<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, júní 13, 2007

BRÖSTE

Neikvæðnin entist ekki lengi, því nú er ég aftur búin að finna í mér þessa óþolandi bjartsýnismanneskju sem ég er. Hins vegar hefði ég kannski tamið mér meiri neikvæðni hefði ég vitað að það vekti svona mikil viðbrögð lesenda minna! Ég reyni því í framtíðinni að hafa allt á hornum mér svona eins og einu sinni í mánuði, bara til að halda fólki við efnið. Hins vegar finnst mér nú að ég eigi skilin bjartsýnisverðlaun Bröstes fyrir endingarbesta bjartsýniskeið. Annars er titill þessara verðlauna villandi, því mér hefur allatf fundist þessi verðlaun vera álíka og "vinsælasta stúlkan", svona verðlaun sem þýða: "Gott hjá þér að reyna, en þetta tekst aldrei hjá þér. Að þú skulir ekki fatta það!". En, aftur að kjarna málsins...

Í gær átti ég sko alveg frábæran fund með Simon þar sem við bara rusluðum af svona eins og 5 málefnum, þar með töldum þremur handritum og heilum inngangi að ritgerðinni (eða þannig sko, þarf nú víst mikið að breyta honum). Svo talaði ég við Elaine áðan og hún óskaði mér til hamingju með jákvæðu viðbrögðin sem ég fékk við greininni sem þó var hafnað. Þessar jákvæðu athugasemdir voru ekki í miklum tengslum við ákvörðun ritstjórans. Það virðist nefnilega vera að hið háttvirta vísindarit Reproduction sé búið að ákveða að það hafi ekki áhuga á stórgripum eins og til dæmis hrossum, heldur vilji kafa ofan í leghol músa og kvenna fremur öllu öðru. Þeir eru vanir því að það sé hægt að hanna mýs sem þjást af þeim kvilla sem þeir hyggjast rannsaka, margfalda þær með 1000 og fá útkomuna sem þeir vilja.

Hryssur eru ekki þeim eiginleikum búnar. Þær bera alvöru klíníska kvilla sem ekki er hægt að kveikja og slökkva á, og því þarf að rannsaka þá í þeim en ekki í músum. Aular! Hah, þannig að nú hyggjumst við skrifa vonbrigðabréf til ritstjórans og Elaine segir að ef þeir hafi ekki áhuga á hrossum lengur þá sé nú líklega ekki mikil ástæða fyrir hana að sitja áfram í ritstjórninni. Hahahah, þeir vita ekki hvað þeir eiga við að etja.

Já, og svo vildi ég enda á orðinu eksempelvis sem ég sá vitlaust skipt milli lína í Urban um daginn svo þar stóð eksem-pelvis. Þannig fær það allt aðra merkingu sem gæti leitt af sér ferð á húð og hitt. Og svo er líka til fólk sem heldur að heldigvis sé blótsyrði.

Jæja, best að snúa sér að verkefnum dagsins.
Tschuss

|