailing By. Meiri ólukkan sem þessi árans músík er!

Vaknaði með endemum ringluð í morgun, þó ekki með blóðtauma niður hökuna eins og í gærmorgun (don't ask) og er að reyna að halda mér við efnið. Það gengur brösulega eins og sjá má.

|

þriðjudagur, júní 26, 2007

Þreyta...aaaaahhh!

Komst heim áðan við illan leik, alveg að leka niður úr þreytu og hefði getað sofnað við stýrið á gatnamótunum við Captain's road ef ekki hefði verið lakkrískonfektið sem hélt blóðsykrinum uppi. Var þá ekki Guinnesfjölskyldan með útskriftarveislu hér fyrir dóttur sína og ég sem bar af mér allar bænir um að koma niður sökum þreytu og almennra tuskulegheita fékk bara kampavínsglas upp á skör sem ég gat tekið með mér í langt heitt bað og eftir það varð ég nú að sýna af mér kæti! Lenti á spjalli um hrossarækt og merarleg (hann spurði, ég reyndi að halda þessu leyndu, það er ekki eins og ég beri þetta á borð fyrir hvern mann, sérstaklega núna þegar ég er búin að fá upp í háls!) og þótti ég bara sleppa ágætlega frá því. Svo kom einher hoity toity yfirstéttarkona og fór að tala um Íslendinga á snobbaðan hátt og segja brandara sem ég skildi ekki, bæði fyrir talandann sem var óskiljanlegur og menningargjána sem á milli okkar var. Ég tók því ekki þátt í þessu stundinni lengur. Pah!

|
Hálfneikvæð, en samt jákvæð

Ég var ein heima með Mollie um helgina og gerði mitt besta til að klára innganginn. Sat niðri í eldhúsi og hlustaði á BBC 6 music sent frá Glastonbury, með kaffi í bolla og ruslaði mér gegnum hrúgur af vísindagreinum. Eina truflunin sem ég varð fyrir var stúlkukind sem kom til að kaupa af mér hjólið mitt. Ég var ekkert smá stolt yfir því að selja það, fékk fyrir það 60 pund sem er algjör fjársjóður fyrir fátækan námsmann.

En allt kom fyrir ekki, ég náði ekki að klára innganginn fyrir mánudagseftirmiðdag eins og ég hafði lofað Simoni og fékk því dagsfrest þar til núna. Viti menn, var að enda við að senda þetta til hans. Alls ekki klárað, en það er komin ansi góð mynd á þetta.

Gærdagurinn fór nefnilega í eitthvað rugl, ég var svo ómótiveruð að ég stikaði um gólf í algjöru ofvirknikasti og gat ekki sest niður og einbeitt mér að lífefnafræðinni í kringum matrix metalloproteinases, funnily enough. Ég einbeitti mér þess vegna að því að pakka niður í kassa og þrífa eldhúsið og svona. Ég virðist bara alls ekki vera sá öreigi sem ég ímyndaði mér, því ég á margar kassafyllir af jarðneskum eigum, og er ég þó búin að fleygja nokkuð miklu í nytjagám.

Og já, í dag er afmælisdagurinn mikli, en í dag eiga afmæli hvorki meira né minna en fimm manns sem ég þekki (til hamingju, þið vitið hver þið eruð!), auk tveggja frægukalla sem ég veit um. Svo ekki sé minnst á þá sem áttu afmæli í gær og fyrradag og svo líka á komandi dögum. Jahérnahér!

|

föstudagur, júní 22, 2007

Sailing By

Alltaf eftir fréttirnar á miðnætti á BBC Radio 4 er útvarpssagan endurtekin. Það er afskaplega huggulegt að sofna við lestur á BBC ensku og væri ég til í það á hverju kvöldi. Einn stór hængur er þar á, því eftir útvarpssöguna taka við shipping news, eða "veðrið á miðunum". Nú væri ekki síðra að sofna út frá "Faeroes, South-East Iceland. Variable becoming westerly 3 or 4, increasing 5 or 6 in west, veering northerly later. Slight or moderate. Showers. Good" en hins vegar er kynningarlag þessa dagskrárliðs viðurstyggðin "Sailing By". Ég fyllist skelfingu þegar lestri útvarpssögunnar lýkur og ég veit að nú á ég á hættu að gubba úr viðbjóði. Svefnhöfginni léttir samstundis og ég rýk fram úr til þess að slökkva áður en ég heyri þverflauturnar sem spila óríentalska tónstiga og eiga líklega að tákna merl hafsins og bylgjur sem hníga og rísa. Þegar þetta hefur staðið í nokkrar sekúndur taka svo við fiðlustrengir sem ómþýtt spila laglínuna sem er algjör lagleysa. Ég get ekki lýst þessu betur en þetta, en þetta lag er algjör hroði.

Jæja, verð að rjúka á fund.
Góða nótt.
C

|

miðvikudagur, júní 20, 2007

Hipp og kúl?

Íslendingar teljast í meira lagi nýjungagjarnir og duglegir að tileinka sér nýja tækni. Stundum eru þeir þó svo langt á eftir að þeir ná í skottið á sjálfum sér og verða hipp og kúl vegna þess að aðrar þjóðir byrja að snobba fyrir fortíðinni.

