<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 30, 2007

Bliv fisker nu!

Þetta átak á að fá fleiri ungmenni til þess að gerast sjómenn. Hlustið á sjóarapönkrokkið sem boðið er upp á neðst til hægri á síðunni.

Það svínvirkar, hver vill ekki vera Rock'n Roll fisker og kutterminister? Ég er stokkin af stað til þess að gerast Baadermaður! Reyndar ekki í fyrsta skipti. Það er eitthvað við þennan árstíma sem hreyfir við Baadermanninum í mér. Jeg er ingen slipsedreng!

|

sunnudagur, mars 25, 2007

KennslulokLoksins er kennslu lokið hjá mér. Ég get því kvatt Grána minn (sjá mynd) og snúið mér að skriftum á ný. Það er svo sem ekki gleðiefni að setjast við skrifborðið en það þýðir þó að vonandi fer að styttast í þessu hjá mér!

Í því skyni að halda aðeins upp á þessi tímamót brá ég mér í bæinn í gær með myndavél og ætlaði að notfæra mér fyrsta almennilega sólskinsdag vorsins til þess að taka nokkrar svart-hvítar myndir. Brá svo við að alls staðar á strætóleiðinni voru tafir og stopp sem varð til þess að ferðin niður í bæ var ansi löng. Ein ástæða þessara tafa var skrúðganga Óraníureglunnar sem fara átti frá Meadows, niður Royal Mile og eftir Princes Street. Ég stillti mér auðvitað upp og fylgdist með göngunni í dágóða stund og drakk í mig það sem fyrir augu bar.

Ýmsir flokkar óraníumanna alls staðar að voru saman komnir og gekk hver flokkur í hóp á eftir sinni flautusveit. Flautusveitirnar eru samansettar úr bassatrommu, sneriltrommum og hópi pikkólóflauta. Fyrir hverri flautusveit fóru fánaberar með skjaldarmerki flokksins. Á fyrsta fánanum sem ég sá stóð "Sheriffhall Young Offenders" og þótti mér stórmannlegt af Óraníureglunni að taka unga afbrotamenn upp á sína arma, sem svo þrömmuðu stoltir á eftir fánanum með appelsínugular lefsur um hálsinn, marghúðflúraðir, tannúrkýldir og krúnurakaðir. Einn var meira að segja húðflúraður á gagnaugað, margir á hálsinn. Skömmu síðar fylgdu eftir "Young Offenders" úr annarri sýslu. Það var ekki fyrr en á þriðja fána að ég áttaði mig á því að í raun stóð "Young DEFENDERS" á þessum fánum. Maður er bara svo vanur að sjá hitt hugtakið í fjölmiðlum að heilinn sleppti því að lesa almennilega auk þess sem útlit meðlimanna hefði passað ágætlega við mína fyrri tilgátu. Svona er ég nú fordómafull.

Eins og glöggir lesendur vita hafa þessar göngur gjarnan verið tilefni mikilla átaka, barsmíða og jafnvel manndrápa í Norður-Írlandi þegar óraníumenn marséra framan í kaþólikkum. Slík átök gætu svo sem átt sér stað í Glasgow þar sem meira ber á ósætti milli mótmælenda og kaþólikka. Edinborg er líklega frekar örugg að þessu leyti og því góð hugmynd að halda þetta hér frekar en annars staðar. Það er þó á hreinu að á meðan á göngunni stóð var bæjarmyndin allt önnur en er venjulega. Göngufólki fylgdi nefnilega stór hópur áhangenda sem annars sjást ekki í svona stórum hópum í miðbænum. Þeir stóðu með bjórglös meðfram gönguleiðinni, krúnurakaðir og tannlausir eins og hinir, kölluðu og sungu með flautusveitunum og uppskáru jafnvel stundum faðmlög frá lufsumönnunum í göngunni. Ekki sá ég bera á kaþólskum uppreisnarseggjum því þetta virtist allt vera í góðu. Einn feitur skalli reyndi af veikum mætti að abbast upp á mig og þegar ég gegndi því engu tók hann sig til og gaf mér á annan þjóhnappinn. Ég leiddi hann hjá mér og hélt ég væri laus við hann þar til um fimm mínútum síðar að hann ávarpaði mig með einu góðu "hey luv". Ég sneri mér við og gaf honum tómt augnatillit en hann tók til máls "I'm sorry about earlier" og ég svaraði "Well, there was no need for that". Þá segir hann "I know, I was just trying to impress my mates" sem fékk mig til þess að skella upp úr í huganum, en útávið hélt ég grímunni, benti á bjórglasið og sagði "It was probably the drink talking". Og hann samþykkti það "Aye, ahm sorry". Frábært, meiriháttar, made my day!

