<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, mars 09, 2007

Ungeren

Æ, ég ætlaði ekkert að vera að tjá mig um Ungdomshuset en eftir að ég sá þetta væm langar mig þrátt fyrir allt aðeins að spekúlera í þessu.

Fólkið sem hafðist við í 'Ungeren' er í daglegu tali kallað autonome (stjórnleysingjar) og eftir að ég flutti til Danmerkur tók ég eftir því að þetta orð var gjarnan viðhaft í fjölmiðlum. Þegar ég spurði Heidi leigusala minn og sambýling hvað þetta orð þýddi var svarið "Det er sådan nogen som kaster med brosten". Þetta er reyndar afskaplega Heidiarlegt tilsvar en heimssýn hennar á það til að vera svolítið barnaleg. Seinna sá ég svo í raun hvað hún átti við með þessu þegar óeirðir brutust út einu sinni sem oftar og byrjuðu á Blågårds Plads þar sem einmitt er lagt með götusteinum. Eftir þessar óeirðir var fyrrnefnt torg og öll gatan sem það liggur við holótt og uppplokkuð því mótmælendur höfðu rifið upp meira eða minna alla götuna og keyrt burt í hjólbörum eða borið í höndunum.

Það af þessu fólki sem gjarnan ber mest á virðist einfaldlega vera atvinnumótmælendur, eins og þeir sem bárust til Íslands í fyrra. Þeir mótmæla til þess að mótmæla, einfaldlega vegna þess að þeir vilja ekki beygja sig undir neinar reglur eða ráðleggingar, og þá sérstaklega ekki ef þær koma frá yfirvöldum. Þessi mótmæli sem ég man eftir skildu eftir sig brotnar rúður eftir endilangri Nørrebrogade, þegar ég hjólaði í skólann daginn eftir voru "glarmester" bílar við hverja verslun, hlaðnir glænýjum glansandi rúðum. Eftir þessa atburði var reynt að innleiða "hætteforbud" vegna þess að margir huldu andlit sín með hettum og klútum. Því var nú ekki lengi framfylgt en ég veit ekki hvernig þeir taka á hettupeysum núna. Annað mál er, að lögreglunni hættir til að vera óþarflega harkaleg og eins og með atvinnumótmælendurna þá þarf ekki nema nokkra einstaklinga sem missa sig og þá er allt komið í bál og brand.

Ungdomshuset sjálft var "gefið" BZ (BZ'er=besætter=hústökumaður) hreyfingunni 1982. Ég veit ekki hversu formleg þessi gjöf var, þ.e. hvort Kaupmannahafnarborg hafi í raun afsalað sér húsinu. Kannski er þetta allt byggt á misskilningi, en ef borgin afsalaði sér húsinu var nú ekki rétt af þeim að selja húsið þessum sértrúarsöfnuði. Í myndbandinu að ofan er því haldið fram að ást og umhyggja hafi verið lögð í húsið, en þegar ég kom þarna einu sinni á pönktónleika sá ég ekki mikið bera á ást og umhyggju. Ekki sá ég nema jarðhæðina, en það sem ég sá var skítugt, dimmt, niðurnítt og ástvana. Aðallega bar á ungum táningsstúlkum sem dregið höfðu nælonsokka á handleggi sína jafnt sem fótleggi og gert fjölda gata í hvora tveggja. Þær teyguðu rauðvín úr fernu og voru afskaplega óhamingjusamar að sjá. Þetta voru jú unglingar, svo við hverju öðru var ég að búast? Ja, þær máttu auðvitað vera eins fúlar og þær lysti, en mér fannst ekki aðlaðandi að dveljast þarna inni lengur en þann tíma sem tónleikarnir tóku. Eins og áður segir sá ég ekki efri hæðirnar, en nokkrum vikum eftir heimsókn mína var sagt frá því í fréttum að undir rúmi í einu herberginu hefði fundist lík konu sem látist hafði nokkrum vikum áður, líklega úr of stórum skammti eiturlyfja. Fyrir mér var þetta því algjört greni. Ég hef þó ekkert á móti því sem er öðruvísi, fólk mátti gjarnan dveljast þarna áfram fyrir mér og mér þótti gaman að hjóla þarna fram hjá reglulega og sjá kröfufánann "Ungeren bli'r" blakta fyrir vindi. Það að húsið skyldi að lokum rifið var það einasta sem borgin sá í stöðunni því ekki vildu þeir éta orð sín og hætta við söluna. Það ber vott um heigulshátt....

|