<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 20, 2007

Hipp og kúl?

Íslendingar teljast í meira lagi nýjungagjarnir og duglegir að tileinka sér nýja tækni. Stundum eru þeir þó svo langt á eftir að þeir ná í skottið á sjálfum sér og verða hipp og kúl vegna þess að aðrar þjóðir byrja að snobba fyrir fortíðinni.

Eitt dæmi um það er saga sem Maja Maack sagði í líffræðitíma einhverju sinni er hún agiteraði fyrir endurnýtingu og -vinnslu. Þannig var að hún fékk heimsókn frá amerískum kollegum sem höfðu sömu framúrstefnulegu hugmyndir og hún sjálf varðandi náttúruvernd. Þeir voru yfir sig hrifnir að Íslendingar skyldu vera svona langt á undan öllum öðrum þjóðum að aðeins væri hægt að fá kók í gleri og flöskurnar væru þvegnar og endurnýttar! Nokkrum árum síðar héldu svo plast- og álumbúðirnar innreið sína.

Annað dæmi vakti athygli mína í vikunni en þar er um að ræða áfengislöggjöf og -reglugerðir Íslendinga. Ég sá nefnilega fréttaskýringaþátt á Channel 4 um slæm áhrif þess að áfengi skuli vera svo ódýrt og auðvelt að nálgast í Bretlandi. Afleiðingarnar eru meðal annars skorpulifur sem fleira og fleira fólk á þrítugsaldri á við að etja. Það hefur farið gífurlega vaxandi að það sem kallað er "young professionals" drekki vín á hverju kvöldi og það veldur sífelldu álagi á lifrina, þó á lágu stigi sé. Í þættinum var vegfarendum boðið að gangast undir greiningu á lifrarensímum í blóði og sónarskoðun á bandvefjarinnihaldi í lifur. Niðurstöðurnar voru skelfilegar, fólk sem ekki er orðið þrítugt og telur sig reglumanneskjur virðist hafa einkenni mikils álags á lifrina. Nú er spurning hvað annað getur valdið þessu, mataræði og fleira, en þetta getur ekki verið eðlilegt.

Niðurstaða þáttarins var sem sagt að helst skyldi hækka verð umtalsvert á öllu áfengi, auk þess að setja hömlur á sölustaði áfengis, sem sagt banna sölu á áfengi í matarbúðum, sem þykja bera sökina vegna gífurlega ódýrra tilboða á bjór og víni. Ég spyr því: eru Íslendingar á undan eða eftir?

|