Eitt dæmi um það er saga sem Maja Maack sagði í líffræðitíma einhverju sinni er hún agiteraði fyrir endurnýtingu og -vinnslu. Þannig var að hún fékk heimsókn frá amerískum kollegum sem höfðu sömu framúrstefnulegu hugmyndir og hún sjálf varðandi náttúruvernd. Þeir voru yfir sig hrifnir að Íslendingar skyldu vera svona langt á undan öllum öðrum þjóðum að aðeins væri hægt að fá kók í gleri og flöskurnar væru þvegnar og endurnýttar! Nokkrum árum síðar héldu svo plast- og álumbúðirnar innreið sína.

Annað dæmi vakti athygli mína í vikunni en þar er um að ræða áfengislöggjöf og -reglugerðir Íslendinga. Ég sá nefnilega fréttaskýringaþátt á Channel 4 um slæm áhrif þess að áfengi skuli vera svo ódýrt og auðvelt að nálgast í Bretlandi. Afleiðingarnar eru meðal annars skorpulifur sem fleira og fleira fólk á þrítugsaldri á við að etja. Það hefur farið gífurlega vaxandi að það sem kallað er "young professionals" drekki vín á hverju kvöldi og það veldur sífelldu álagi á lifrina, þó á lágu stigi sé. Í þættinum var vegfarendum boðið að gangast undir greiningu á lifrarensímum í blóði og sónarskoðun á bandvefjarinnihaldi í lifur. Niðurstöðurnar voru skelfilegar, fólk sem ekki er orðið þrítugt og telur sig reglumanneskjur virðist hafa einkenni mikils álags á lifrina. Nú er spurning hvað annað getur valdið þessu, mataræði og fleira, en þetta getur ekki verið eðlilegt.

Niðurstaða þáttarins var sem sagt að helst skyldi hækka verð umtalsvert á öllu áfengi, auk þess að setja hömlur á sölustaði áfengis, sem sagt banna sölu á áfengi í matarbúðum, sem þykja bera sökina vegna gífurlega ódýrra tilboða á bjór og víni. Ég spyr því: eru Íslendingar á undan eða eftir?

|

föstudagur, júní 15, 2007

Drukkið sig í svefn

Í þessum skriftaham sem ég er nú á ég afskaaaplega erfitt með að sofna á kvöldin. Í gærkvöldi var ég búin að "lege grillkylling", þ.e. velta mér stanslaust, tímunum saman án þess að geta sofnað og brá því á það ráð þegar klukkan var að verða tvö að fara fram og ná mér í viskítár og fara með upp í rúm. Sat og sötraði Speyside og horfði á Green Wing undir sæng og var því orðin mátulega þreytt klukkan þrjú til þess að geta sofnað. Kannski ætti ég bara að nota mér af þessum aukatímum í sólarhringnum til þess að vinna vinnuna mína frekar en að sitja í eins manns kojufylleríi?

|

miðvikudagur, júní 13, 2007

BRÖSTE

Neikvæðnin entist ekki lengi, því nú er ég aftur búin að finna í mér þessa óþolandi bjartsýnismanneskju sem ég er. Hins vegar hefði ég kannski tamið mér meiri neikvæðni hefði ég vitað að það vekti svona mikil viðbrögð lesenda minna! Ég reyni því í framtíðinni að hafa allt á hornum mér svona eins og einu sinni í mánuði, bara til að halda fólki við efnið. Hins vegar finnst mér nú að ég eigi skilin bjartsýnisverðlaun Bröstes fyrir endingarbesta bjartsýniskeið. Annars er titill þessara verðlauna villandi, því mér hefur allatf fundist þessi verðlaun vera álíka og "vinsælasta stúlkan", svona verðlaun sem þýða: "Gott hjá þér að reyna, en þetta tekst aldrei hjá þér. Að þú skulir ekki fatta það!". En, aftur að kjarna málsins...

Í gær átti ég sko alveg frábæran fund með Simon þar sem við bara rusluðum af svona eins og 5 málefnum, þar með töldum þremur handritum og heilum inngangi að ritgerðinni (eða þannig sko, þarf nú víst mikið að breyta honum). Svo talaði ég við Elaine áðan og hún óskaði mér til hamingju með jákvæðu viðbrögðin sem ég fékk við greininni sem þó var hafnað. Þessar jákvæðu athugasemdir voru ekki í miklum tengslum við ákvörðun ritstjórans. Það virðist nefnilega vera að hið háttvirta vísindarit Reproduction sé búið að ákveða að það hafi ekki áhuga á stórgripum eins og til dæmis hrossum, heldur vilji kafa ofan í leghol músa og kvenna fremur öllu öðru. Þeir eru vanir því að það sé hægt að hanna mýs sem þjást af þeim kvilla sem þeir hyggjast rannsaka, margfalda þær með 1000 og fá útkomuna sem þeir vilja.