Eftir því sem leið á gönguna virtust göngumenn vera drukknari og drukknari, ein í einni af kvennadeildunum slagaði niður Royal Mile og áhangendurnir gerðust einnig háreystari og háreystari. Þá þótti mér nóg um og hélt heim. Góður dagur!

|

föstudagur, mars 23, 2007

Ísafold, magnþrungna mold!

Eruð þið búin að heyra ástarjátningu Baggalúts til landsins okkar? Legg ég til að Hafnfirðingar hlýði á óðinn áður en skundað er á kjörstað nú í lok mánaðarins.

|

fimmtudagur, mars 22, 2007

Framtíðarplön

Ég er búin að dunda mér við að gera skattskýrslu undanfarna daga, í hvert sinn er færi gefst. Þegar ég var að fylla út rekstraryfirlitið gladdi það mig óskaplega að renna yfir lista atvinnugreina sem færa mátti inn. Listinn var gífurlega langur og var honum raðað upp eftir atvinnugreinanúmerum en ekki eftir stafrófsröð. Þurfti ég því að halda athyglinni í topp þegar ég renndi í gegn um listann til þess að grípa nú mína einu sönnu atvinnugrein. Það þarf ekki að taka fram að hún var afskaplega neðarlega (en byrjar þó á D) og gat ég því barið augum stórkostlega fjölbreyttan lista atvinnugreina. Þar með talið dýnuframleiðslu og kolanám (þar af steinkolanám og brúnkolanám). Er kolanám stundað á Íslandi? Er stundað góðmálmanám á Íslandi? Samanber flokkana "Framleiðsla góðmálma" og "Nám annarra málma en járns, þó ekki úran- og þórínmálmgrýtis".

Næst þegar ég er á landinu ætla ég að labba mig niður á virðisaukadeild skattstofunnar og segjast stunda vinnslu þórínmálmgrýtis. Sé fyrir mér skrifstofublók flettandi upp þórínmálmgrýti í huganum og segja mér svo með fullvissu í málrómnum, notandi allt of flókin og mörg orð á sekúndu að þá þurfi ég eyðublað 4.13. "Ónei, ef þú vinnur með þórínmálmgrýti er sko virðisaukinn verðtryggður og tryggingagjaldið þeim mun hærra, eða sem nemur 3.441% af staðgreiðslunni nema endurgjaldið fari yfir 354.554 kr. á mánuði en þá gildir afturköllunarreglan. Og þar sem þórín er 234% geislavirkara en gull áttu auðvitað rétt á kitlitrompi 5. dag hvers mánaðar".

|
Æ, hann Klítóris

Vá, ekki hélt ég að ungir piltar yrðu svona vandræðalegir þegar rætt væri um anatómíska strúktúra við og í skeiðaropi hryssna. Svo vill nú til að í dýralæknanámi er yfirleitt meirihlutinn stúlkur og því standa drengirnir frekar upp úr í fákarlmenninu. Stúlkurnar flissuðu yfir viðbrögðum piltanna sem stóðu dreyrrauðir og reyndu að stauta sig fram úr dónalegum orðum.

Ég sem er vön að tala um þessi mál á klínískum nótum varð hissa og gerði fyrst góðlátlegt grín að öllu saman en áttaði mig svo á því að ég yrði að fara varlega í þessum efnum. Maður veit aldrei hvað þessir útlendingar eru að hugsa. Þess má geta að ég þurfti að skrifa upp á það að ég væri ekki kynferðisglæpamaður þegar ég tók við þessu kennslustarfi. Þar að auki var nafn mitt borið saman við lista um yfirlýsta barnaníðinga til þess eins að koma í veg fyrir ásakanir um kynferðislega áreitni á hendur háskólanum. Ég ákvað því að hafa mig hæga og hætti að hlæja að drengjunum. Asnalegt.

|

mánudagur, mars 19, 2007

Kuldaboli snýr aftur

Hér er skítakuldi, gránaði í Pentland Hills í nótt og því nauðsynlegt að taka fram ullarsokkabuxurnar enn á ný (sem ég var nýbúin að leggja eftir að hafa búið í þeim meðan ég var lasin) og setja upp húfu og grifflur við samfestinginn. Kennslan fór ágætlega nú síðdegis nema greyjunum var svo kalt að þau reyndu að sleppa snemma en þau komust nú ekki upp með það, ekki á minni vakt!

