<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, mars 25, 2007

Kennslulok















Loksins er kennslu lokið hjá mér. Ég get því kvatt Grána minn (sjá mynd) og snúið mér að skriftum á ný. Það er svo sem ekki gleðiefni að setjast við skrifborðið en það þýðir þó að vonandi fer að styttast í þessu hjá mér!

Í því skyni að halda aðeins upp á þessi tímamót brá ég mér í bæinn í gær með myndavél og ætlaði að notfæra mér fyrsta almennilega sólskinsdag vorsins til þess að taka nokkrar svart-hvítar myndir. Brá svo við að alls staðar á strætóleiðinni voru tafir og stopp sem varð til þess að ferðin niður í bæ var ansi löng. Ein ástæða þessara tafa var skrúðganga Óraníureglunnar sem fara átti frá Meadows, niður Royal Mile og eftir Princes Street. Ég stillti mér auðvitað upp og fylgdist með göngunni í dágóða stund og drakk í mig það sem fyrir augu bar.

Ýmsir flokkar óraníumanna alls staðar að voru saman komnir og gekk hver flokkur í hóp á eftir sinni flautusveit. Flautusveitirnar eru samansettar úr bassatrommu, sneriltrommum og hópi pikkólóflauta. Fyrir hverri flautusveit fóru fánaberar með skjaldarmerki flokksins. Á fyrsta fánanum sem ég sá stóð "Sheriffhall Young Offenders" og þótti mér stórmannlegt af Óraníureglunni að taka unga afbrotamenn upp á sína arma, sem svo þrömmuðu stoltir á eftir fánanum með appelsínugular lefsur um hálsinn, marghúðflúraðir, tannúrkýldir og krúnurakaðir. Einn var meira að segja húðflúraður á gagnaugað, margir á hálsinn. Skömmu síðar fylgdu eftir "Young Offenders" úr annarri sýslu. Það var ekki fyrr en á þriðja fána að ég áttaði mig á því að í raun stóð "Young DEFENDERS" á þessum fánum. Maður er bara svo vanur að sjá hitt hugtakið í fjölmiðlum að heilinn sleppti því að lesa almennilega auk þess sem útlit meðlimanna hefði passað ágætlega við mína fyrri tilgátu. Svona er ég nú fordómafull.

Eins og glöggir lesendur vita hafa þessar göngur gjarnan verið tilefni mikilla átaka, barsmíða og jafnvel manndrápa í Norður-Írlandi þegar óraníumenn marséra framan í kaþólikkum. Slík átök gætu svo sem átt sér stað í Glasgow þar sem meira ber á ósætti milli mótmælenda og kaþólikka. Edinborg er líklega frekar örugg að þessu leyti og því góð hugmynd að halda þetta hér frekar en annars staðar. Það er þó á hreinu að á meðan á göngunni stóð var bæjarmyndin allt önnur en er venjulega. Göngufólki fylgdi nefnilega stór hópur áhangenda sem annars sjást ekki í svona stórum hópum í miðbænum. Þeir stóðu með bjórglös meðfram gönguleiðinni, krúnurakaðir og tannlausir eins og hinir, kölluðu og sungu með flautusveitunum og uppskáru jafnvel stundum faðmlög frá lufsumönnunum í göngunni. Ekki sá ég bera á kaþólskum uppreisnarseggjum því þetta virtist allt vera í góðu. Einn feitur skalli reyndi af veikum mætti að abbast upp á mig og þegar ég gegndi því engu tók hann sig til og gaf mér á annan þjóhnappinn. Ég leiddi hann hjá mér og hélt ég væri laus við hann þar til um fimm mínútum síðar að hann ávarpaði mig með einu góðu "hey luv". Ég sneri mér við og gaf honum tómt augnatillit en hann tók til máls "I'm sorry about earlier" og ég svaraði "Well, there was no need for that". Þá segir hann "I know, I was just trying to impress my mates" sem fékk mig til þess að skella upp úr í huganum, en útávið hélt ég grímunni, benti á bjórglasið og sagði "It was probably the drink talking". Og hann samþykkti það "Aye, ahm sorry". Frábært, meiriháttar, made my day!

Eftir því sem leið á gönguna virtust göngumenn vera drukknari og drukknari, ein í einni af kvennadeildunum slagaði niður Royal Mile og áhangendurnir gerðust einnig háreystari og háreystari. Þá þótti mér nóg um og hélt heim. Góður dagur!

|