Hryssur eru ekki þeim eiginleikum búnar. Þær bera alvöru klíníska kvilla sem ekki er hægt að kveikja og slökkva á, og því þarf að rannsaka þá í þeim en ekki í músum. Aular! Hah, þannig að nú hyggjumst við skrifa vonbrigðabréf til ritstjórans og Elaine segir að ef þeir hafi ekki áhuga á hrossum lengur þá sé nú líklega ekki mikil ástæða fyrir hana að sitja áfram í ritstjórninni. Hahahah, þeir vita ekki hvað þeir eiga við að etja.

Já, og svo vildi ég enda á orðinu eksempelvis sem ég sá vitlaust skipt milli lína í Urban um daginn svo þar stóð eksem-pelvis. Þannig fær það allt aðra merkingu sem gæti leitt af sér ferð á húð og hitt. Og svo er líka til fólk sem heldur að heldigvis sé blótsyrði.

Jæja, best að snúa sér að verkefnum dagsins.
Tschuss

|

laugardagur, júní 09, 2007

End of the world

Ég skilaði henni Tine minni út á flugvöll í gær og virðist nú kjölfarið vera að steypast niður í hyldýpi vonleysis og einmanaleika. Þar hjálpar ekki höfnunin sem ég fékk á handritið mitt, lokunin á netbankaaðgangnum, krítarkortsreikningurinn sem ég hef ekki efni á að greiða, já bara almennt peningavesen.

Ég á því erfitt með að magna upp nægan metnað til þess að klára þessa asnalegu kafla sem ég á eftir. Mér finnst þetta allt mjög óáhugavert og ekki hjálpa athugasemdirnar sem ég fékk frá gagnrýnendunum á handritið. Erfitt er að sjá fram á að ég komist nokkurn tímann upp úr þessu rugli og spurning hvort ég eigi ekki bara að sleppa þessu drasli.

Það fer ekki milli mála að jákvæðnikastinu er hér með lokið!

Now sod off and leave me alone. I am miserable company anyway. Ó, hjálpi mér allir heilagir!

|

sunnudagur, júní 03, 2007

Öfgarnar í bíó

Herra minn trúr, hvernig gat ég látið gabba mig út í þetta sjóræningjaæði? Ég var fyllilega ánægð með að hafa hvorki séð númer eitt né tvö af þessum kjánaskap þar til ég sá þá fyrstu með frændum mínum barnungum. Þetta var svo sem þolanlegt. Núna lét ég svo vini mína gabba mig með á þá þriðju, og hamingjan góða hvílíkt endemis rugl og lopateygja! Ég var að farast úr áhugaleysi og leiðindum. Eini sem eitthvað vit var í var auðvitað Bill Nighy, sem því miður var í líki kolkrabba mestallan tímann, en státaði af alveg ágætum skoskum hreim og átti tíu sekúndur í mannslíki, sem var bara held ég minn hápunktur.

Svo skulum við ekki ræða fröken Knightley sem virðist vera með kjálkann víraðan sman svo honum er skotið ansi vel fram og hefur auk þess ekki mikil tök á að opnast. Svo klemmir hún líka nasirnar saman í því sem hún setur upp skúffuna og lítur út eins og smábarn sem er að gera eitthvað í bleyjuna....en nóg um hennar leiksigur.

Þá er eitthvað annað sú fyrirtaks kvikmynd sem við Bea sáum á fimmtudaginn, loksins eftir nokkrar tilraunir. Það er hin raunsanna "Das Leben der Anderen" sem fjallar um samskipti Stasi við almúgann. Frábær alveg. Sjáið hana. Nenni ekki að skrifa meira, farið bara og sjáið hana.

|

laugardagur, júní 02, 2007

Hráfiski föstudagsins

Í gærkvöldi var ég á sushistað í Dalry/Haymarket með fjórum góðum vinum. Þar sem við sátum við gluggann og spjölluðum sá ég kunnuglegt andlit líða fram hjá og fattaði sekúndubroti síðar að þar var á ferðinni Mummi í Mótorsmiðjunni (eða hvað sem þetta heitir, þið vitið, þessi grá-hálfsíðhærði í leðurjakkanum. Sko ekki hinn þarna) með kvensu sinni. Hvað eru þau að gera á röltinu í Dalry? Langt frá öllum ferðamönnum sem halda sig aðallega á Princes Street.

Annars var maturinn góður og félagsskapurinn ekki síðri. Andy hennar Bea sem er frá Tayside komst meðal annars að því að ég er "a fellow Scotsman", eða þannig, og vildi því endilega gefa mér skoskt nafn. Vegna föðurnafns míns, sem honum finnst hljóma svipað og stoatin' (sem þýðir fullur á scots) fékk ég því viðurnefnið Stoatin' Mary. Hmmm.....? Og svo þegar ég ætlaði að hefna mín datt mér ekkert sniðugt íslenskt nafn í hug fyrir hann, en hann heitir því þjóðlega nafni Andrew Duncan Livingston. Einhverjar hugmyndir?

Og að lokum: Hvað á hún eiginlega að þýða, þessi ljósmynd sem fylgir þessari frétt um kynlífslöngun danskra karlmanna? Ef þeir hafa notað hana í könnuninni þá er ég ekki hissa að staðið hafi á viðbrögðunum.

|