Ég var svo dæmalaust framtakssöm í gær að ég keypti mér parkódín fyrir rifbeinið og er því öll að koma til. Gat því klætt hrossin í frakkana sína án nokkurra vandkvæða að lokinni kennslu.

|

sunnudagur, mars 18, 2007

Algjör steik

Ég lagði í gær leið undir fót og heimsótti Cynthiu vinkonu mína. Út um strætógluggann á leiðinni sá ég í allt fjóra af nemendum mínum, sem sýnir hversu lítil Edinborg er í rauninni. Cynthia var svo góð að reiða fram þriggja rétta hádegismáltíð handa mér. Byrjað var á hráu fiskmeti, svo voru akurhænur með kastaníum og koníaki og í eftirrétt var einhvers konar rjómablanda. Eftir matinn fórum við á matinee í Traverse leikhúsinu, sáum dulítið leikrit með frægum leikurum. Matinee er frábær hugmynd, ég ætti að gera þetta oftar. Við vorum sem sagt algjörar ladies of leisure, við vinkonurnar.

Í strætó á leiðinni heim tók þó verra við. Ég fékk óstjórnanlegt hóstakast, svona sem kitlar endalaust og er engin leið að stöðva. Nógu vandræðalegt er nú að sitja og engjast með tárin í augunum á almannafæri, en ofan á það virðist ég hafa brotið árans rifbeinið enn frekar því ég fann smella í því og fylgdi því gífurlegur sársauki. Þrátt fyrir sársaukann var engin leið að hætta að hósta fyrr en sjálfvirka taugakerfinu þóknaðist. Nú er ég því enn meiri aumingi en áður.

Ég læt þessa uppákomu þó ekki þröngva upp á mig neinum neikvæðum hugsunum, því eins og lesendur vita (og hafa sumir lýst yfir efasemdum sínum um þetta framtak mitt) ákvað ég að leggja neikvæðum hugsunum yfir páskaföstuna. Brotna rifbeinið, hitasóttin, hóstaköstin og allt sem veikindum mínum hefur fylgt hef ég farið með sem tómt gamanmál enda hefur ekki legið lífið við. Í ákveðnum aðstæðum hefur þó legið við því að fastan yrði brotin, en það er 1: undir stýri þegar einhver annar hegðar sér eins og fífl í umferðinni, 2: þegar MSc nemarnir sem hafa hertekið skrifstofuna mína taka stólinn minn og slökkva ljósið sem ég er að nota. Í tilfelli númer 1 er oftast um að ræða einhvers konar upphrópanir sem ég læt út úr mér án þess að hugsa mikið um það-ergó: engar neikvæðar hugsanir! Í tilfelli númer 2 fæ ég það auðvitað ekki af mér að hrópa neitt en hef yfirleitt tekið stól einhverrar þeirra í staðinn án þess að eyða orku í að hugsa um það-ergó: engar neikvæðar hugsanir!

Sem sagt, fastan heldur enn.

|

þriðjudagur, mars 13, 2007

Spjátrungsspeki

Það er vor í lofti hér í sveit og frábært að spígspora í samfestingnum eins og spjátrungur og þykjast vita betur en annars árs nemarnir sem ég er að kenna. Ég hef alltaf fílað að vera í skítagalla og taka til höndum svo þetta hentar mér alveg ágætlega. Spjalla við hestasveina og
-meyjar á skosku og vera sveitó. I love it!

Kennsla búin í dag og ég sit núna og þýði grein fyrir Eiðfaxa. Um leið hlusta ég á halló íslenska tónlist af lagalistanum sem ég setti saman fyrir þorrablótið. Einmitt núna þenur Jens fagottið og Stebbi falsettóar þig bara þig.

Já, bráðum kemur betri tíð!

|

mánudagur, mars 12, 2007

Ribbensteg

Þessi veikindi mín virðast engan endi ætla að taka og það bætist bara í vandræðin. Mér tókst nefnilega að rifbrjóta mig sökum hóstaláta í gær. Nú er ég helaum í hægri síðu við hvern andardrátt, hvern hósta og hryglu. Þetta er víst ekkert óalgengt og ekkert við því að gera svo ég verð bara að bíða þetta af mér. Svo má við þetta bæta að mig dreymdi að ég væri með sortuæxli á bringunni og það var þakið sóti sem hægt var að kroppa af. Svona er maður nú hraustur um þessar mundir!

|

föstudagur, mars 09, 2007

Ungeren

Æ, ég ætlaði ekkert að vera að tjá mig um Ungdomshuset en eftir að ég sá þetta væm langar mig þrátt fyrir allt aðeins að spekúlera í þessu.

Fólkið sem hafðist við í 'Ungeren' er í daglegu tali kallað autonome (stjórnleysingjar) og eftir að ég flutti til Danmerkur tók ég eftir því að þetta orð var gjarnan viðhaft í fjölmiðlum. Þegar ég spurði Heidi leigusala minn og sambýling hvað þetta orð þýddi var svarið "Det er sådan nogen som kaster med brosten". Þetta er reyndar afskaplega Heidiarlegt tilsvar en heimssýn hennar á það til að vera svolítið barnaleg. Seinna sá ég svo í raun hvað hún átti við með þessu þegar óeirðir brutust út einu sinni sem oftar og byrjuðu á Blågårds Plads þar sem einmitt er lagt með götusteinum. Eftir þessar óeirðir var fyrrnefnt torg og öll gatan sem það liggur við holótt og uppplokkuð því mótmælendur höfðu rifið upp meira eða minna alla götuna og keyrt burt í hjólbörum eða borið í höndunum.

Það af þessu fólki sem gjarnan ber mest á virðist einfaldlega vera atvinnumótmælendur, eins og þeir sem bárust til Íslands í fyrra. Þeir mótmæla til þess að mótmæla, einfaldlega vegna þess að þeir vilja ekki beygja sig undir neinar reglur eða ráðleggingar, og þá sérstaklega ekki ef þær koma frá yfirvöldum. Þessi mótmæli sem ég man eftir skildu eftir sig brotnar rúður eftir endilangri Nørrebrogade, þegar ég hjólaði í skólann daginn eftir voru "glarmester" bílar við hverja verslun, hlaðnir glænýjum glansandi rúðum. Eftir þessa atburði var reynt að innleiða "hætteforbud" vegna þess að margir huldu andlit sín með hettum og klútum. Því var nú ekki lengi framfylgt en ég veit ekki hvernig þeir taka á hettupeysum núna. Annað mál er, að lögreglunni hættir til að vera óþarflega harkaleg og eins og með atvinnumótmælendurna þá þarf ekki nema nokkra einstaklinga sem missa sig og þá er allt komið í bál og brand.

Ungdomshuset sjálft var "gefið" BZ (BZ'er=besætter=hústökumaður) hreyfingunni 1982. Ég veit ekki hversu formleg þessi gjöf var, þ.e. hvort Kaupmannahafnarborg hafi í raun afsalað sér húsinu. Kannski er þetta allt byggt á misskilningi, en ef borgin afsalaði sér húsinu var nú ekki rétt af þeim að selja húsið þessum sértrúarsöfnuði. Í myndbandinu að ofan er því haldið fram að ást og umhyggja hafi verið lögð í húsið, en þegar ég kom þarna einu sinni á pönktónleika sá ég ekki mikið bera á ást og umhyggju. Ekki sá ég nema jarðhæðina, en það sem ég sá var skítugt, dimmt, niðurnítt og ástvana. Aðallega bar á ungum táningsstúlkum sem dregið höfðu nælonsokka á handleggi sína jafnt sem fótleggi og gert fjölda gata í hvora tveggja. Þær teyguðu rauðvín úr fernu og voru afskaplega óhamingjusamar að sjá. Þetta voru jú unglingar, svo við hverju öðru var ég að búast? Ja, þær máttu auðvitað vera eins fúlar og þær lysti, en mér fannst ekki aðlaðandi að dveljast þarna inni lengur en þann tíma sem tónleikarnir tóku. Eins og áður segir sá ég ekki efri hæðirnar, en nokkrum vikum eftir heimsókn mína var sagt frá því í fréttum að undir rúmi í einu herberginu hefði fundist lík konu sem látist hafði nokkrum vikum áður, líklega úr of stórum skammti eiturlyfja. Fyrir mér var þetta því algjört greni. Ég hef þó ekkert á móti því sem er öðruvísi, fólk mátti gjarnan dveljast þarna áfram fyrir mér og mér þótti gaman að hjóla þarna fram hjá reglulega og sjá kröfufánann "Ungeren bli'r" blakta fyrir vindi. Það að húsið skyldi að lokum rifið var það einasta sem borgin sá í stöðunni því ekki vildu þeir éta orð sín og hætta við söluna. Það ber vott um heigulshátt....

|

mánudagur, mars 05, 2007

Heimt úr helju

Haldiði að ég sé ekki bara búin að vera veik síðan ég skrifaði síðast. Ég hélt þá að ég myndi komast í gegnum þessa kvefkveif standandi eins og venjulega en samviskusemin varð mér að falli. Ég var nefnilega búin að lofa mér í það að kryfja áfram á miðvikudaginn eftir kennsluna um morguninn. Þegar ég svipti segldúknum af honum Grána mínum (mynd síðar) og gerði mig líklega til að byrja að skera fór ekki betur en svo að ég skar í fingurinn á mér, slíkt var óráðið. Hnífurinn var ennþá frekar hreinn sem betur fer og sárið grunnt. Ég hékk uppi við þessa iðju í tvo tíma eða þar til ég var farin að hristast af kulda og samstarfsfólk mitt rak mig heim.

Á leiðinni heim marði ég ferð í Sainsbury's þar sem ég keypti tvo pakka af Lemsip, einn pakka af ennisholupillum, annan af parasetamóli, hóstamixtúru, íbúfengel (fyrir brotna fingurinn sem er svo aumur í kulda), kók, vínber, tómata og mjólk.

Fór svo beint undir sæng þegar heim var komið og nötraði þar og skalf með brennandi heitt enni og svitnaði eins og svín. Lá með óráði, hóstaði og hrein en fékk víst lítinn svefn. Ég neyddist til þess að taka veikindafrí frá kennslunni á fimmtudaginn en gat ekkert sofið þann daginn sökum hósta og almennrar eymdar. Var þó komin til kennslu á föstudaginn, eins og ekkert hefði í skorist, og stóð í fimm tíma á sunnudaginn við Grána og skar og skar. Hummaði "Hvað boðar nýárs blessuð sól?" og hlustaði á gleðilætin í tjaldinum fyrir utan skemmuna.

Ég verð nú að segja að fyrir sumt fólk sem glímir við ofát væri sniðug leið að gera samskiptin milli nefhols og tungu óvirk (tímabundið), svona eins og gerist við mikið kvef, því bragðskynið er gjörsamlega ónýtt og það er ekkert gaman að borða þegar svoleiðis stendur á. Þessa dagana bregst ekki að ég missi bragðskynið um kvöldmatarleytið svo ef ég borða ekki frekar snemma þá finn ég ekki bragðið af matnum sem ég hef staðið á haus við að elda. Í gærkvöldi borðaði ég því engan kvöldmat-það tók því ekki! Og rúsínan í pylsuendanum er að allur þessi hósti hefur mikið æfingagildi fyrir kviðvöðvana og maginn á mér því orðinn algjör þvottabretti-auk þess sem vöðvarnir eru frábærlega skornir sökum ofþornunar (öll þessi slímframleiðsla og allur þessi sviti í óráðsköstunum borga sig greinilega!). Þetta er fínasta vaxtarækt.

Að lokum tvennt:

1. Hvað er eiginlega með Eddie Murphy og feitt fólk? Nú er hann enn í gervi feitrar manneskju í einhverjum hroða sem kallast "Norbit" og var að koma út. Mér sýnist að hann leiki mann sem á í einhvers konar sambandi við akfeita konu (sem hann leikur auðvitað líka). Jahá, fraaaaábær hugmynd Eddí!

2. Ömurlegasta auglýsingaslagorð sem ég hef lengi heyrt heyrist í auglýsingu Oral-B fyrir Pulsar tannburstann sinn. Hún er svona:

(Kynþokkafullur karlmaður): The whole world has a pulse
(Marglytta syndir með taktföstum hreyfingum, kornöx bærast í vindi, fótboltamaður heldur á lofti bolta (sic))
(Kynþokkafullur karlmaður aftur): Now, so does a toothbrush!
Og svo framvegis....(ég hef aldrei getað hlustað á restina)
.....Now, so does a toothbrush?! Hverjum datt þessi snilld í hug? Ömurlegt! Ég ætla aldrei að kaupa mér pulsar tannbursta. Aldrei!

|